Skip to main content

Pistlar

Neyttu á meðan á nefinu stendur

Ljósm. SSJ

Hér má hlusta á lestur Júlíu Óskarsdóttur á sögunni.

 

NEYTTU Á MEÐAN Á NEFINU STENDUR

Einu sinni var kóngur og drottning í ríki sínu og karl og kerling í koti sínu. Einu sinni keypti karlinn og kerlingin sér tunnu fulla af smjöri sem þau ætluðu að hafa til vetrarins. En nú urðu þau í vandræðum með það hvar þau ættu að geyma tunnuna svo ekki yrði stolið úr henni. Loksins kom þeim saman um að fá hana geymda í kóngsgarðinum. Gekk þeim vel að fá það og tók kóngur hana til geymslu. Gengu þau sjálf frá tunnunni og bundu yfir. Leið nú fram undir haustið; fór þá kerlinguna að langa í smjörið og hugsar hún sér undireins upp ráð til þess.

Einn góðan veðurdag er hún snemma á fótum; kemur hún þá inn og segir karli sínum að það sé kallað á sig í kóngsríkinu til að halda þar barni undir skírn og verði hún því að fara burtu þangað. Karl segir að það sé svo sem sjálfsagt.

Býr nú kerling sig í allramesta snatri og fer í kóngsríkið. Segir hún þar að hún eigi að sækja smjörögn Í tunnuna og var því trúað svo henni var hleypt þar inn sem tunnan stóð. Tók kerling nú gott borð af tunnunni. Síðan fór hún heim.

Þá spyr karlinn hvað barnið hefði heitið í kóngsríkinu.
Kerling segir: "Borða heitir burðug mær."

Þegar kerling var nú búin með það sem hún hafði tekið segir hún einu sinni við karlinn: "Kallað er í kóngsríkinu enn."

Karl spurði á hvern og til hvers.
"Á mig til að halda barni undir skírn," segir hún.
"Far þú þá," segir karl.

Kerling fer og segir sem fyrr að hún eigi að sækja smjör í tunnuna. Tekur nú kerling ofan í miðja tunnu. En þegar hún kom heim spurði karlinn hvað barnið héti.
Kerling segir: "Miðja heitir mikil snót."
Þegar kerling er búin með þetta smjör segir hún karlinum: "Kallað er í kóngsríkinu enn og er ég enn beðin að koma og halda þar barni undir skírn."
"Far þú þá," segir karl.
Kerling fer og segist eiga að sækja smjör. Tók hún nú svo mikið að hún sá í löggina. Þegar heim kom spyr karl hvað barnið heiti.
Kerling segir: "Lögg heitir ljót mær."

Nú leið og beið þangað til kerling var enn orðin smjörlaus. Þá segir hún við karlinn: "Kallað er í kóngsríkinu enn."
"Á hvern og til hvers?" spyr karl.
"Á mig til að halda barni undir skírn," segir kerling.
"Far þú þá," segir karlinn.
Kerling fer og segir sem fyrr í kóngsríkinu að hún eigi að sækja smjör. Tekur hún þá allt sem eftir var í tunnunni. Þegar hún kom heim spurði karlinn hvað barnið héti.
"Botni heitir burðugur sveinn," segir kerling.

Nú líður og bíður fram á útmánuði. Þá fór að verða hart í búi hjá karli og kerlingu. Þá segir karlinn við kerlingu sína að nú sé best að sækja smjörtunnuna í kóngsríkið. Kerling fellst á það, og fara þau nú bæði og segjast ætla að sækja tunnuna sína. Þeim var fengin tunnan og sáu þau að umbúðirnar voru óhaggaðar. Veltu þau nú tunnunni heim til sín og inn í kotið. Opnaði karlinn nú tunnuna, en þá var hún galtóm. Karli bregður heldur en ekki í brún og spyr kerlingu sína hvernig á þessu muni standa.
Hún lést nú ekki verða síður hissa á þessu en hann og þóttist ekkert skilja í hverjum brögðum þau væru beitt. En í sama bili sér kerling stóra flugu sem hafði flogið ofan í tunnuna. "Þarna kemur rækalls þjófurinn," segir hún og sýnir karlinum fluguna.
"Nei, skoðaðu, ótætis flugan sú arna, hún hefur sjálfsagt étið allt smjörið okkar úr tunnunni," segir kerling.
Karlinn sér að það muni satt vera. Sækir hann nú fiskasleggjuna sína og ætlar að rota fluguna. Læsir hann þá kotinu svo flugan komist ekki út.
Ofsækir karlinn nú fluguna og slær til hennar hart og tíðum og brýtur allt og bramlar, því aldrei hæfði hann fluguna.
Loksins varð karlinn uppgefinn og settist niður í bræði. En þá kemur flugan og sest á nefið á honum.
Karl biður þá kerlingu að rota fluguna og segir: "Neyttu á meðan á nefinu stendur," og er það máltak síðan.
Kerling reiðir upp sleggjuna af alefli, rekur hana á nefið á karlinum og dauðrotar hann, en flugan slapp og er órotuð enn. En kerlingin stumrar enn yfir karlinum.

Birt þann 1. október 2019
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri. Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson sáu um útgáfuna. Reykjavík: Bókaútgáfan Þjóðsaga, 1954, II, 481–482.