Skip to main content

Pistlar

aðgerð

Orðið aðgerð er fyrirferðarmikið í máli margra og hefur gjarna afar almenna merkingu, vísar til athafnar eða verknaðar af einhverju tagi sem á sér markmið eða er ætlað að skila tilteknum árangri. Segja má að orðið njóti sín vel í samfélagi nútímans, þar sem áhersla er lögð á markvissar athafnir á sem flestum sviðum.

Í lýsingu orðsins aðgerð í Íslenskri orðabók (3. útg., 2002) er fyrrgreind grunnmerking orðsins ekki í forgrunni en þar eru tilgreind ýmis merkingarbrigði gömul og ný sem ástæða er til að huga nánar að. 

Í fremsta merkingarlið er skýringarorðið 'viðgerð' en sú merking á sér litla stoð í nútímamáli. Hún er hins vegar áberandi í eldra máli, eins og dæmi í ritmálssafni Orðabókarinnar allt frá 16. öld bera með sér, og á henni örlar í fornmáli eins og fram kemur í orðabók Árnanefndar, Ordbog over det norrøne prosasprog. Eftirtalin dæmi eru fengin úr ritmálssafni Orðabókarinnar (undir flettimyndinni aðgjörð):

 • koparhringurenn af stór Vidre brotenn er nu i Adgiörd. [frá miðri 18. öld]
 • allir störfuðu nú öllum stundum að aðgjörð skipsins til að gjöra það haffært. [frá miðri 19. öld]
 • Veitti ráðgjafinn Akureyrar kaupstað 6.000 króna lán, þar af 4.000 til aðgjörðar á kirkjunni [frá lokum 19. aldar]
 • var vegavinna aðallega aðgerðir á fjallvegum. [frá miðri 20. öld.]

Annar merkingarliður orðsins í Íslenskri orðabók fær skýringuna 'læknisverk þar sem mein er lagað með höndum eða með hjálp tækja'. Þessi merking er þegar fyrir hendi í fornu máli eins og sýnt er með dæmum í orðabók Árnanefndar. 

Við þriðja merkingarlið er skýringin 'það að gera að fiski, hausa hann, taka innyflin o.s.frv.'. Dæmi í ritmálssafni Orðabókarinnar sýna að sú merking er komin til sögunnar seint á 19. öld en hún getur vissulega verið nokkru eldri.

Í Íslenskri orðabók eru alls tilgreindir 8 merkingarliðir í lýsingu orðsins aðgerð. Tveir þeir síðustu eru nýmæli í 3. útgáfu orðabókarinnar, en þar er vísað til notkunar orðsins sem hugtaks í stærðfræði og í sambandi við tölvuvinnslu.

Nafnorðið aðgerð er myndað af stofni sagnarinnar gera og forsetningunni að. Athyglisvert er að notkun orðsins í ólíkum merkingarbrigðum á sér skýra samsvörun í notkun sagnarsambandsins gera að og sú samsvörun sýnir að merkingarbrigðin eru öll sprottin af sömu rót. Í nútímamáli er sagnarsambandið einkum bundið fiskaðgerð en það kemur einnig fram í föstum samböndum með einstökum nafnorðum í almennari merkingu þar sem vísað er til eins konar lagfæringar eða frágangs (sbr. Íslenska orðabók og Orðastað): 

 • gera að sári, 
 • gera að heyi. 

Hins vegar er það lítt notað núorðið í merkingunni 'gera við', á þann hátt sem algengt var á fyrri tíð og mörg dæmi eru um frá 19. öld í ritmálssafni Orðabókarinnar:

 • býður henni að bæta fyrir hana og gjöra að fötum hennar. [frá miðri 19. öld]
 • hann lét líka gjöra að súlum þeim, sem voru reistar til heiðurs við Marcus Aurelius keisara. [frá miðri 19. öld]
 • mun ég láta gera að húsi þínu, svo það verði fagurt og hreint. [frá lokum 19. aldar]

En samsvörunin við nafnorðið nær einnig til merkingarinnar 'læknisverk'. Í þýðingu Jóns Ólafssonar úr Grunnavík á Nikulási Klím eftir Holberg (frá miðri 18. öld) er tekið svo til orða:

 • ...og kann eg segja með sönnu, at læknerinn, sem þá skyllde gjöra að mjer, þjáðe mig miklu meir enn kvillinn...

Þá er enn ótalin sú merking sem fólgin er í orðasamböndunum fá ekki að gert og geta ekki að þessu gert, sem greinilega er tengd þeirri almennu merkingu nafnorðsins sem nefnd var í upphafi.

Þetta yfirlit sýnir að merking orðsins aðgerð er samfelldari en ætla mætti ef aðeins væri litið til lýsingar þess í orðabókum.

Birt þann 19. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir
 • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans.
 • Íslensk orðabók. Ritstjóri Mörður Árnason. Þriðja útgáfa, aukin og endurbætt. Reykjavík 2002.
 • Ordbog over det norröne prosasprog. 1: a-bam. Redigeret af Helle Degnbol, Bent Chr. Jacobsen, Eva Rode, Christopher Sanders, Þorbjörg Helgadóttir. Udgivet af Den arnamagnæanske kommission. København 1995.
 • Jón Hilmar Jónsson. Orðastaður. Orðabók um íslenska málnotkun. Önnur útgáfa, aukin og endurskoðuð. Reykjavík 2001.