Skip to main content

Orðabók Háskólans

Stofnun Orðabókar Háskólans
Árin 1918 og 1919 lagði Alþingi fram fé til undirbúnings sögulegrar íslenskrar orðabókar. Var á næstu misserum unnið að tillögum um fyrirkomulag slíks verks og lauk því árið 1920 er út kom greinargerð um tilhögun verksins og sýnishorn orðsgreina. Eitthvað var unnið við orðasöfnun næsta áratug en fjárframlög munu hafa verið naum og féll þetta orðabókarstarf niður.

Alexander Jóhannesson prófessor varð rektor Háskóla Íslands árið 1932 og tvívegis síðar. Hann hafði sýnt orðabókarmálinu áhuga og tekið þátt í blaðaskrifum um það þar sem hann setti fram ákveðnar tillögur um framkvæmd verksins. Þegar í fyrstu setningarræðu sinni vék hann að rannsókn orðaforðans og samningu vísindalegrar orðabókar um íslenskt mál en ekki komst þó neinn skriður á það að sinni.

Vorið 1943 samþykkti háskólaráð fjárveitingu sem verja átti til að vinna að meginreglum sem gilda skyldu við samningu sögulegrar orðabókar um tímabilið frá 1540 til okkar daga. Á fundi í háskólaráði hinn 29. september 1944 var svo samþykkt að ráða mann til að hefja orðtöku rita eftir fyrimælum kennara í íslenskum fræðum.

Samþykkt háskólaráðs markar upphaf starfsemi Orðabókar Háskólans. Í kjölfar hennar var Árni Kristjánsson, síðar menntaskólakennari á Akureyri, ráðinn til orðtöku og réttum tveimur árum síðar var komið á yfirstjórn orðabókarverksins. Fyrri hluta árs 1947 voru starfsmenn orðnir tveir og í ársbyrjun 1948 urðu þeir þrír er Jakob Benediktsson var ráðinn til að taka við forstöðu verksins. Má segja að þá hafi Orðabók Háskólans orðið háskólastofnun þó að það hafi ekki verið formlega staðfest fyrr en með fyrstu reglugerð um Orðabók Háskólans árið 1966.

Yfirstjórn orðabókarverksins var í öndverðu skipuð þremur prófessorum í íslenskum fræðum. Háskóli Íslands greiddi allan kostnað við undirbúning orðabókarmálsins og orðabókarstarfið fyrstu árin. En um þær mundir sem Orðabókin fékk sérstaka stjórn og fyrstu starfsmenn voru ráðnir til fastrar vinnu var sótt um fjárframlag á fjárlögum til stofnunarinnar. Það fékkst árið 1947 og skiptist kostnaður jafnt milli Háskólans og ríkisins. Smám saman óx hlutur ríkisins og loks varð orðabókarstarfið sérstakur liður á fjárlögum.

Orðabókin var upphaflega til húsa í Aðalbyggingu Háskólans en fluttist þaðan 1969 í Árnagarð við Suðurgötu þar sem hún var til 1991 þegar stofnunin fluttist í núverandi húsnæði á Neshaga 16.

Efnisöflun í sögulega orðabók
Fyrstu áratugina sem Orðabók Háskólans starfaði var aðallega fengist við efnissöfnun til sögulegrar orðabókar um tímabilið 1540 til nútímans. Nær allt prentað mál fram á 19. öld var lesið og orðtekið og mikið frá 20. öld. Allt orðtekið efni var skrifað upp á seðla og þeim raðað í stafrófsröð og hefur með þessum hætti orðið til aðalseðlasafn Orðabókarinnar, svonefnt ritmálssafn. Það er þó ekki einskorðað við prentað mál því talsvert var líka orðtekið úr handritum í Landsbókasafni, Þjóðskjalasafni og á Árnastofnun, einkum úr skjalasöfnum biskupsstólanna, svo og kvæðahandritum og syrpum eftir nafngreinda menn. Dæmi úr þessari orðtöku fylla og bæta safnið í ýmsum greinum. Í safninu eru u.þ.b. tvær og hálf milljón seðla og þeir geyma dæmi um notkun rösklega sjö hundruð þúsund orða.

Auk þessa voru skrifuð upp orð úr orðasöfnum í handritum frá síðari öldum. Þessum orðum er haldið til haga í sérstöku safni og er það eitt af sérsöfnum Orðabókarinnar. Meðal sérsafnanna er líka seðlasafn úr orðabók Jóns Ólafssonar úr Grunnavík (1705–1779) og fleiri verk.

