Skip to main content

Pistlar

Jómsvíkinga saga í AM 291 4to

Í desember síðastliðnum kom Jómsvíkinga saga út á vegum Hins íslenzka fornritafélags. Þorleifur Hauksson og Marteinn Sigurðsson bjuggu til útgáfu en ritstjóri er Þórður Ingi Guðjónsson. Í tilefni af því var annar útgefandinn, Þorleifur Hauksson, fenginn til að skrifa handritapistil. 

Handritið AM 291 4to er gömul kálfskinnsbók 38 blöð í litlu broti, 21,2 x 14 sm, og hefur að geyma Jómsvíkinga sögu eina. Tvö blöð hafa glatast, og fremsta og aftasta síðan eru svo dökkar og máðar að þær eru ólæsilegar. Skriftin er fremur smá og mikið bundin. Aldur handritsins var umdeildur lengi framan af. Carl af Petersens, sem gaf út vandaða stafrétta útgáfu þess 1882, taldi bókina ritaða í lok þrettándu aldar, en líkur væru á að hún væri eftirrit mun eldra handrits. Peter G. Foote var á sömu skoðun. Hann taldi að tilteknar fornlegar orðmyndir, skriftareinkenni og bönd væru vitnisburður um forrit sem hefði ekki verið yngra en frá 1230. Sú niðurstaða hefur ekki verið vefengd.

Jómsvíkinga saga er varðveitt í fjórum öðrum handritum sem gildi hafa, ef með er talin latnesk þýðing handrits sem nú er glatað. Sagan hefur löngum verið talin til konungasagna. Fyrstu kaflarnir segja frá upphafi Gormsættarinnar á konungsstóli í Danmörku og síðan frá Gormi hinum gamla, konu hans og syni og viðskiptum Haralds konungs Gormssonar og Hákonar Hlaðajarls af Noregi. Frá og með áttunda kapítula í 291 er alveg nýr þráður spunninn. Aðalpersónur upp frá því eru ekki konungar heldur synir bænda og jarla.  Söguhetjan sem þá tekur við, Pálna-Tóki, nýtur sérstakrar velþóknunar höfundar. Ætt hans á harma að hefna gagnvart Haraldi Gormssyni, og viðskiptum þeirra lýkur með því að Pálna-Tóki vegur konunginn úr launsátri. Honum tekst að komast undan konungsmönnum til Vindlands, reisir þar mikla víggirta borg, Jómsborg, og stofnar eins konar víkingabræðralag, þangað sem fræknustu kappar ráðast til liðs við hann. Eftir andlát Pálna-Tóka tekur Sigvaldi Strút-Haraldsson við forystu yfir Jómsvíkingum. Sögunni lýkur á því að hann stýrir Jómsvíkingum til Noregs og berst við lið Hákonar jarls og Sveins, sonar hans. Hákon fórnar ungum syni sínum til sigurs, og sögunni lýkur á því að Jómsvíkingar eru teknir af lífi hver á fætur öðrum, en ögra böðlum sínum á banastundinni. Æðruleysi þeirra gagnvart dauðanum vekur slíka aðdáun að þeim síðustu sem enn lifa eru gefin grið.

            Áttundi kafli sögunnar hefst á eftirfarandi orðum, sem eru dæmigerð fyrir kankvísi höfundar, eða alltént ritara AM 291 4to:

Nú hefsk upp annarr þáttr sọgunnar, sá er fyrr hefir verit en þetta væri fram komit, ok má eigi einum munni allt senn segja.

Allt frá því að Jómsvíkinga saga var gefin út fyrsta sinni hafa fræðimenn deilt um hvort sagan væri upphaflega skráð sem ein heild eða hvort fyrri hlutanum hefði verið skeytt framan við hinn síðari, hina eiginlegu Jómsvíkingasögu, eftir að hún var fullsamin. Einu persónur fyrri hlutans sem einnig koma við sögu í síðari hluta eru Haraldur Gormsson og Hákon jarl. Það er eitt af sérkennum síðari hluta sögunnar, sem jafnframt er einsdæmi innan bókmenntagreinar konungasagna, hvað konungum og jörlum er lítil virðing sýnd. Þar tekur steininn úr í lýsingunni á dauðdaga Haralds Gormssonar, sem er með þeim endemum að hún á sér enga hliðstæðu í gervöllum fornbókmenntum okkar. Höfundur fer einnig ómildum höndum um Svein konung, son Haralds, sem ævinlega er kenndur við móður sína, almúgakonuna Saum-Æsu, Sigvalda jarl og merkikertið Strút-Harald jarl, að ógleymdum Hákoni Hlaðajarli og öðrum höfðingjum sem eru smánaðir og niðurlægðir af Jómsvíkingunum sem leiddir eru til höggs.

Í tveimur öðrum handritagerðum, Stockholm Perg. 4to nr 7 frá fyrri hluta 14. aldar og latneskri þýðingu Arngríms Jónssonar, er talsvert rík tilhneiging til að draga úr þessum ótuktarskap í garð höfðingja, en nákvæmur samanburður handritanna sýnir að sú tilhneiging er ómenguð og upphafleg í móðurriti þeirra allra. Stíll AM 291 4to er mjög sérstakur. Talsvert ber á munnlegum stíleinkennum, en ennfremur eru málsgreinar iðulega lengri en tíðkast í svonefndum Íslendingasagnastíl. Nokkrir fræðimenn hafa talið þetta merki um ungan aldur handritsins og um að Stokkhólmshandritið, með sínum orðknappa, meitlaða stíl, geymi upphaflegri texta en 291. Samanburður hefur hins vegar leitt í ljós að texti St7 er einmitt mikið styttur.

            Frásagnargleðin ræður ríkjum í AM 291 4to, og handritið er vafalaust besti fulltrúi hinnar upphaflegu Jómsvíkinga sögu. Höfundur kærir sig kollóttan um nákvæma staðfræði eða staðreyndir. Að því leyti sker sagan sig einnig algerlega úr innan viðtekinnar konungasagnahefðar. Þegar jafnframt er litið til þess að AM 291 4to er eitt elsta sagnarit sem við eigum sést enn betur hversu merkilegt og einstætt þetta óásjálega handrit er.   

Þorleifur Hauksson,
mars 2019

Myndatexti: Síða úr AM 291 4to (bl. 22r). Á henni miðri hefst 19. kap. á þessum orðum: „Þat er nú at segja þessu næst at Véseti ok synir hans frétta viðroeðu þeira Haralds jarls ok Sveins konungs …“. Ljósmynd: Institut for Nordiske Studier og Sprogviden skab/Den Arnamagnæanske Samling, Kaupmannahöfn.

 

Birt þann 1. mars 2019
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Carl af Petersens. Förord. Jómsvíkinga saga efter Arnamagnæanska handskriften N:o 291, 4:to. Kh. 1882.

Katalog over Den arnamagnæanske håndskriftsamling, I, útg. Kristian Kålund. Kh. 1889.

Peter G. Foote. Notes on Some Linguistic Features in AM 291, 4to. Íslenzk tunga – Lingua Islandica I, 1959, 26-46.

Ólafur Halldórsson. Inngangur. Jómsvíkinga saga. Rv. 1969.

Þórdís Edda Jóhannesdóttir & Veturliði Óskarsson. The Manuscripts of Jómsvíkinga saga. Scripta Islandica 65, 2014, 9-29.

Jómsvíkinga saga. Þorleifur Hauksson og Marteinn Helgi Sigurðsson gáfu út. Íslenzk fornrit XXXIII. Rv. 2018.