Skip to main content

Íslensk málstöð

Íslensk málstöð var starfrækt 1985–2006. Málstöðin var ríkisstofnun með sjálfstæðan fjárhag og heyrði undir menntamálaráðherra. Stofnunin var skrifstofa Íslenskrar málnefndar og miðstöð þeirrar starfsemi sem málnefndin hafði með höndum.

Höfuðmarkmið Íslenskrar málstöðvar var að vinna að framgangi íslenskrar málstefnu eins og hún kom fram í lögum um Íslenska málnefnd, nr. 2/1990, þar sem grundvallarhugtök voru varðveisla og efling íslenskrar tungu. Undir þetta féllu þau tvö meginsvið sem Íslensk málstöð lagði í starfi sínu höfuðáherslu á. Annars vegar var almennt íslenskt mál og málfarsráðgjöf. Hins vegar var íðorðastarf og rekstur orðabanka.

Meginþættir í starfsemi Íslenskrar málstöðvar voru eftirtaldir:

a) Vinna að eflingu íslenskrar tungu og varðveislu hennar í ræðu og riti.
b) Vera stjórnvöldum til ráðuneytis um íslenskt mál.
c) Hafa samvinnu við stofnanir sem afskipti hafa af íslenskum manna- og staðanöfnum og þá sem mikil áhrif hafa á málfar almennings, svo sem fjölmiðla og skóla.
d) Veita opinberum stofnunum og almenningi leiðbeiningar um málfarsleg efni á fræðilegum grundvelli (einkum með hliðsjón af íslenskri málsögu, málfræði nútímamáls og málræktarfræði).
e) Gefa út rit til fræðslu og leiðbeiningar um íslenskt mál, þ. á m. stafsetningarorðabók með ritreglum og önnur hagnýt orðasöfn, og beita sér fyrir fræðslu um málið og meðferð þess, m.a. með fundarhöldum, námskeiðum og fyrirlestrum. Í þessu fólst jafnframt kynning á íslenskri tungu og málrækt gagnvart almenningi, stjórnvöldum og fræðimönnum hér á landi og erlendis.
f) Vinna að skipulagðri nýyrða- og íðorðastarfsemi í landinu, m.a. með því að reka orðabanka og nota hann til að safna saman nýyrðum og íðorðum (orðaforða í sérgreinum) og gera þau öllum aðgengileg á einum stað. Aðstoða eftir þörfum við val nýrra orða og við nýyrðasmíð. Sinna tæknilegri og málfræðilegri aðstoð við orðanefndir og aðra sérfræðinga sem fást við myndun orða til útgáfu í sérhæfðum orðasöfnum.
g) Hafa samstarf við aðrar málnefndir á Norðurlöndum og eftir atvikum við aðrar erlendar málræktarstofnanir. Hafa samstarf við norrænar og alþjóðlegar stofnanir og samtök sem sinna íðorðamálum og gefa út sérhæfð orðasöfn. Leitast að öðru leyti við að kynna sér alþjóðlegt starf til eflingar þjóðtungum.