Í sumum sérsöfnunum er efni úr mæltu máli en Orðabókin beitti sér einnig fyrir orðasöfnun úr talmáli. Sú söfnun tengdist einkum þættinum Íslenskt mál í Ríkisútvarpinu sem starfsfólk Orðabókarinnar annaðist á árunum 1955–2005. Þar var í fróðleiks skyni fjallað um hin ýmsu svið tungunnar og spurningum beint til hlustenda um orð og orðatiltæki. Með tímanum safnaðist geysimerkilegt efni í talmálssafn Orðabókarinnar og er margt af því óþekkt í öðrum söfnum hennar, t.d. vitnisburður um fjölda staðbundinna orða og merkinga. Seðlar í safninu eru hátt í tvö hundruð þúsund.

Á síðari starfsárum Orðabókarinnar var komið upp tölvuskráðu textasafni til stuðnings og viðbótar því efni sem seðlasöfnin geyma og er meginhluti þess fenginn frá bókaútgefendum og prentsmiðjum. Safnið fór mjög vaxandi og varð æ mikilvægara sem undirstaða orðabókarlýsingar og málfræðirannsókna.

Yfirlitsskrár og úrvinnsla
Árið 1982 var farið að huga að tölvuvæðingu á Orðabók Háskólans og næsta ár eignaðist stofnunin fyrstu tölvurnar. Tölvuvæðingin gjörbreytti vinnuumhverfinu á stofnuninni og opnaði margvíslega möguleika, bæði í efnisöflun og úrvinnslu efnisins en ekki síst í því sem varðar aðgengi að söfnunum. Í upphafi beindist tölvuvinnslan einkum að því að veita betri yfirsýn yfir söfn stofnunarinnar og að gera þau aðgengilegri, bæði fyrir starfsfólk og aðra. Í framhaldi af því fór fram margvísleg úrvinnsla og greining á efninu.

Fyrsta tölvuskráningarverkefnið var gerð yfirlitsskrár um ritmálssafnið, svonefndrar ritmálsskrár, sem lokið var við árið 1988. Þessi skrá hefur æ síðan verið kjarninn í gagnasöfnum Orðabókar Háskólans. Yfirlitsskrár um önnur orðasöfn fylgdu í kjölfarið.

Annað stórverkefni var tölvuskráning meginhluta notkunardæma ritmálssafnsins, sem að mestu leyti fór fram fyrir tilstyrk Lýðveldissjóðs á árunum 1995–97. Sú skráning varð síðan undirstaða nýrra verkefna, svo sem orðasambandaskrár sem unnin er upp úr dæmasafninu.

Þegar tölvuvinnsla hófst var fljótlega farið að huga að úrvinnslu efniviðarins og gerðar voru tilraunir með úrvinnslu og ritstjórn. Ritmálsskráin gerði kleift að afmarka viðfangsefnin óháð stafrófsröð og beindist tilraunin fyrst og fremst að sagnorðum. Notkunardæmi um þau voru tölvuskráð og á árunum í kringum 1990 var unnið að umfangsmikilli greiningu á setningarfræðilegum, beygingarlegum og merkingarlegum einkennum þeirra.

Þessu verkefni lauk árið 1993 með útgáfu sýniheftis með öllum sögnum á stafabilinu þa- til þjö- auk samsettra og forskeyttra sagna sem hafa þær að síðari lið. Í heftinu eru alls 113 flettur eða orðabókargreinar en talsvert fleiri orð koma við sögu þegar allt er talið. Tilgangurinn með sýniheftinu var tvíþættur. Annars vegar var því ætlað að vera prófsteinn á það hvernig söfn Orðabókarinnar og greiningaraðferðirnar dygðu þegar kæmi að því að setja saman fullbúinn orðabókartexta og kanna um leið hversu miklar viðbætur reyndust nauðsynlegar. Hins vegar var sýniheftinu ætlað að birta afraksturinn þannig að hægt yrði að fá ábendingar og athugasemdir frá væntanlegum notendum áður en lengra yrði haldið við orðabókarlýsingu.

