Skip to main content

Pistlar

appelsína

Appelsínur, Jacques Linards (1600-1645), Louise Moillon (1610-1696)

Orðið appelsína er ekki gamalt í málinu. Í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans eru tvö elstu dæmin um orðið frá árinu 1858. Í fyrra dæminu er minnst á „þakklæti fyrir abelsínurnar (Sonur gullsmiðsins á Bessastöðum. Bréf til Gríms Thomsens og varðandi hann) og það síðara er uppskrift meðvökva úr 2 appelsínum“ (Þóra A. N. Jónsdóttir: Ný matreiðslubók ásamt ávísun um litun, þvott o.fl.).

Á vefnum Tímarit.is kemur appelsína fyrst fyrir í blöðum árið 1862 (Ný sumargjöf, bls. 94) og hljóðar dæmið svo:

Orange-ávextir (appelsínur) voru fluttir frá Kína til Portúgal, 1547, og komust þaðan út um suðurhluta Evrópu.

Vert er að geta þess að í ritmálssafninu fyrirfinnast tvær samsetningar með appelsína sem eru fáeinum árum eldri en ósamsetta orðið en það eru appelsínusending (1852) og appelsínukassi (1853). Bæði orðin eru í ritinu Gömul Reykjavíkurbréf 1835-1899 sem kom út 1965.

Íslenska orðið appelsína er komið úr dönsku appelsin og merkir það upphaflega ‘kínaepli’. Í orðabókinni Ordbog over det danske sprog segir að orðið sé þekkt í dönsku frá 17. öld. Það virðist því hafa liðið langur tími frá því að Danir nefna appelsínur og þangað til Íslendingar litu fyrst þennan ávöxt, en samkvæmt heimildunum hafa appelsínur fyrst þekkst á Íslandi um og eftir miðja 19. öldina. Í þá daga voru þær einkum fluttar inn fyrir jólin.

Á árunum milli 1880–1900 má finna allnokkur dæmi um orðið í blöðum og tímaritum, og virðist þá innflutningur á appelsínum hafa verið orðinn stöðugur. Þegar hér er komið sögu er ekki lengur talin ástæða til að setja erlenda heitið innan sviga eða viðhafa frekar útskýringar á orðinu eða fyrirbærinu. Appelsínan var komin til að vera.

Glóaldin

Tilraun var gerð til að búa til alíslenskt orð yfir appelsínu, glóaldin, í stað þess að notast við danska tökuorðið appelsin með dálítilli aðlögun að íslensku. Elsta þekkta dæmi um orðið er frá 1926. Á fyrstu áratugum 20. aldar urðu til íslensk heiti ýmissa fleiri ávaxta, s.s. gulaldin (sítróna), bjúgaldin (banani) og rauðaldin (tómatur). Ekki tókst að tryggja stöðu glóaldinsins í málinu frekar en önnur þau orð sem hér eru nefnd, en svo virðist sem Íslendingum hafi fallið betur að nota erlendu heitin með íslenskum endingum. Orðið er þó ekki alveg gleymt — það má enn finna dæmi um glóaldin í ræðu og riti en þá er það mest notað í gamansömum stíl.

Birt þann 12. ágúst 2019
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Ritmálssafn Orðabókar Háskólans. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Tímarit.is. Landsbókasafn Íslands — Háskólabókasafn.
Ordbog over det danske sprog. Det Danske Sprog- og Litteraturselskab.