Skip to main content

Pistlar

Gjöf frá Sovétríkjunum

Eintak Árnastofnunar af útgáfu Ígorskviðu frá 1985. Bókin er að hluta til ljósprentað afrit af eldri útgáfu frá 1934.
SSJ

Í þessum pistli er brugðið út af vananum því að bókin sem hér er fjallað um er ekki handrit heldur prentuð bók. Bókin var gefin út árið 1985 í Sankti-Pétursborg sem þá hét raunar Leníngrad. Innihaldið er myndskreytt útgáfa af hinu forna kvæði Ígorskviðu. Kvæðið er ort nálægt árinu 1200 og fjallar um herför Ígors Svjatoslavítsj suður að Svartahafi. Í útgáfunni er bæði fornausturslavneski frumtextinn og ensk þýðing en einnig nokkur litprentuð listaverk sem sýna atburði kviðunnar. Bókin er fallegur gripur en hún er ekki sérstaklega sjaldgæf eða dýr og það eintak hennar sem Árnastofnun á er í engu frábrugðið öðrum eintökum að efni eða útliti. Þó á það sér athyglisverða sögu en Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi eignaðist bókina að gjöf frá gesti sem sótti stofnunina heim.

Kona með stutt hár í blárri skyrtu skoðar bók ásamt manni með grátt hár, gleraugu og þverslaufu. Annar maður gægist yfir axlir þeirra.
Raísa Gorbatsjova og Ólafur Halldórsson skiptast á bókum
Jóhanna Ólafsdóttir

Dagana 11. og 12. október 1986 áttu Ronald Reagan og Míkhaíl Gorbatsjov fundi í Höfða þar sem rætt var um kjarnorkuvá og afvopnun. Eiginkona hins síðarnefnda, Raísa Gorbatsjova, hafði slegist með í förina til Íslands og meðan leiðtogarnir sátu á rökstólum heimsótti hún nokkra staði í Reykjavík – þar á meðal Laugardalslaug, Þjóðminjasafnið og Árnastofnun. Ferðir hennar vöktu athygli og var vandlega fylgt eftir af íslenskum og erlendum fjölmiðlum. Bandaríska dagblaðið New York Times kallaði Reykjavíkurheimsókn hennar sigurför í almannatengslum og sagði Gorbatsjovu fagra, hrífandi, blíða og fróða. Sérstaklega getur blaðið um heimsóknina á Árnastofnun og segir að gesturinn hafi verið í essinu sínu þegar rætt var um fræðileg málefni. Það kemur kannski ekki alfarið á óvart því að hún var sjálf háskólakennari.

New York Times segir frá því að Gorbatsjova hafi gefið Árnastofnun bókina um Ígor og af því tilefni spyr íslenskur fréttamaður hana hvort þetta sé sami maður og Ígor fursti sem Borodín samdi óperu um. Gorbatsjova mun hafa svarað í löngu máli og rakið atburðarás óperunnar en sannarlega er um sama höfðingja að ræða og óperan er raunar samin eftir kviðunni.

Í íslenskum fjölmiðlum er einnig fjallað vinsamlega um heimsóknina á Árnastofnun. Fræðimaðurinn Ólafur Halldórsson tók á móti gestinum og segir í samtali við DV að „Raisa var mjög áhugasöm, einn af okkar aláhugasömustu gestum sem hingað hafa komið“. Ólafur greinir frá því að í heimsókninni sýndi hann Gorbatsjovu Flateyjarbók og las upp úr henni kafla um Valdimar konung í Hólmgarði og drottningu hans. Þessi kafli hefst svona:

„Í þann tíma er Gunnhildarsynir gengu til ríkis í Noregi réð fyrir Hólmgarði – það köllum vér Garðaríki – einn ágætur konungur, sá hét Valdimar. Hann átti dýra drottning er Arlogia hét. Hún var vitur og vinsæl og vel skapi farin, mjög góðgjörn og góðrar náttúru þó að hún væri þá heiðin. Svo er sagt að þá væri enn heiðið allt Garðaríki.“ (Flateyjarbók, bl. 10v)

Ólafur veitti bókinni um Ígor viðtöku og gaf á móti ljósprentaða útgáfu af Helgastaðabók. Þar í er saga heilags Nikulásar sem löngum var í hávegum hafður í Rússlandi.

Herför Ígors fursta endaði með ósköpum en hann var gjörsigraður og sjálfur tekinn höndum. För Gorbatsjov-hjóna til Reykjavíkur var talsvert árangursríkari. Að vísu var ekki samið um afvopnun í það skipti en báðir aðilar fundu samningsvilja hjá hinum og ári seinna tókst þeim að sigla málinu í höfn.

Birt þann 22. febrúar 2024
Síðast breytt 28. febrúar 2024
Heimildir

ÁB. „Dagur Raísu Gorbatsjovu“. Þjóðviljinn, 12. október 1986, bls. 14.

Dowd, Maureen. „Raisa Gorbachev’s Reyjkavik [svo] Visit: A Public Relations Coup for Moscow.“ The New York Times, 12. október 1986, hluti 1, bls. 12.

Flateyjarbók. GKS 1005 fol.

Helgastaðabók. Nikulás saga. 1982. Selma Jónsdóttir, Stefán Karlsson og Sverrir Tómasson rituðu formála. Reykjavík: Lögberg og Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi.

KÞ. „Einn af okkar aláhugasömustu gestum“. DV, 12. október 1986, bls. 14.

The Tale of the Host of Igor. 1985. Leningrad: Aurora Art Publishers.