Skip to main content

Hítardalsbók – Njálutexti frá ýmsum öldum

Samkvæmt handritaskrám er texta úr Brennu-Njáls sögu að finna í 18 skinnhandritum frá miðöldum. Ekkert þeirra er heilt og samanstanda flest handritanna einungis af fáeinum blöðum. Árni Magnússon hafði það fyrir sið að geyma saman handrit sem innihéldu sama texta, jafnvel að því marki að hann hlutaði handrit í sundur til að einfalda skipulag bókasafns síns. Í safni Árna er m.a. að finna 56 skinnblöð með Njálutexta sem Árni hefur sankað að sér yfir langt tímabil, ýmist á ferðum sínum um landið eða fengið þau send. Þessum blöðum var síðar fengið safnmarkið AM 162 B fol. Jón Sigurðsson, sem starfaði á Árnasafni í Kaupmannahöfn um miðja nítjándu öld, taldi blöðin vera leifar tíu handrita og auðkenndi hann hvert þeirra með einum staf gríska stafrófsins. Eitt þessara brota er AM 162 B ε fol., einnig þekkt sem Hítardalsbók eða epsílonbrotið. Handritið samanstendur af átta blöðum sem Árna Magnússyni áskotnuðust úr ýmsum áttum og liðu a.m.k. þrettán ár milli þess að hann fékk fyrsta brotið þar til hann fékk það síðasta. Textinn á hinum varðveittu blöðum er óheildstæður: á fyrsta blaði er texti sem svarar til 36.–38. kafla Njáls sögu en á blöðum 2–8 nær textinn frá 82. til 107. kafla, þó með fjórum mislöngum eyðum inn á milli.

Þó að blöðin séu öll svipuð að stærð og uppsetning textans á þeim keimlík er ljóst að blöðin hafa ekki frá upphafi átt saman. Það að höndin á blaði 1 sé önnur en á blöðum 2–8 er vart í frásögur færandi enda algengt að skrifarar skiptist á við skriftir. Það sem er aftur á móti óvenjulegt er að höndin á blaði 1 notast við mun yngri stafsetningu en höndin á blöðum 2–8. Þessu veitti Stefán Karlsson handritafræðingur eftirtekt seint á síðustu öld. Hann áætlaði að fyrsta blaðið hafi verið ritað um 1500 en að hin sjö blöðin væru sennilega rituð á síðasta aldarfjórðungi 14. aldar. Eldri hlutinn gæti þó jafnvel verið nokkru eldri, eða frá um 1350. Það munar því tæpast minna en öld á milli þess að skrifari blaða 2–8 lauk sinni vinnu þar til skrifari blaðs 1 tók upp pennann.

Hinn eldri hluti Hítardalsbókar hefur verið býsna myndarlegur þegar handritið var heilt. Að ummáli eru blöðin næststærst Njáluhandrita á eftir Möðruvallabók, AM 132 fol. Textinn er ritaður í tveimur dálkum með ríflegum spássíum. Kaflaskipti eru auðkennd með skreyttum upphafsstöfum sem ýmist eru grænir, rauðir, bláir eða gulir og eru þeir oft lýstir með fleiri en einum lit; kaflafyrirsagnir eru ritaðar með rauðu bleki. Hafi handritið haft að geyma Njáls sögu í heild, sem sennilegast verður að telja, má gera ráð fyrir að hún hafi rúmast á rúmlega 80 blöðum. Tímans tönn hefur ekki farið mjúkum höndum um þau fáu blöð sem eftir eru og á það við um bæði eldri og yngri hluta. Þau eru dökk og máð, sum bera þess greinileg merki að hafa verið nýtt sem bókarkápur og sum blaðanna eru skemmd af fúa. Á hinum yngri hluta Hítardalsbókar (bl. 1) er ekki að finna fyrirsagnir eða upphafsstafi og þó að gert sé ráð fyrir þeim er plássið töluvert minna en á hinum blöðunum. Þá er bilið á milli dálkanna töluvert minna en á blöðum 2–8.

Í ljósi þess að blað 1 er svo miklu yngra en blöð 2–8 auk þess sem lítils háttar munur er á uppsetningu blaðanna kviknar spurningin: Eru einhver raunveruleg tengsl milli þessara hluta eða er Hítardalsbók samsett úr leifum tveggja óskyldra handrita? Hugsanlega hefur blaði 1 verið ætlað að fylla eyðu þar sem upprunaleg blöð handritsins hafa glatast eða skemmst. Sams konar vinnubrögð má sjá í Njáluhandritinu Gráskinnu, GKS 2870 4to. Gráskinna er að stofni til rituð um 1300 en á sextándu öld hefur einhver tekið sig til og bætt við blöðum sem höfðu glatast, og þannig er handritið varðveitt í dag. Á milli blaða 1 og 2 í Hítardalsbók er hins vegar stór eyða og því ómögulegt að sannreyna þessa kenningu, auk þess sem ekki er loku fyrir það skotið að viðbótarblaðið sé hreinlega úr allt öðru handriti.

Saga Hítardalsbókar mælir heldur gegn því að blöðin hafi upprunalega komið úr einu og sama handritinu, þó að vísbendingarnar séu ekki mjög sterkar. Á spássíum blaðanna og á lausum seðlum segir Árni Magnússon frá því hvar og hvenær hann hefur fengið þau auk annarra athugasemda. Blöð 2–8 má öll tengja við séra Þórð Jónsson í Hítardal (d. 1670), ýmist því að Árni fékk þau frá afkomendum hans eða þá að rithönd hans er á blöðunum, en blað 1 fékk Árni frá Arngrími Bjarnasyni, ráðsmanni í Skálholti, sem ekki virðist tengjast Þórði neinum böndum. Þórður Jónsson var mikill lærdómsmaður og er hvað þekktastur fyrir Þórðarbók Landnámu og ættartölusafnrit sitt, auk ýmissa uppskrifta sem hann gerði eða lét gera fyrir sig. Á þremur blöðum Hítardalsbókar má finna alls 19 viðbætur við texta Njálu ritaðar með hendi séra Þórðar. Sem dæmi má nefna upphaf 105. kafla sem hefst með orðunum „Þorgeirr hét maðr“. Þar hefur Þórður bætt við „ok bjó á Ljósavatni.“ Með samanburði við önnur handrit má sjá að allar viðbætur Þórðar eru sóttar í Kálfalækjarbók, AM 133 fol., annaðhvort hana sjálfa eða afrit, en Árni Magnússon telur Þórð hafa haft Kálfalækjarbók hjá sér um 1652 og er sennilegt að hann hafi þá tekið upp á því að gera viðbæturnar í Hítardalsbók.

Hítardalsbók, eins og hún er varðveitt í dag, er verk margra alda. Elsti hluti hennar hefur orðið til á síðari hluta fjórtándu aldar, eitt blað er frá fimmtándu eða sextándu öld og á sautjándu öld bætti séra Þórður Jónsson við texta á spássíur og milli lína úr öðru handriti. Blöð handritsins komu úr ýmsum áttum og var þeim safnað saman með ýmsum öðrum Njálublöðum á átjándu öld. Það var síðan ekki fyrr en á nítjándu öld að Jón Sigurðsson festi í sessi núverandi skiptingu blaðanna í AM 162 B fol. og sameinaði þessi átta blöð undir safnmarkinu AM 162 B ɛ fol. Litlar vísbendingar eru þó um að það hafi verið rétt ákvörðun og sennilega er betra að líta svo á að í Hítardalsbók séu leifar tveggja handrita.

Birt þann 01.02.2019