Skip to main content

Pistlar

Málsvarar íslenskrar tungu fyrr og síðar

Fjórar svart/hvítar myndir, ein af konu og þrjár af karlmönnum.

Árið 2006 kom út safnritið Þjóð og tunga. Ritgerðir og ræður frá tímum sjálfstæðisbaráttunnar. Baldur Jónsson valdi efnið og bjó til prentunar (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag). Bókin geymir samtals 18 greinar eftir 16 höfunda. Hin elsta er að stofni til frá 1837 en yngsta greinin kom út 1939.  

Í inngangi ritar Baldur m.a. (bls. 25): „Þeir sem áhuga hafa á íslenskri málsögu, og sögu málræktar sérstaklega, verða að vita af þessum skrifum og kynnast því sem efst hefir verið á baugi hverju sinni. Margt af því sem nú á dögum er rætt og ritað um málið hefur þegar verið sagt með öðru orðalagi og öðrum áherslum sem fróðlegt er að kynnast.“   

Í framhaldi af orðum Baldurs um endurtekin stef í umræðum um málefni íslenskrar tungu leitaði ég uppi nokkur dæmi frá árunum 1998–2023 þar sem rætt er um íslenska tungu og málrækt. Til samanburðar við hvert dæmi tíndi ég til tilvitnanir frá árabilinu 1837–1939 þar sem fjallað hafði verið um skyld eða sömu efni. Hér á eftir kallast sem sé á nokkrar tilvitnanir í yngri og eldri skrif þar sem ég þóttist greina nokkurn samhljóm milli höfunda og viðfangsefna á mismunandi tímum.   

Ég kýs að öðru leyti að láta dæmin og höfundana sjálfa einfaldlega tala sínu máli hér á eftir. 

 

Íslenska eða útlenska á Íslandi  

Árið 2023 skrifaði Bubbi Morthens:  

Fellibylurinn Enska fer yfir landið og rífur tungumálið okkar upp með rótum úr jarðvegi sínum. [...]  

Ferðaiðnaðurinn allur, takið ykkur tak. Að græða er eitt, hernaður gegn tungumálinu er annað og alvarlegra en svo að þögnin fái að ríkja bara vegna þess að einhverjir eru að græða. Án tungumálsins erum við bara klettur norður í Dumbshafi með fallega náttúru. Ekki þjóð í eigin landi.  

(Hernaðurinn gegn tungumálinu, Morgunblaðið 17. ágúst 2023, bls. 41) 

 

Árið 1851 skrifaði Jón Guðmundsson: 

[E]kki ætti bændur að láta sér lynda að verslunarreikningar þeirra væri á dönsku. Ekki er minna heimtanda en að skuld sú sem krafist er sé gjörð skuldunautum skiljanleg og undirrót hennar, en þetta fer fjærri meðan reikningarnir eru hafðir á útlendu máli. [...] Kaupmenn mega þó jafnan líta á að þeim er ekki meiri niðurlæging í að leggja sig eftir máli landsmanna en fé þeirra og vöru sem þeir verða fegnir að græða á. [...] Að minnsta kosti má íslenskum kaupmönnum vera það nauðungar- og vorkunnarlaust að hafa við móðurmál sitt og landsbúa í viðskiptum við þá. 

(Um mál vort Íslendinga (seinni hluti, fyrri hluti ritgerðarinnar birtist 1849); Ný félagsrit 1851, hér er fylgt útg. í Þjóð og tungu, bls. 96) 

 

Árið 2022 skrifaði Eiríkur Rögnvaldsson:  

Auðvitað drepur það ekki íslenskuna þótt hún sé höfð á eftir ensku á skiltum í Leifsstöð. Auðvitað drepur það ekki íslenskuna þótt auglýsingar í búðargluggum séu eingöngu á ensku. Auðvitað drepur það ekki íslenskuna þótt einhver fyrirtæki sendi starfsfólki tölvupóst sem er eingöngu á ensku. Auðvitað drepur það ekki íslenskuna þótt fjöldi verslana auglýsi „Black Friday“, „Cyber Monday“ og „Singles Day“. En það sýnir, meðvitað og ómeðvitað, ákveðið viðhorf til íslenskunnar – viðhorf sem smitar út frá sér og gerir til lengri tíma meiri skaða en við áttum okkur á í fljótu bragði.  

Gildi íslenskunnar fyrir okkur sjálf og íslenskt málsamfélag er ómetanlegt eins og hér hefur áður verið lýst. Hún er hluti af sjálfsmynd okkar sem einstaklinga og sem samfélags. Ef unga kynslóðin missir trú á málið og hættir að vera annt um það er það dauðadæmt.  

