Skip to main content

Pistlar

Akrabók SÁM 72

Vorið 2003 fékk Árnastofnun bréf frá fornbókasala í Ísrael með myndum úr íslensku handriti og leitaði hann fyrir hönd eiganda handritsins eftir skiptum á því og handritum með gyðinglegu efni. Þar sem slíkt finnst alls ekki hérlendis, fannst eiganda handritið best komið á Íslandi en bókina hafði hann keypt á uppboðsvefnum eBay. Handritið var svo keypt til Árnastofnunar með tilstyrk Arnar Arnars læknis og ræðismanns Íslands í Minneapolis. Þetta er eina íslenska handritið, sem vitað er um að borist hafi til Asíulanda, en áður var austast vitað um Sturlunguhandrit í Pétursborg í Rússlandi með hendi Péturs Jónssonar í Svefneyjum.

Skrifari handritsins var rímnaskáldið Árni Böðvarsson (1713–1776) oft kenndur við Akra á Mýrum og því er handritið kallað Akrabók, en á því eru ártölin 1743 og 1748. Árni var skólagenginn þótt aldrei yrði hann prestur og var að öðrum og þriðja að skyldleika við Árna Magnússon handritasafnara. Árni var afkastamesta rímnaskáld 18. aldar og fyrsta skáldið sem fékk prentaðar eftir sig veraldlegar rímur í sérstakri bók, en Ólafur Olavius gaf út rímur af Þorsteini Uxafæti eftir hann í Kaupmannahöfn 1771 og í Hrappsey voru prentaðar þrennar rímur, sem hann átti hlut að. Einnig orti Árni ýmislegt fleira og gerði Björn Karel Þórólfsson góða og nákvæma grein fyrir kveðskap hans í inngangi að Brávallarímum 1965 á vegum Rímnafélagsins. Þekkt er kvæðið Skipafregn, sem Árna hefur verið eignað, en Björn Karel leiddi rök að því að það væri eftir Gunnlaug Snorrason á Helgafelli.

Ferill: Í handritinu stendur, að Jón Grímsson á Hörðubóli í Miðdölum í Dalasýslu eigi það 1832, og 1837 er það í Melabúð í Breiðuvík á Snæfellsnesi. Jón Grímsson var skáldmæltur og voru prentaðar eftir hann rímur af Stývarði og Gný 1909. Næst er vitað um handritið 1898, þegar Sölvi Sölvason gaf handritið Daníel Kristjánssyni. Sölvi var fæddur um 1829 á Syðri-Löngumýri í Húnavatnssýslu og flutti til Vesturheims 1876 ásamt dætrum sínum. Ein þeirra var Ólöf Sölvadóttir, en sögu hennar hefur Inga Dóra Björnsdóttir nýlega ritað (2004). Daníel bjó í Blaine í Washingtonríki, fór vestur 1886, er þá sagður 37 ára, en lést 1923 og var: „ýmsu leyti mjög merkur maður, prýðilega greindur og las mikið og vel.“

Megindrættirnir í sögu handritsins eru: Það var skrifað rétt fyrir miðja 18. öld vestur á Mýrum, um 1830 er það í Miðdölum og skömmu síðar á Hellissandi. Næst er vitað um það á vesturströnd Bandaríkjanna í lok 19. aldar, en ekki er vitað hvaðan það barst vestur. Úr Vesturheimi barst það til Ísraels eftir að hafa verið selt á uppboðsvefnum eBay, og þaðan aftur til Íslands.

Innihald: Fremst í handritinu eru tveir formálar, sem oft fylgja Eddum á 17. öld og þarfnast rannsókna og á eftir er texti Eddu Magnúsar Ólafssonar í Laufási og skyldur því handriti, sem Anthony Faulkes kallaði Y2 í útgáfu á þeirri Eddu 1979. Auðséð er að skrifari notar stundum latneska textann í Resens-Eddu, sem kom út 1665 til að skýra einstök orð.
Á eftir Eddu Magnúsar Ólafssonar í Laufási eru Eddukvæði og ýmis kveðskapur. Þar má nefna Völuspá eftir útgáfu frá 1665. Hávamál eru hér ekki skrifuð eftir útgáfu frá sama ári, en texti Akrabókar og fleiri handrita er sérstakur og nokkuð frábrugðinn Konungsbók og þarfnast rannsókna. Hér er einnig Getspeki Heiðreks konungs, Gátur Gestumblinda, í nokkuð annarri gerð en í Heiðreks sögu. Sumir hafa talið þá gerð frá 17. öld. Hér verður að nefna Vegtamskviðu, öðru nafni Baldursdraum, sem hér er í nokkuð annarri gerð en í hinu gamla Eddukvæðahandritinu. Þriðja gerðin er svo í bók Bartholins Antiqvitatum Danicarum de causis contemptæ a Danis adhoc gentilibus mortis libri tres. Sú bók kom út 1689 og vann Árni Magnússon að henni, en þá hafði hann ekki skinnbókina. Sophus Bugge hélt því fram 1867, að Hrafnagaldur Óðins hefði verið ortur sem inngangur að Vegtamskviðu, svo að brýn þörf er á að rannsaka mismunandi texta kviðunnar, því að þar gæti verið texti frá miðöldum. Seinast er upphaflegt í Akrabók „Þornaddarþula“, og er eitthvert elsta handrit hennar, en hér heitir hún ekki Þornaldarþula. Loks skulu nefndar viðbætur frá 19. öld, hagnýt vísindi eins og „opinbera þiofa ... ad Einginn spilli stúlku ...“.

 

Grein um Akrabók er í XVIII. bindi Griplu, sem kom út 2007 og er þar nánar um handritið fjallað en hér er gert.

Birt þann 19. júní 2018
Síðast breytt 28. júní 2018