Skip to main content
Starfsfólk
Til baka
Teresa Dröfn Njarðvík

Teresa Dröfn Njarðvík

Handritasvið
doktorsnemi
Árnagarður

Heiti doktorsverkefnis: Frá Ölvis rímum sterka til Bragða-Ölvis sögu

Rannsóknin miðast við sagnaþróun á Íslandi og samband milli hetjukvæða, rímna og sagna, með sérstakri áherslu á Ölvis rímur sterka og Bragða-Ölvis sögu. Rímurnar og sagan verða athugaðar og settar í samhengi við bókmenntaþróun síðmiðalda á Íslandi. Textaútgáfa á sögunni og rímunum myndi síðan fylgja verkinu í viðauka, þar sem efnið er ýmist óútgefið eða illaðgengilegt. Rannsóknin mun því ekki aðeins auka við þekkingu á bókmenntaflóru Íslands á fyrri öldum, sagnaþróun og samblöndum hefða, heldur mun hún einnig tryggja aðgengi að þessum áður óútgefnu textum og koma þeim þar með inn í fræðilega jafnt sem almenna umræðu. Eitt af markmiðum rannsóknarinnar er að gera þessa áður óútgefnu texta aðgengilega sem flestum notendum og því verða textarnir prentaðir stafrétt eftir handritum auk þess sem stefnt verður að því að prenta textana með nútímastafsetningu aftan við. Leitast verður við að útskýra íslenska bókmenntahefð og sagnaþróun og skilja hvernig frásagnir „flökkuðu“ milli bókmenntategunda og voru aðlagaðar í breytilegu formi í takt við samfélagið. Kenningar um sagnaþróun verða settar fram og útskýrðar og verkin tvö sett í samhengi við íslenska bókmenntaflóru í stærra samhengi.

Leiðbeinandi er Aðalheiður Guðmundsdóttir, prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.