(Alls konar íslenska. Hundrað þættir um íslenskt mál á 21. öld,  Reykjavík: Mál og menning, bls. 265) 

 

Árið 1863 skrifaði Sigurður L. Jónasson: 

Menn kunna nú ef til vill að segja að það gjöri ekki svo mikið til hvaða mál sé á embættisbréfum á Íslandi. En þetta er ekki svo, því fyrst og fremst er ekki lítið varið í að fá stjórnina til að viðurkenna rétt tungu vorrar sem er svo nákvæmlega sameinuð þjóðerni voru. Það skerðir og virðingu málsins, bæði í augum landsmanna og annarra, ef viðurkenning þessi ekki fæst, því þetta kennir mönnum að álíta málið eins og nokkurs konar skrælingjamál sem landbúar geti hjalað hver við annan en sé ekki boðlegt á embættisbréfum.  

(Um rétt íslenskrar tungu, Ný félagsrit 1863, hér er fylgt útg. í Þjóð og tungu 2006, bls. 127). 

 

Samhengi í málsögunni og tengsl við fornritin 

Árið 2015 sagði Vigdís Finnbogadóttir: 

Íslenska er auðvitað hvergi töluð í heiminum nema á Íslandi og við búum við þau gæði að geta lesið miðaldabókmenntir okkar á eigin tungumáli, sem er einstakt í heiminum. Ég veit ekki hvort Íslendingar átti sig almennt á því. Ég er þeirrar skoðunar og hef verið lengi að það sé tungumálið sem bindur okkur saman sem þjóð, meira en landið sjálft.  

(Land & saga. Viðtal við Vigdísi Finnbogadóttur (Vignir Andri Guðmundsson), https://icelandictimes.com/is/vigdisi-finnbogadottur/

 

Árið 1926 skrifaði Sigurður Nordal: 

Aðalafrek þessarar þjóðar á síðari öldum er að hafa varðveitt órofið samhengið í tungu sinni og bókmenntum. Fyrir því eiga Íslendingar beinan aðgang að miklu eldri bókmenntum en nokkur önnur germönsk þjóð og hafa getað gert greiðari braut annarra þjóða til skilnings á fornum ritum og fornri hugsun. Á þessum grundvelli er reist menning vor heima fyrir og álit vort út á við.  

(Málfrelsi, Lesbók Morgunblaðsins 5. september 1926, hér er fylgt útg. í Þjóð og tungu, bls. 267) 

 

Tökuorð eða orðmyndun úr fornum íslenskum efniviði 

Árið 2004 skrifaði Gauti Kristmannsson: 

Vandamál Íslendinga eru bæði megindleg og eigindleg. Hinn megindlegi vandi stafar ekki aðeins af því að við flóð upplýsinga að utan er að etja þótt auðvitað skipti það nokkru máli eins og sjá má í fjölmiðlunar- og tölvugeiranum. Nei, vandinn liggur í hinni tvöföldu aðferð íslenskrar málhreinsunar. Einn meginþáttur stefnunnar er að halda orðaforðanum „hreinum“ ef svo má segja. Þegar verið er að taka upp framandi og ný hugtök er helst ekki gripið til tökuorða, ekki einu sinni þannig að þau séu löguð að stafsetningu og málfræði tungumálsins. Endurnýjun þarf því að fara fram í gegnum hinn svokallaða grunnorðaforða, orðaforða sem er svo grunnur, ef svo má segja, að í honum eru næsta fá tökuorð úr grísku og jafnvel latínu, hvað þá öðrum tungumálum. [...]  

[O]fangreind aðferð hefur gert það að verkum að til hefur orðið krafa um merkingarlegt gagnsæi þegar verið er að setja saman eða þýða hugtök. Þetta er krafa sem byggist á goðsögn sem ætla mætti að menn hefðu kastað fyrir róða eftir kenningar Saussures um að tungumálið sé tilviljunarkennt.  

(Málar íslensk málstefna málið inn í horn? Málstefna – Language Planning, ritstj. Ari Páll Kristinsson og Gauti Kristmannsson, Reykjavík: Íslensk málnefnd, bls. 47–48) 

 

Árið 1939 skrifaði Kristján Albertsson: 

Rökin gegn alræði hreintungustefnunnar eru þá í stuttu máli þau að mönnum líst hún ekki einfær um að sjá málinu fyrir öllum þeim orðum sem það vantar, að mönnum þykir sem tungunni hafi síst stafað nokkur voði af þeim tökuorðum sem hún hefur aflað sér á liðnum tímum og að stutt og tungutöm orð af erlendum uppruna sóma sér í einu og öllu betur í málinu en óþjál eða illa mynduð nýyrði af íslenskum rótum runnin.  

