Skip to main content

Jólasveinar ganga um gólf

Í aðdraganda jóla ætti lífið að stefna að friði og farsælum hátíðum í fögnuði yfir þeirri Guðs gjöf sem börnin eru öllum mönnum. En í stað þess að friða sálina nærast mörg okkar á ágreiningi um það hvernig eigi að syngja vísuna:

Jólasveinar ganga um gólf
með gylltan staf í hendi.
Móðir þeirra sópar gólf
og flengir þá með vendi.

Líf þessarar vísu á vörum fólks og í prentuðum útgáfum endurspeglar að mörgu leyti íslenska málstefnu á hverjum tíma og hvernig leiðréttingum hefur verið beitt á það mál sem þjóðin talar. 

Seint á síðustu öld fór að bera á því að leikskólakennarar kenndu börnum allt aðra gerð þessarar vísu og jólasveinar á skemmtunum tóku undir – líkt og um samstillt átak væri að ræða. Fullyrt var að jólasveinar ættu ekki „gylltan“ staf í helli sínum, heldur í mesta lagi „gildan“ staf, sennilega þó bara lurk. Óeirðarmönnum um bragréttingar varð einnig starsýnt á að seinni hluti vísunnar sýndi engin merki um reglulega stuðlasetningu. Hann hlyti því að vera vitlaus og hver tryði að Grýla væri svo þrifin að sópa hjá sér gólfin? Sú hugmynd var sett á flot að seinni hlutinn væri „réttari“ svona: „Móðir þeirra hrín við hátt // og hýðir þá með vendi“ – og náði svo langt að Árni Björnsson gat þess í Sögu daganna (bls. 343) að þannig væri vísan þekkt á Norðurlandi (að viðbættri „gátt“ í fyrsta vísuorði, vegna rímsins). Aldrei tókst þó að finna aftur heimildarmann fyrir norðan sem kunni þessa vísu og líklegt er að hann hafi flust suður.

Almennt gildir sú regla að þjóðvísur í munnlegri geymd eru breytilegar og ekki alltaf kveðnar eftir ströngum reglum. Elsta þekkta gerð umræddrar vísu var skráð svona af prestshjónum í Aðalvík um miðja 19. öld: „Jólasveinar ganga um gólf // og hafa staf í hendi. // Móðir þeirra sópar gólf // og strýkir þá með vendi. // Skarpan hafa þeir skólann undir hendi.“ Í Safni til bragfræði íslenzkra rímna að fornu og nýju frá árinu 1891 er vísan nær eins (með „hýðir“ fyrir „strýkir“) og höfð sem dæmi um þann brag sem kallast: „Ferskeytt, ljóðstafavant (nema í 1. vísuorði)“. Útgefandinn hefur jafnframt orð á að sá rímgalli sé á vísunni að „gólf“ sé tvítekið (71–72). 

Í Íslenzkum þulum og þjóðkvæðum (1898–1903) lagar Ólafur Davíðsson vísuna úr Aðalvík í átt að algengum reglum um stuðlun með því að bæta við „gyltan“ í 2. vísuorði – frekar en að láta „hafa“ og „hendi“ standa með sinni sérstuðlun. Sennilega hefur Ólaf ekki rennt í grun að þessi leiðrétting hans yrði síðar tilefni illvítugra deilna um glysgirni jólasveina. Gott er að hafa í huga að umræðan um hvort jólasveinar geti átt „gylltan“ staf eða „gildan“ snýst aðeins um þessa leiðréttingu Ólafs Davíðssonar en ekki neina þekkta gerð vísunnar fyrir hans daga. 

Í segulbandasafni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum eru mörg dæmi um þessa vísu með blæbrigðum um það hvort mamman „flengi“, „hýði“, „siði“ eða „strýki“ strákana sína og hvort jólasveinarnir hafi „gylltan“ staf eða bara „staf“. Engum dettur í hug að þeir hafi „gildan“ staf eða gangi um „gátt“ til að ríma við „hátt“. 

Óskandi væri að ofangreind þekking mætti lægja ófriðaröldurnar í kringum þessa sakleysislegu jólavísu – og að við losnuðum við leiðréttingar byggðar á þeim misskilningi að rökhugsun og regluverk bragfræðinnar henti til að „leiðrétta“ þær vísur sem alþýða manna hefur gert sér að góðu kynslóðum saman. Þeim sem ekki eru viss um stafaburð jólasveina og aðferðir Grýlu við jólaþrif er bent á að spyrja Stekkjarstaur þegar hann kemur til byggða.    

Birt þann 12.11.2020