Skip to main content

Pistlar

Kerling

Kerling kemur víða fyrir sem nafn á fjalli, tindi eða drang og verða nokkur þeirra nefnd hér: 1) Drangur sem gnæfir upp úr líparítskriðu í vestanverðum Kerlingarfjöllum í Árn. Þar er líka Kerlingará í Kerlingargljúfri. 2) Drangur í vesturhlíð Kerlingarfjalls á Snæfellsnesi, við hana er kennd gamla leiðin um Kerlingarskarð. 3) Fjall eða tindur í landi Skálmarnesmúla í A-Barð. 4) Klettur, „líkt og bograndi kvenmaður“, á Lónseyri í Snæfjallahreppi í N-Ís. 5) Klettadrangur í sjó sunnan við Drangey í Skag. 6) Einstakur drangur í sjó við Ketubjörg í Skag. 7) Fjall upp af Grund í Eyjafirði, hæsta fjall við byggð á Norðurlandi (1538 m). 8) Skersdrangur í sjó nærri Gjögri í Fjörðum í S-Þing. 9) Fjall á milli Borgarfjarðar eystri og Loðmundarfjarðar í S-Múl. 10) Hár standur í Kerlingardal í Mýrdal í V-Skaft. Í flt. Kerlingar sem eru móbergsfjöll í vesturjaðri Vatnajökuls (1207 og 1339 m). (Mynd)

Oft eru til sögur um að Kerlingar séu tröll sem dagað hafi uppi, t.d. um Kerlingu við Lambey í Dalasýslu (Árbók Ferðafélagsins 1989:101). Sama er að segja um Kerlingu á Snæfellsnesi, sem á að hafa verið tröllskessa með silungakippu á baki, sem orðið hafi að steini. Enn er Kerling sunnan við Drangey sem talin var tröll sem orðið hefði að steini. Alloft fer saman Karl og Kerling. Þannig er t.d. Karl og Kerling sitt hvoru megin við Lambey á Hvammsfirði í Dal. (Sýslu- og sóknalýsingar (2003), bls. 75), á Vatnsnesi í V-Hún. (Sýslu- og sóknalýsingar (1950), bls. 35) og í Jökulsárgljúfrum, vestan ár, einnig nefnd Tröll (Mynd í Theódór Gunnlaugsson, Jökulsárgjúfur (1975), bls. 69).

Auk þess eru mörg örnefni samsett með Kerlingu að fyrra lið og verða aðeins fáein þeirra nefnd hér:

Kerlingará var í Mýrdal í V-Skaft. (Landnámabók, Íslensk fornrit I:333) og Kerlingardalur er býli þar, væntanlega kennt við sömu Kerlingu. Þar var einnig Kerlingarfjörður. Þeir voru tveir á landinu. Annar þeirra var vestan Hjörleifshöfða, þar sem segir að kerlingu eina hafi rekið af skipi (Landnámabók, Íslensk fornrit I:332). Hann er ekki til lengur. Annar Kerlingarfjörðurer milli Skálmarness og Litlaness í A-Barð., 9 km langur, nefndur í Fjarðatali frá því um 1200. Líklega eru þessir firðir fremur kenndir við Kerlingar í landslaginu en að kerlingar hafi rekið þar.

Kerlingarfoss. Þeir eru a.m.k. 4 á landinu:1) Í Grímsá í Borg. 2) Í landi Foss í Neshreppi í Snæf. 3) Í Þambá í Strand. 4) Í Dalsá í Hrunamannahrepp í Árn. Ekki er vitað um ástæður þessara nafngifta.

Í sumum örnefnum getur Kerling- átt við kerlingargjöf, þ.e. þegar gömul kona gaf jarðarpart til kirkju fyrir sálu sinni eða til framfærslu sér, t.d. Kerlingarhólmi í landi Brekku í Norðurárdal í Mýr. Sama gæti verið um Kerlingarhólma í Kjóeyjum á Breiðafirði, og einn í landi Melhóls í Meðallandi í V-Skaft. Kerlingarsker eru einnig til, t.d. í mynni Skerjafjarðar í Kjós., í Árnesi í Strand. og á Hellu á Árskógsströnd í Eyf.

Kerlingarstaðir voru býli í Grunnavík í N-Ís. 1710 (Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns VII:265) og annað, eyðikot, í Reynistaðarprestakalli í Skag. (Sýslu- og sóknalýsingar (1954), bls. 53).

Orðið kerling er líka haft sem síðari liður örnefna: Flögukerling er t.d. hátt fjall (1182 m) sunnan við Myrkárdal í Eyf., kennd við bæinn Flögu í Hörgárdal.

Í færeyskum örnefnum er Kelling, bæði eitt og sér og í samsetningum. Það er talið líkingarnafn, þar sem er bæði Risin og Kellingin um tvo dranga í sjó við Eysturoy. Nafnið Kellingasetur á Myrkjanoyri í Norðureyjum er talið eiga rót sína í að þar hvíldust konur á leiðinni yfir fjall í Árnafjørð eða Hvannasund (Christian Matras, Stednavne paa de færøske Norðuroyar (1933), bls. 169-170).

Í norskum örnefnum er sama uppi á teningnum, nafnið Kjerringa er sérstaklega norðanfjalls, bæði ósamsett og í samsetningum, t.d. Kjerringvik, eða Kjerringvåg. Ósamsett er það talið líkingarnafn. Í samsetningum er það talið dregið af því að einstæð kona (ekkja) hafi búið á staðnum. Annars staðar er Kerring- í örnefni, einkum við ströndina, talið tengjast hugmyndum um ógæfu tengda konum (Norsk stadnamnleksikon (1980), bls. 183).

Í sænskum örnefnum er til Käringön, sem er sjávarþorp á eyju í Bóhúsléni. Það er talið hafa að forlið orðið käring í merkingunni ‘(hvítmáluð) varða til að leiðbeina sjófarendum’. Nærliggjandi hólmi heitir reyndar Bonden, og gæti verið samhengi á milli (Svenskt ortnamnsleksikon (2003), bls.182).

Í Danmörku er til Kællingeby (‘konu-, kvennabær’) á Borgundarhólmi (Bent Jørgensen, Stednavneordbog (1994), bls. 168).

Í finnskum örnefnum er Käring til í forliðum örnefna, t.d. Käringmossen í Korsholm, þar sem einnig er Gubbesmossen(gubbe = karl) (Ritva Valtavuo-Pfeifer, Terrängnamn i Svenskfinland (1998), bls. 151).

Sænska Kerlingar-örnefnið leiðir hugann að merkingu orðsins beinakerling í íslensku sem er algengt nafn á grjótvörðum, „sem kallaðar eru kerlingar, ... hlaðnar upp við alfaraveg“ Blanda II:406). Oft var stungið legg (beini) í vörðuna með vísu til kerlingar eða skilaboðum til ferðamanna. Spurning er hvort það er ekki síðari tíma siður en að upphaflega hafi orðið beini í orðinu verið í merk. ‘hjálp til að rata’, sbr. að leiðbeina, beina mönnum á rétta braut, þ.e. *beinikerling. Tvær Beinakerlingareru þekktastar, önnur á Kaldadalsleið (Sveinn Pálsson Ferðabók, bls. 111), hin á Sprengisandi. Orðið er líka haft sem samnafn, t.d. beinakerlingin Sankti Pétur (Skírnir 1926:157), sem er varða hlaðin á alfaraleið.

Birt þann 20. júní 2018
Síðast breytt 28. júní 2018