Skip to main content

Pistlar

húmbúkk

„Þetta er óttalegt húmbúkk“ er sagt um eitthvað sem er ómerkilegt, óekta, svikið eða stenst ekki væntingar eða röksemdir. Í nútímamáli er orðmyndin húmbúkk algengust en öðrum myndum bregður fyrir: húmbúk, húmbúg, húmbúgg o.fl. Þær sýna að ritháttur og framburður hefur verið á reiki enda er orðið húmbúkk nokkuð framandlegt í íslensku og án sýnilegra tengsla við önnur orð málsins.

Uppruni og saga

Orðið húmbúkk er tökuorð í íslensku. Það á rætur í enska orðinu humbug sem hefur verið notað síðan á 18. öld í merkingunni ‘gabb, blekking; þvættingur, vitleysa, sýndarmennska’ en líka um menn í merkingunni ‘svikahrappur’. Samhljóða sögn í ensku merkir ‘blekkja, gabba’. Samkvæmt stóru Oxford-orðabókinni (OED) er uppruni enska orðsins óljós. Elsta dæmið í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans um notkun orðsins í íslensku er úr bréfi sem Eiríkur Magnússon skrifaði Jóni Sigurðssyni frá París 1865 (bréfið var prentað í Andvara 1920).

Annars er alt þeirra blaðastarf, þrímenninganna, ekkert annað en stefnulaust humbug.

Eiríkur bjó og starfaði í Englandi og kann því að hafa orðið beint úr ensku. Dæmum fjölgar í íslensku þegar líður á öldina og hluti þeirra er úr vestur-íslenskum blöðum svo þar gætu bein áhrif úr ensku líka sagt til sín. Á 19. öld og fyrri hluta þeirrar tuttugustu var aftur á móti algengt að danska væri millimál á leið tökuorða, sem rekja má til ensku, þýsku, frönsku eða fjarlægari mála, inn í íslenskan orðaforða enda langmest bein og óbein samskipti við Danmörku á þeim tíma. Nafnorðið humbug hefur verið notað í dönsku a.m.k. frá því um miðja 19. öld og sömuleiðis í öðrum norrænum málum og það virðist hafa ratað inn í íslensku litlu síðar. Í þessu tilviki gætu áhrifin hafa komið úr fleiri en einni átt.

Snemma sjást merki um aðlögun orðsins að íslensku. Í orðabók Sigfúsar Blöndals (1920–1924), sem er eftir því sem næst verður komist elsta íslenska orðabókin þar sem orðið er skrásett, er ritmynd uppflettiorðsins húmbúk en hljóðritunin, [hum˙buhk], lýsir þó framburði með aðblæstri sem svarar frekar til ritháttarins húmbúkk. Notkunardæmi sýna talsverð tilbrigði í rithætti alveg fram á þennan dag og sennilega endurspegla þau líka breytileika í framburði. Orðið er ekki síst notað í talmáli og í Íslenskri orðabók (2002) er það merkt sem „óformlegt“. Það segir sína sögu um stöðu og stílgildi orðsins að í tvímálaorðabókum eru danska og enska orðið humbug ekki þýtt með húmbúkk heldur sem ‘hégómi, tál’ (Danskt-íslenskt orðabókarkver 1922), ‘gabb, svik’ (Dönsk-íslensk orðabók 1992), ‘gabb, blekking; þvættingur, vitleysa; [...] sýndarmennska’ (Ensk-íslensk orðabók 1984). Orðið rataði ekki í íslenskar réttritunarorðabækur fyrr en með útgáfu Stafsetningarorðabókarinnar 2006 þar sem orðmyndin húmbúkk varð fyrir valinu.

Merking og notkun

Samkvæmt Íslenskri orðabók (2002) getur húmbúkk merkt tvennt:

  1. óvera, hégómi, fánýti, tál;
  2. bindi og flibbi (samfast).

Fyrri merkingin svarar í aðalatriðum til merkingar orðsins í dönsku og ensku. Um hana eru fjölmörg dæmi í íslensku fyrr og síðar.

  • Húmbúg innibindur í sjer allskonar gort, yfirlæti, látalæti, yfirdrepsskap. (1880)
  • Á öllum tepruskap og „húmbúggi“ hefur hann ávalt megna óbeit. (1904)
  • Og í stað þess að gerast talsmaður listarinnar, gerir hann gælur við alls konar húmbúkk. (1942)
  • að ræða við […] ruddamenni sem héldu því fram að menningin væri húmbúkk. (1971)
  • Byggðastefna hefur hingað til einkennst af sjóðasukki, orðskrúði og allslags húmbúkki án heildstæðra markmiða. (1991)
  • Þegar á hólminn var komið var námið húmbúkk og vitleysa. (2016)

Afleidd og samsett orð eins og sögnin húmbúgga og nafnorðin húmbúgisti, húmbúg(s)maður, húmbúgspredikun, húmbúgsritdómur o.fl., sem öll koma fyrir á síðari hluta 19. aldar, tengjast þessari merkingu.

