Skip to main content

Fréttir

Vegleg bókagjöf færð Árnastofnun

Ragnar H. Ragnar 1938.

Þann 12. janúar barst Árnastofnun höfðingleg gjöf frá börnum Ragnars H. Ragnar, fyrrverandi skólastjóra Tónlistarskóla Ísafjarðar. Um er að ræða bókasafn hans á sviði vesturíslenskra bókmennta. Ragnar fór til Winnipeg um 1920, þá rúmlega tvítugur, til að hefja nám í píanóleik hjá Jónasi Pálssyni, tónskáldi og píanóleikara. Ragnar dvaldi einnig í Norður-Dakóta í nokkur ár fram að stríði og fluttist þangað aftur árið 1945 ásamt Sigríði eiginkonu sinni. Ytra hóf hann að safna bókum markvisst og af ástríðu og hafði komið sér upp heildstæðu safni af bókum á íslensku sem prentaðar voru í Vesturheimi. Ragnar stýrði fjölmörgum kórum, þ. á m. karlakór Íslendinga í Winnipeg. Við heimkomu árið 1948 tók hann við starfi skólastjóra við nýstofnaðan tónlistarskóla á Ísafirði þar sem hann starfaði alla tíð síðan. Ragnar hlaut fálkaorðuna og síðar stórriddarakross fyrir framlag sitt í þágu íslensks tónlistarlífs.