Skip to main content

Pistlar

Rímtafla - Það er sunnudagsbókstafur

Páskar eru mestu hátíðisdagar kristinna manna og grundvöllur tímatals þeirra. Ólíkt jólum (25. desember) eru páskar ekki haldnir á fyrirfram ákveðnum mánaðardegi heldur fer dagsetning þeirra eftir afstöðu tungls og sólar. Þannig er páskadagur fyrsti sunnudagur eftir fullt tungl að loknum vorjafndægrum og getur orðið á bilinu 22. mars til 25. apríl. Páskar eru það sem eru kallaðir hræranleg hátíð og miðast aðrir hræranlegir hátíðisdagar við páskana, t.d. hvítasunna, uppstigningardagur og pálmasunnudagur. Til þess að halda utan um tímatalið höfðu menn rím en svo nefndust þeirrar tíðar dagatöl. Í rímtöflum er kveðið nákvæmlega á um hvernig reikna skuli út dagsetningar kirkjuársins. Þess konar rím er einmitt að finna í skinnhandritinu AM 249 i fol. Þar er ennfremur ýmislegur fróðleikur um tímatal almennt. Á öftustu síðu handritsins (bl. 11v) segir:


Handrit. Stækka má myndina með því að smella á hana.

„Á tveimur dægrum eru xxiiii stundir, allt hót umfram og augabragð. Ein stund hefur lx mínútur.Í árinu eru xii mánuðir. Vikur fimmtigir og tvær og einn dagur betur. Dagar iii hundrað lx og v dagar.“

Þarna eru grundvallaratriði í tímatali okkar tíunduð: klukkustundir í sólarhring, mínútur í klukkustund, mánuðir, vikur og dagar í ári. Glæsileg tafla eða skífa er á bl. 10v. Um hana segir í handritinu:

„Þessi tabla kennir þér að finna sunnudagsbókstaf á sérhverju ári í þvílíkan máta: Vittu til í fyrstu hvað datum er þess ársins. Sem þú það veist legg þar af eður kasta á burt 1520. En það sem þá eftir er tel í kringum þessa skífu og á hverjum bókstaf sem þú endar töluna, það er sunnudagsbókstafur. Til dæmis viljir þú vita hver að sé sunnudagsbókstafur þá datum skrifast 1588 þá legg eður kasta þar af 1520. Svo hefur þú eftir 68. Það skaltu telja um þessa skífu og byrja við krossinn. Svo endar þína tölu hjá G og sökum þess þar stendur F undir því G. Því merkir það hlaupár og eru þá G og F sunnudagsbókstafir. Ræður G til Mattheusmessu en F síðan. Eins er að finna sunnudagsbókstafinn árlega.“

Þarna kemur ártalið 1588 fyrir og litlu síðar í textanum kemur 1589 fyrir og er ekki ólíklegt að ártalið hafi verið höfundinum eða skrifaranum hugstætt, það hefur líklega ekki verið langt undan þegar handritið var skrifað – nýliðið eða rétt ókomið. Á skífunni sést að blekið er talsvert máðara á bókstöfunum en á krossinum efst. Má gera ráð fyrir að fingri hafi ófáum sinnum verið stutt á skífuna til að reikna og þrautareikna sunnudagsbókstafinn. Byrjað er að telja „F“ það sem er hægra megin við krossinn efst og er síðan haldið áfram réttsælis og talið 68 sinnum, tæplega tveir og hálfur hringur, en krossinn er ekki talinn með. Þá endar fingurinn á „G“ því sem stendur rétt hægra megin við neðsta hluta skífunnar. Undir því „G“ stendur svo „F“ sem merkir að um hlaupár er að ræða.

Nokkrar rithendur eru á handritinu og missettlegar. Það hefur ekki allt verið skrifað í einu heldur verið bætt inn í það færslum eftir því sem árin liðu. Til Árna barst handritið frá Ragnheiði Markúsdóttur prestsmaddömu í Stóra-Dal undir Eyjafjöllum (1657–1739). Forfeður hennar í marga liði í karllegg voru prestar og langalangafi hennar var Gísli Jónsson biskup í Skálholti. Ekki er ólíklegt er að AM 249 i fol. hafi verið handbók eiginmanns Ragnheiðar, sr. Þorvalds Böðvarssonar, eða einhverra forfeðra hennar í preststörfum þeirra. Handritið er nú varðveitt í Reykjavík.

Birt þann 19. júní 2018
Síðast breytt 19. júní 2018