Úr Fjallkonunni 1903

Síðari merkingin, þar sem orðið er haft um hálstau karla, var líka til í dönsku og sænsku á seinni hluta 19. aldar og í upphafi 20. aldar en aftur á móti ekki í ensku. Það bendir til þess að orðið og merking þess spretti a.m.k. að einhverju leyti af áhrifum frá dönsku. Í sögulegu dönsku orðabókinni (ODS) er orðið í þessari merkingu skýrt þannig: ‘“svikinn” hálsklútur (slifsi) með fastri bundinni slaufu’ (á dönsku: ‘forlorenthalstørklæde (slips) med permanent bunden sløjfe’). Það er því ekki fullt samræmi á milli íslensku og dönsku orðabókaskýringarinnar en hvort það þýði að merkingin hafi ekki verið alveg sú sama í íslensku og dönsku eða hvort hún hafi verið eitthvað breytileg innan málanna skal ósagt látið enda duga tiltæk dæmi ekki til að skera úr um það.

Með húmbúkk?

Flest dæmi um þessa merkingu í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans eru úr blöðum og tímaritum frá því kringum aldamótin 1900. Fyrir jólin 1892 auglýsti Thomsensverslun ýmiss konar varning í Fjallkonunni og þar á meðal voru „Kragar og Flibbar, Manchetter, Humbug, Fataefni, Tilbúin Föt, og m. m. fl.“ og sumarið 1897 birtist auglýsing frá verslun Holgers Clausen & Co. í Kvennablaðinu, meðal annars um „Tilbúinn silkihnýti (slips og humbuk) og „slaufur", handa karlmönnum.“ 

Snemma á 20. öld hafa húmbúkkin svo horfið með breyttri tísku og dæmi frá síðari hluta aldarinnar eru yfirleitt úr endurminningum eða skáldverkum sem gerast á fyrri tíð.

  • Hann hafði hvítan gúttaperkaflibba og laust brjóst úr sama efni […] en húmbúkk notaði hann ekki. (Brekkukotsannáll 1957)
  • Á sunnudögum [...] settu skólapiltar upp stíft brjóst utan yfir milliskyrtuna, slifsi og húmbúkk, og svo var oft haldið ball. (Múlaþing 1969)

Í Íslenskri orðabók (2002) er þessi merking orðsins sögð gömul og úrelt en annars staðar, t.d.  í Íslenskri nútímamálsorðabók, er hennar alls ekki getið og það sama á við um danska orðið humbug í orðabókum yfir nútímadönsku, þar er einungis fyrri merkingin tiltekin.

Heitið húmbúkk á ákveðinni tegund hálslíns er leitt af aðalmerkingu orðsins, þeirri sem það hefur enn. Þótt húmbúkkin sem karlar höfðu um hálsinn kunni að hafa verið eitthvað mismunandi þá er ljóst að þau hafa átt það sameiginlegt að vera tilbúin eða óekta í einhverjum skilningi.

Birt þann 25. september 2020
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Danskt-íslenskt orðabókarkver. 1922. Höf.: Jón Ófeigsson og Jóhannes Sigfússon. Reykjavík.
Dönsk-íslensk orðabók. 1992. Ritstj.: Hrefna Arnalds og Ingibjörg Johannesen. Reykjavík: Ísafold.
Ensk-íslensk orðabók. 1984. Höf.: Sören Sörenson. Ritstj.: Jóhann S. Hannesson. Reykjavík: Örn og Örlygur.
Íslensk nútímamálsorðabók. Ritstj.: Halldóra Jónsdóttir og Þórdís Úlfarsdóttir. Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Íslensk orðabók. 2002. 3. útg. Ritstj.: Mörður Árnason. Reykjavík: Edda.
ODS = Ordbog over det danske Sprog. Kaupmannahöfn: Det Danske Sprog- og Litteraturselskab (DSL).
OED = Oxford English Dictionary. Oxford: Oxford University Press.
Ritmálssafn Orðabókar Háskólans. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Sigfús Blöndal. 1920-24. Dönsk-íslensk orðabók. Reykjavík.
Stafsetningarorðabókin. 2006. Ritstj.: Dóra Hafsteinsdóttir. Reykjavík: Íslensk málnefnd og JPV útgáfa.