Skip to main content

Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri: Tilurð, samhengi og söfnun 1864–2014

Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri: Tilurð, samhengi og söfnun 1864–2014

Aðalmarkmið verkefnisins er að fjalla ítarlega um söfnun og útgáfu þjóðsagnasafns Jóns Árnasonar Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862–1864) og annað tengt efni með því að búa til ítarlegt, aðgengilegt og notendavænt stafrænt gangasafn með fræðilegri umfjöllun og beinum tengingum við önnur skyld gagnasöfn, bæði íslensk og erlend. Þetta fyrsta stóra þjóðsagnasafn Íslendinga er enn mikils metið og litið svo á að það hafi gegnt mikilvægu hlutverki í viðleitni Íslendinga á 19. öld til að skapa grundvöll þjóðmenningar. Mesti hluti vinnunnar fólst í a) skönnun og skráningu skjala og handrita (sendibréfa, sagnahandrita o.fl.) sem eru grunnheimildir um söfnun Jóns Árnasonar, b) skönnun allra útgefinna þjóðsagnasafna frá 19. öld, c) nákvæmum uppskriftum á bréfum sem tengjast bæði söfnuninni og útgáfunni á þjóðsagnasafninu. Ásamt því hefur innlendum og erlendum upplýsingum sem liggja safninu til grundvallar verið safnað. Allt þetta efni er nú aðgengilegt í gegnum vef verkefnisins (á ensku og íslensku); gagnabankann Sagnagrunn sem veitir nú aðgang að nær öllum prentuðum íslenskum sögnum og ævintýrum; og gagnagrunna Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, handrit.is, einkaskjöl.is og bækur.is, sem gefur t.d. möguleika á samanburði á upprunalegu sögunum í handritunum og prentuðum útgáfum þeirra. Verkefnið hefur ekki aðeins leitt til aðgengis gagnanna á tölvusíðum og í gagnagrunnum heldur hafa einnig verið flutt um það erindi og skrifaðar greinar, bæði á íslensku og ensku, og haldið hefur verið um það málþing. Það mun einnig koma mikið við sögu í væntanlegri bók (Grimm Ripples, ritstýrt af einum stjórnenda verkefnisins) um bylgju þjóðsagnasöfnunar sem reis hátt í Norður-Evrópu á miðri 19. öld, og vonir standa til að ný MA-ritgerð verði byggð á því þar sem fjallað verður ítarlega um söfnunarferlið og það sett í alþjóðlegt samhengi.

Verkefnið hófst árið 2014 og var styrkt af Rannsóknasjóði 2015–2017.

Rósa Þorsteinsdóttir stýrir verkefninu ásamt Terry Gunnell og Aðalheiði Guðmundsdóttur hjá Háskóla Íslands og Erni Hrafnkelssyni hjá Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni.