Í sumar annaðist Íslenskusvið Árnastofnunar skipulagningu tveggja sumarskóla í samstarfi við hugvísindasvið Háskóla Íslands.
Í júní var haldið Nordkurs-námskeið fyrir nemendur frá Norðurlöndunum, sem styrkt er af norrænu samstarfi. Í júlí var svo haldinn alþjóðlegur sumarskóli fyrir nemendur sem komu víðs vegar að.
Tuttugu nemendur sóttu Nordkurs-námskeiðið í júní og þrjátíu og fimm nemendur sóttu alþjóðlega sumarskólann í júlí. Auk staðkennslu var boðið upp á fjarnám fyrir þá sem ekki gátu tekið þátt í júlínámskeiðinu í Reykjavík.
Auk þess að sækja um sjötíu tíma í íslensku máli gafst stúdentum kostur á að hlýða á fyrirlestra um náttúru Íslands, menningu og sögu landsins, íslenskar nútímabókmenntir og íslenskt samfélag. Þá fengu þeir jafnframt tækifæri til að heimsækja menningarstofnanir og skoða sig um á söguslóðum.
Nordkurs-námskeið í Reykjavík hefur verið í boði síðan 1959 en alþjóðlegi sumarskólinn var haldinn í þrítugasta og níunda sinn í ár. Bæði námskeiðin standa yfir í fjórar vikur í senn og veita 10 ECTS-háskólaeiningar. Frekari upplýsingar um sumarskólana má nálgast á heimasíðu Nordkurs og á vef Árnastofnunar.
Markmið námskeiðanna er að gefa alþjóðlegum nemendum tækifæri til að kynnast betur íslenskri tungu og menningu og efla þannig útbreiðslu íslenskrar menningar erlendis. Í gegnum tíðina hafa bæði námskeiðin vakið áhuga á íslenskunámi á erlendri grundu og þannig eflt menntun nýrra fræðimanna og þýðenda.



