Skip to main content

ISLEX

Aðalritstjóri: Þórdís Úlfarsdóttir

Verkefnisstjóri: Halldóra Jónsdóttir

ISLEX er margmála orðabókarverk á vefnum með íslenskum uppflettiorðum og dönsku, sænsku, norsku (bókmáli), nýnorsku, færeysku og finnsku sem markmálum. ISLEX er samstarfsverkefni sex fræðastofnana á Íslandi, í Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Færeyjum og Finnlandi. Þær eru:

  • Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (SÁM), Reykjavík
  • Det Danske Sprog- og Litteraturselskab, Kaupmannahöfn
  • Institutt for lingvistiske, litterære og estetiske studier við Háskólann í Bergen, Noregi
  • Institutionen för svenska språket við Háskólann í Gautaborg, Svíþjóð
  • Fróðskaparsetur Føroya í Þórshöfn, Færeyjum
  • Helsinkiháskóli í Helsinki, Finnlandi

Verkefnið hefur verið fjármagnað með opinberu fé auk styrkja úr margvíslegum sjóðum.

Aðgangur að orðabókinni er á eftirfarandi vefsíðum:

islex.is (íslensk heimasíða)

islex.dk (dönsk heimasíða)

islex.no (norsk heimasíða)

islex.se (sænsk heimasíða)

islex.fo (færeysk heimasíða)

islex.fi (finnsk heimasíða)

Um verkið

ISLEX hefur að geyma 50.000 íslensk uppflettiorð ásamt þýðingum á norðurlandamálunum. Orðabókin endurspeglar málnotkun samtímans og miðað er við að íslenskt nútímamál fái að njóta sín sem best. Einnig er nokkuð um orð úr eldra máli, m.a. fornmáli, sem líklegt er að notendur  kunni að rekast á, m.a. nemendur á ýmsum skólastigum. Við orðabókarvinnuna, s.s. afmörkun orðaforðana, merkingargreiningu og val á  notkunardæmum hefur að mjög miklu leyti verið tekið mið af íslenskum textasöfnum. Í orðabókinni eru settar fram þýðingar á einstökum orðum, en auk þess er lögð meiri áhersla á að lýsa merkingu og notkun ýmiss konar orðasambanda en hingað til hefur tíðkast  í íslensk-erlendum orðabókum.

ISLEX-verkefnið hófst árið 2005 og var opnað á vefnum í nóvember 2011. Við ritstjórnina er notaður veftengdur gagnagrunnur sem er sérstaklega hannaður fyrir verkefnið. Í ISLEX eru kostir rafrænnar miðlunar látnir njóta sín og er orðabókin studd myndefni, og framburður allra íslensku uppflettiorðanna er lesinn upp sem hljóð. Sýnd eru full beygingardæmi allra beygjanlegra uppflettiorða með tenglum í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls (bin.arnastofnun.is), en það verkefni er einnig unnið hjá SÁM.

Orðasambönd skipa veigamikinn þátt í orðabókarverkinu og eru nú þúsundir algengra fastra orðasambanda í greinunum. Dæmi um slíkt er orðalag á borð við herða upp hugann, vera gull af manni og hreyfa hvorki hönd né fót. Meirihluti orðasambandanna er valinn með hliðsjón af Stóru orðabókinni um íslenska málnotkun (JPV forlag 2005) eftir Jón Hilmar Jónsson.

Myndefni

ISLEX er skreytt með um 3000 myndum. Myndunum er ætlað að skerpa merkingu orðanna og auka upplýsingagildi þeirra, auk þess sem þær lífga upp á orðabókina.

Jón Baldur Hlíðberg hefur gert flestar myndirnar af fyrirbærum úr ríki náttúrunnar, plöntum, fiskum, fuglum og öðrum dýrum.

Einnig eru í orðabókinni ljósmyndir af ýmsum toga og ennfremur er mikill fjöldi mynda fenginn úr myndabönkum.

 

Tækni

Eingöngu er notaður opinn hugbúnaður við ISLEX-verkefnið. Gagnagrunnurinn sem verkið er unnið í er PostgreSQL og stýrikerfið LINUX. Ragnar Hafstað annaðist uppsetningu gagnagrunnsins og hefur hann einnig séð um forritun fyrir verkefnið og fleiri tæknileg mál.