Þýðingarstöðvar
Meðfram meginstarfi sínu tók Orðabók Háskólans að sér ýmis hagnýt verkefni sem höfðu margvíslegt fræðilegt og fjárhagslegt gildi fyrir stofnunina. Fyrsta framtakið í þessa átt fólst í rekstri tveggja þýðingarstöðva sem Orðabókin kom á fót í samvinnu við aðra aðila. Önnur þeirra annaðist þýðingar á tölvuforritum og leiðbeiningum með þeim fyrir IBM á Íslandi og síðar Nýherja. Sú starfsemi hófst árið 1984 og stóð til 1995. Hin var stofnuð árið 1990 í samráði við utanríkisráðuneytið til að þýða lög og reglugerðir Evrópusambandsins og átti Orðabókin aðild að henni til ársloka 1992.

Útgáfustarfsemi
Að lokinni ýtarlegri rannsókn á tíðni orða og ýmissa málfræðiatriða í íslensku nútímamáli gaf Orðabók Háskólans út Íslenska orðtíðnibók árið 1991. Útgáfustarfsemi á vegum stofnunarinnar hófst þremur árum fyrr þegar tímaritinu Orð og tunga var hleypt af stokkunum og síðan með útgáfu Íslenskrar orðsifjabókar eftir Ásgeir Blöndal Magnússon 1989. Viðamestu útgáfuverkefnin á vegum Orðabókarinnar voru endurútgáfur orðabóka í ritröðinni Orðfræðirit fyrri alda.

Orðabókin var samstarfsaðili Eddu hf. við 3. útgáfu Íslenskrar orðabókar sem lauk árið 2002. Annað samstarfsverkefni við Eddu var gerð orðstöðulykils að skáldverkum Halldórs Kiljans Laxness.

Tungutækniverkefni
Tungutækni og vélræn greining á textasöfnum var vaxandi þáttur í starfsemi Orðabókarinnar. Með atbeina verkefnisstjórnar menntamálaráðuneytisins í tungutækni og í samstarfi við Eddu hf. var ráðist í heildstæða beygingarlýsingu íslensks nútímamáls (BÍN) og síðan í gerð markaðrar íslenskrar málheildar (MÍM), sem fól í sér vélræna málfræðigreiningu á stóru safni fjölbreyttra texta úr nútímamáli.

Að frumkvæði menntamálaráðuneytisins og í umboði þess vann Orðabókin að því að setja saman íslenskan orðabókagrunn í orðabækur milli íslensku og annarra mála sem sérstaklega væru ætlaðar byrjendum í íslenskunámi. Verkefnið byggðist á sænska orðabókarstofninum LEXIN og var unnið í samvinnu við Aksis í Bergen þar sem unnið er að sambærilegu norsku verkefni. Þessu verkefni var ekki að fullu lokið en efniviðurinn hefur verið notaður í ýmiss konar tungutækniverkefni.

Um miðjan 10. áratuginn var lagður grunnur að íslenskum stofni í nýjar íslensk-norrænar orðabækur með norrænum fjárframlögum.  Þessi stofn varð síðan uppistaðan í flettuskrá ÍSLEX-orðabókanna sem hafist var handa við að semja nokkrum árum síðar. ÍSLEX var unnið í samvinnu við stofnanir í Bergen, Gautaborg og Kaupmannahöfn og síðar einnig í Þórshöfn og Helsinki.

Þjónusta við fræðimenn og almenning
Í húsakynnum Orðabókarinnar var góð aðstaða fyrir fræðimenn, háskólastúdenta og aðra áhugamenn til að nýta sér gögn stofnunarinnar til margvíslegra athugana og einnig var beinn aðgangur að stórum hluta gagnanna á vefsíðu Orðabókarinnar.

Höfundar ýmissa orðabóka hafa sótt efnivið í söfn Orðabókar Háskólans að meira eða minna leyti. Má þar nefna Íslenska orðabók handa skólum og almenningi sem Árni Böðvarsson ritstýrði (1963; 2. útg. 1983), Íslenska orðsifjabók Ásgeirs Blöndals Magnússonar (1989) , fyrrverandi forstöðumanns Orðabókarinnar, Merg málsins eftir Jón Friðjónsson (1993) og Orðastað (1994; 2. útg. 2001), Orðaheim (2002) og Stóru orðabókina um íslenska málnotkun (2005) eftir Jón Hilmar Jónsson.

Þá sinnti starfsfólk Orðabókarinnar margvíslegum fyrirspurnum frá almenningi. Sumar snertu efniviðinn í söfnunum beint en margir leituðu líka til Orðabókarinnar til að fá almennar leiðbeiningar um orðanotkun og málfar.

Ársskýrslur Orðabókar Háskólans 2004-2006