Skip to main content

Pistlar

Sagan af djáknanum á Myrká

Svart/hvít úrklippimynd sem sýnir fjöll, fult tungl og mann og konu á hestbaki
FKG

Þegar þýski fræðimaðurinn Konrad Maurer kom til Íslands sumarið 1858 ferðaðist hann víða um land og safnaði þjóðsögum meðal annars. Þær gaf hann síðan út tveimur árum síðar í bókinni Isländische Volksagen der gegenwart, eða Íslenskar alþýðusögur á okkar tímum. Ein þeirra íslensku þjóðsagna sem birtist þar árið 1860, þá í fyrsta sinn á prenti, var sagan af djáknanum á Myrká, en það var Sigurður Guðmundsson málari sem sagði Maurer þá sögu. Hún hljóðar svo í íslenskri þýðingu Steinars Matthíassonar:

Ungur maður hafði heitið unnustu sinni því að sækja hana aðfangadagskvöld jóla og fylgja henni til jólamessu í kirkjunni. Hann hélt af stað á tilsettum tíma, en er hann kom að uppbólgnum læk hræddist hesturinn þar jakaferðina og ógætilegur rykkur í tauminn varð til þess að hesturinn sökk. Er maðurinn reyndi að bjarga sér og reiðskjóta sínum fékk hann af hvassri brún ísjaka sár á hnakkann og lést þar samstundis. Stúlkan bíður lengi unnusta síns, loks seint um kvöldið kemur reiðmaður, lyftir henni þegjandi á hestinn fyrir aftan sig og ríður svo með hana í átt til kirkjunnar. Á leiðinni snýr hann sér einu sinni að henni og segir:

Máninn líður,
dauðinn ríður;
sér þú ekki hvítan blett í hnakka mínum? Garún, Garún!


Þ.e. stúlkan hét Guðrún, en draugum er ekki gefið að nefna guðs nafn og því breytir hann nafninu svo. Stúlkunni verður um og ó, en þau ríða áfram allt þar til þau koma að kirkjunni. Þar nemur reiðmaður staðar við opna gröf og segir:

Bíddu  hérna, Garún, Garún, Meðan ég flyt hann Faxa, Faxa austr yfir garða, garða,

þ.e. hesturinn ber nafnið Faxi, eftir faxi hestsins, [...]. Orðin eru tvíræð, það er venja að sá sem kemur að bæ komi hesti sínum fyrir utan við túngarðinn, sem á að verja túnið sjálft svo að það spillist ekki, en kirkjugarðurinn, heimili hinna dauðu, er einnig girtur garði. Þegar Guðrún heyrir þessi orð fellur hún í yfirlið, en til allrar hennar hamingju var gröfin sem hún var við rétt hjá sáluhliðinu, þ.e. innganginum að kirkjugarðinum, en mjög títt er að klukkurnar hangi í hliðinu. Hún grípur nú í fallinu í klukkustrenginn og við hringinguna hverfur auðvitað draugurinn og hún bjargast.

Maurer segir í skýringu við söguna að ekki þurfi að benda þýskum lesendum á þau líkindi sem séu með henni og þýskri sögn sem liggi til grundvallar hinu alþekkta kvæði, „Lenore“, frá 18. öld eftir Gottfried August Bürger. Í þýsku sögnina voru, eins og í hina íslensku, fléttaðar rímaðar hendingar um tunglið og dauðann sem ríður. En síðan bætir Maurer við:

En þrátt fyrir þessa samsvörun alla er þessi íslenska saga klædd í sérstakan íslenskan búning. Ferðin síðla kvölds um langan veg til kirkju, reiðin yfir uppbólgna ána með jakaburði, engin gata og engin brú, sáluhliðið með klukknastrengnum, nöfnin Guðrún og Faxi, loks endurtekningin á síðustu orðunum í erindinu sem draugurinn mælir fram; allt er þetta svo íslenskt og aðeins íslenskt sem nokkuð getur verið.

Á árunum eftir að Konrad Maurer safnaði þjóðsögnum á Íslandi hófst hin mikla þjóðsagnasöfnun Jóns Árnasonar. Skemmst er frá því að segja að honum bárust fjórar mismunandi gerðir frá söfnurum víðs vegar um landið af sögunni um dauða unnustann (eða vonbiðilinn) sem vitjar kærustunnar. Þar að auki skráði Jón Árnason sjálfur söguna af djáknanum á Myrká eftir Sigurði málara eins og Maurer en nefnir einnig „húsfrú Ingibjörgu Þorvaldsdóttur sem var í Belgsholti í Borgarfirði“ sem heimildarmann.

Allar þessar gerðir sagnarinnar hafa fengið séríslensk einkenni eins og þau sem Maurer nefnir. Landslagið og samfélagið er íslenskt og í öllum gerðum heitir sögupersónan Guðrún. Þessi aðlögun að íslenskum aðstæðum og fjöldi mismunandi gerða frá mismunandi stöðum á landinu bendir til þess að sögn af þessu tagi hafi þekkst hér lengi. Að sjálfsögðu getur hún hafa borist frá Þýskalandi eftir að kvæðið um Lenore var ort en ljóst er að sögur af þessu tagi hafa lengi verið vel þekktar um alla Evrópu þar sem þær hafa ýmist verið sagðar eða sungnar.

Birt þann 31. júlí 2023
Síðast breytt 24. október 2023