Skip to main content

Brot úr tvísöngsbók frá um 1500 (AM 687 b 4to)

Tvísöngur er iðulega talinn með merkari tónlistarhefðum Íslendinga fyrr á öldum. Þó hefur fátt varðveist af slíkum lögum í handritum frá því fyrir siðaskipti. Handritsbrotið AM 687 b 4to er með merkustu heimildum um slíkan söng þótt það sé smátt í sniðum, ekki nema tvö samföst blöð eða eitt tvinn í smáu broti, 16.8x11.4cm.

Um uppruna handritsins er flest á huldu en þó virðist ljóst að það er ritað öðru hvoru megin við aldamótin 1500. Nótur eru á þremur af fjórum síðum handritsins en lítill vafi leikur á því að það hefur upphaflega talið fleiri blöð en nú eru varðveitt. Fyrsta síðan var líklega höfð auð til að verja kverið gegn óhreinindum en á 16. öld hafa verið skrifaðar á hana nokkrar gátur og vers. Um eigendur bókarinnar upplýsir athugasemd sem rituð hefur verið undir neðsta nótnastrenginn á einni síðunni:

„Þessa tvísöngsbók á ég, Greipur Þorleifsson, ef skal órændur vera eftir minn föður, því hann sagðist hana engum gefið hafa síðast ég skildi við hann á Skerðingsstöðum og ég vissi að þeir Páll bróðir minn og Björn Jónsson höfðu þessa bók í láni.“

Greipur sá sem var svo mikið í mun að eigna sér tvísöngsbókina var prestur að Stað á Snæfjallaströnd um 1570–1600 og einnig Kirkjubóli í Langadal, og lést fyrir 1601. Faðir hans, Þorleifur Björnsson, var prestur að Reykhólum og var enn á lífi 1581. Hann er fyrsti eigandi handritsins sem vitað er um, en ekki er hægt að segja til um það með vissu hvort það er með hans hendi. Hann var afkomandi höfðingja sem voru viðriðnir handritagerð; faðir hans var einn auðugasti Íslendingur á sinni tíð og sama má segja um langafa hans, Björn ríka Þorleifsson. Árni Magnússon fékk handritsbrotið í sínar hendur á öndverðri 18. öld. Neðst á fyrstu síðunni stendur með hendi hans: „Frá Guðrúnu Ögmundardóttur í Flatey 1707.“

Á blöðunum eru nótur að sex lögum og er ekkert þeirra að finna í öðrum íslenskum heimildum. Fimm laganna eru við trúarlega texta: tveir Maríusöngvar (Ave dei genitrix og Ave virgo fulgida), tveir messusöngvar (Credo in unum Deum, eða trúarjátningin, og Sanctus, eða „Heilagur“) og stutt messutón fyrir þrjár raddir, Jube domine. Er það eina dæmið um þríradda söng af þessu tagi í íslenskum handritum. Sjötta lagið, Gaudent universi creature, er af öðrum toga, líflegur fagnaðarsöngur um komu vorsins.

Í fjórum tilvikum af sex hefur reynst unnt að finna fyrirmyndir laga og/eða texta í erlendum heimildum. Ávallt er um að ræða bækur frá svipuðum tíma og AM 687 b 4to og sýnir það að íslenski skrifarinn hefur verið með puttann á púlsinum og haft aðgang að nýju og vinsælu efni. Maríukvæðið Ave dei genitrix stendur í fjölmörgum erlendum handritum frá 15. öld. Það er útlegging á bænarorðunum „Ave Maria, gratia plena“ og hefst hvert vísuorð nýja kvæðisins á einu orði bænarinnar. Textinn við Ave virgo fulgida á sér að nokkru leyti hliðstæðu í þýskri söngbók frá um 1480 sem gengur undir nafninu Glogauer Liederbuch, en lögin eru gjörólík.

Aðalrödd Sanctus-lagsins stendur í að minnsta kosti 40 erlendum handritum. Flest eru þau þýsk, ítölsk eða bæheimsk og rituð á árunum 1470–1505. Lagið við Credo naut einnig vinsælda á meginlandinu um þetta leyti. Það er dæmi um svokallaðan cantus fractus („brotinn söng“) eða rytmíska gerð sléttsöngs. Slíkur söngur var einkum hafður við trúarjátninguna þar sem texti hennar er með lengra móti. Því sparaðist tími með því að syngja í hressilegum takti. Aðalrödd trúarjátningarsöngsins fór víða og tvísöngsgerðin stendur í nokkrum handritum sem rituð voru í Bæheimi og suðurhluta Þýskalands seint á 15. öld.

Skrifari íslenska handritsins virðist hafa borið lítið skynbragð á að nótera lög í föstum takti. Þetta kemur ekki ávallt að sök enda eru fjögur laganna sléttsöngvar og þeir eru ekki hrynbundnir. Í rytmísku lögunum tveimur, Credo og Gaudent universi creature, vandast málið verulega. Fyrra lagið hefur varðveist annars staðar og því er auðvelt að lagfæra villurnar. Aftur á móti er erfitt að gera sér grein fyrir því hvernig seinna lagið hefur átt að hljóma. Gildir það raunar bæði um lag og texta sem virðist einnig hafa brenglast. Kannski hefur það ekki komið að sök. Hugsanlega hefur handritið verið eins konar glósubók handa skrifaranum sjálfum. Vonandi hefur hann þá kunnað lögin betur en honum tókst að festa þau á blað.

Þótt sumt í AM 687 b 4to orki tvímælis frá skrifarans hendi eru blöðin merk heimild um tónlist á Íslandi í kaþólskum sið. Af þeim má ráða að nótnahandrit voru ekki einungis glæsigripir í eigu klaustra og kirkna. Þau gátu einnig verið af hversdagslegri toga, laus við prjál og ætluð til daglegs brúks. Þá sést af efnisvalinu að um aldamótin 1500 fylgdust íslenskir söngvarar fremur vel með tónlistarmálum sunnar í álfunni og fluttu hingað nýja músík sem var hérlendu söngfólki viðráðanleg.

Birt þann 19.06.2018
Heimildir

Árni Heimir Ingólfsson. Tvísöngur. Reykjavík: Smekkleysa, 2004 (hljóðrit).
Bjarni Þorsteinsson. Íslenzk þjóðlög. Kaupmannahöfn: S.L. Møller, 1906–1910.
Ewerhart, Rudolf. Die Handschrift 322/1994 der Stadtbibliothek Trier als musikalische Quelle. Regensburg: Gustav Bosse Verlag, 1955.
Gozzi, Marco. „Il canto fratto nei libri liturgici del Quattrocento e del primo Cinquecento: L’area Trentina.“Rivista Italiana di musicologia 38 (2003): 3–40.
Ólafur Halldórsson. „Því flýgur krákan víða.“Fróðsskaparrit 18 (1970): 236–258.
Thannabaur, Peter Josef. Das einstimmige Sanctus der römischen Messe in der handschriftlichen Überlieferung des 11. bis 16. Jahrhunderts. München: Walter Ricke, 1962.

Síðast breytt 07.01.2020