Skip to main content

Pistlar

Bókband Árna Magnússonar – AM 424 4to og önnur handrit

Bók stendur upprétt og opin á borði
AM 424 4to
SSJ

Í handritapistli frá 12. apríl 2023 var fjallað um handrit sem varðveitir annál með hendi Árna Magnússonar. Þetta handrit, AM 424 4to, er ekki einungis merkilegt vegna innihaldsins heldur einnig vegna bandsins sem það er bundið í. Eins og fram kom í pistlinum skrifaði Árni annálinn eftir Resenshandriti í Kaupmannahöfn um 1724. Í bandinu kemur þó fyrir annað ártal, 1716, sem segir sína sögu um band handritsins og efnið sem var notað í það.

Ytra byrði bandsins er ekkert stórkostlegt. Það er gert úr þunnum pappa og klætt gráum handunnum pappír sem hefur orðið fyrir dálitlum vökvaskaða að ofan. Seinna hefur kjölurinn verið festur saman með límbandi, líklega til þess að skorða hrygginn og forðast tjón. Á innanverðri kápunni eru bæði föst og laus saurblöð (bæði að framan og aftan) sem eru úr pappír með vatnsmerkjum. (Meira um handunninn pappír og vatnsmerki). Aðalmerkið á saurblöðum AM 424 4to sýnir skjaldarmerki Amsterdam sem er frekar algengt vatnsmerki frá þessum tíma. Mótmerkið er þó ekki eins algengt og sýnir bókstafina „THK“ og ártalið „1716“ fyrir neðan (sjá mynd). Það þýðir að pappírinn sem var notaður í bandið var framleiddur um það bil átta árum áður en Árni skrifaði sjálft handritið (sem er ekki skrifað á sama pappír). Ekki er vitað hvar pappírinn í saurblöðunum var framleiddur en talið er að pappír í Evrópu hafi oftast verið notaður fljótlega eftir framleiðslu eða innan fjögurra eða fimm ára.

Tvær stakar síður úr pappírshandriti. Greinilegar útlínur vatnsmerkja sjást.
Vatnsmerki á saurblöðum AM 424 4to: Mótmerki „THK“ með ártali „1716“ (vinstri) og aðalmerki „Skjaldarmerki Amsterdam“ (hægri).

Árni Magnússon lét binda inn mörg handrit og prentaðar bækur í safni sínu. Varðveittir eru meðal annars reikningar frá bókbindurum í Kaupmannahöfn sem og listar Árna yfir bækur sem þyrfti að binda inn eða endurbinda. Á einum listanum er talað um handrit sem inniheldur Jómsvíkinga sögu og hefur nú safnmarkið AM 15 fol., pappírshandrit frá sautjándu öld sem áður var hluti af stærra handriti sem Árni tók í sundur. Bandið er eins og bandið á annálshandritinu og saurblöðin eru úr sama pappírnum með ártalinu 1716. Loks er til þriðja sautjándu aldar handritið með bókbandi sem notar sama pappír í saurblöðum. Það hefur safnmarkið AM 192 fol. og inniheldur Hervarar sögu og Heiðreks.[1] Því er líklegt að öll þessi þrjú handrit hafi verið bundin af sama bókbindara sem annaðhvort hefur átt bunka af þessum pappír sjálfur eða fengið hann hjá Árna.

Önnur tegund bókbands tengist Árna Magnússyni sem er af öðru tagi en það sem  varðveitt er í AM 424 4to. Þar var notað bókfell og stundum varð gamalt bókfell úr kirkjulegum bókum eða sjávarkortum fyrir valinu. Vitað er að Árni átti bókfell úr gömlum handritum sem hann lét bókbindara fá til þess að lækka kostnaðinn. Efnið í bókbandi á handritum Árna var því með ýmsu móti og fór trúlega eftir verði hvaða efni varð fyrir valinu hverju sinni. En hvaða handrit fengu dýrara band hjá honum en önnur? Það er ekki vitað en áhugavert væri að rannsaka betur bókband frá tíma Árna Magnússonar.

 

[1] Ég er þakklát Silviu Hufnagel fyrir að benda mér á þriðja handritið.

Birt þann 22. nóvember 2023
Síðast breytt 22. nóvember 2023