(Þróun íslenskunnar, Skírnir 113, 1939, hér er fylgt útg. í Þjóð og tungu, bls. 304) 

 

Málsvörn fyrir málvöndun 

Árið 1998 flutti Baldur Jónsson fyrirlesturinn Sprachpolitik auf Island og var hann gefinn út í Þýskalandi 1999 (Greifswalder Universitätsreden, Neue Folge, Nr. 87). Íslensk gerð hans var prentuð 2002 í afmælisriti Baldurs, Málsgreinum

Sú tíska var býsna hávær á 8. áratug aldarinnar að boða afskiptaleysi af málinu („laisser-faire“). Málið átti að fá að þróast, eins og það hét, án afskipta manna, þ.e. sumra manna. Þeir sem boðuðu þessa kenningu virtust ekki átta sig á því að allir sem nota málið eru með málnotkun sinni einni saman að skipta sér af því. Málnotkun án afskipta mannsins er auðvitað óhugsandi. Hver málnotandi breytir áreiðanlega einhvern tímann út af einhverri málvenju eða fitjar upp á einhverri nýjung, t.d. nýju orði, viljandi eða óviljandi. Það fer svo eftir ýmsu hvort slíkar breytingar eða nýmæli breiðast út eða lognast út af jafnharðan. Það skiptir ekki máli í þessu sambandi, heldur hitt að allir hafa jafnan rétt til málnotkunar, hver eftir sínu höfði, og þar með jafnan rétt til afskipta af málinu. „Laisser-faire“ bannar þetta jafnræði og er því gerræðisfullt viðhorf. 

Þegar vart verður málbreytinga sem sumir amast við spyrja aðrir: Er þetta ekki bara eðlileg þróun? Ég er vanur að svara því játandi með fyrirvara um merkingu orðsins þróun. Ég held að allar málbreytingar megi teljast eðlilegar, hvort sem þeim er komið af stað viljandi eða óviljandi (og það geti þá líka verið eðlilegt að standa gegn breytingu). Hitt er annað mál að breytingar eru misjafnlega æskilegar með hliðsjón af málstefnunni og ekki við því að búast að allir hafi jafna aðstöðu eða þekkingu til að meta það hvort breyting eða nýjung er góð eða vond.  

(Málstefna Íslendinga og framkvæmd hennar, Málsgreinar. Afmælisrit Baldurs Jónssonar með úrvali greina eftir hann, Reykjavík: Íslensk málnefnd, bls. 448–449) 

 

Árið 1837 flutti Konráð Gíslason ræðu sem var prentuð í Fjölni 4, 1838 (kom út 1839):  

En gæti nú ekki verið að einhver [...] kynni að flytja fram aðra ákæru, ekki á hendur málinu, heldur okkur sem viljum ekki breyta því fyrir skör fram, og kynni að kalla það nokkurs konar harðstjórn, ellegar að minnsta kosti heimskulega vanafestu, að láta ekki málið fara sinna ferða og byltast og breyta sér eins og það vill, því það sé eðli þess að vera ekki allajafna eins? 

„Harðstjórn“, „heimskuleg vanafesta“; það eru ljót orð! En hamingjunni sé lof, það eru líka heimskuleg orð, ef þau eru sögð um okkur. Það væri harðstjórn, ef að einhver kúgaði þjóðina til að tala og rita eins og hann vildi. En er það harðstjórn, þó við séum að athuga hvernig skynsamlegast sé að rita og tala? Eða er það heimskuleg vanafesta, þó við viljum ekki leggja niður eða, réttara að segja, þó við viljum taka upp það sem okkur virðist vera réttast? [...] 

Það er satt að vísu; það má kalla eðli málsins að vera ekki allajafna eins, enda mun enginn okkar heimta að það sé og verði óumbreytanlegt. En hitt heimtum við að því sé ekki breytt að þarflausu og raunarlausu, og síst til verra vegar. Við heimtum af íslenskunni að hún sé íslenska og annaðhvort standi í stað eða taki framförum. Við kúgum öngvan, heldur biðjum við og setjum fyrir sjónir. Við finnum að hin íslenska tunga er sameign okkar allra saman, og við finnum að hún er það besta sem við eigum. Þess vegna biðjum við meðeigendur okkar að skemma hana ekki fyrir okkur.  

(Ágrip af ræðu áhrærandi íslenskuna, Fjölnir 4, 1838, hér er fylgt útg. í Þjóð og tungu, bls. 43) 

Birt þann 28. ágúst 2023
Síðast breytt 24. október 2023