Íslensk-dönsk orðabók Sigfúsar Blöndals, sem kom út á árunum 1920−1924, er athyglisverð heimild um íslensku í byrjun 20. aldar. Orðabókin er efnismikil og ítarleg og eitt af megineinkennum hennar er kerfi sérmerkinga af ýmsu tagi þar sem vakin er athygli á afmörkuðum atriðum í máli og málnotkun, t.d. hvað varðar úrelt orð, kveðskaparorð, íðorð og gælunöfn. Á vef Árnastofnunar má nú finna rafræna útgáfu af orðabókinni.
Orð tengd við afmarkað landsvæði
Nokkrir flokkar sérmerkinga koma mun oftar fyrir en aðrir. Oft er tiltekið orð eða ákveðið orðfæri merkt ákveðnu landsvæði. Ekki er einungis talað um landshluta eins og Norðurland eða Vestfirði heldur líka sveitir, bæi eða þorp. Alls eru yfir 50 staðir nefndir í þessu sambandi. Sem dæmi má nefna orðasambandið „því er ekki að mistra“ sem er tengt við Siglufjörð og merkir eitthvað í líkingu við „það klikkar ekki“.
Einnig er sérmerkt orðafar sem tíðkast hjá Íslendingum í Vesturheimi, t.d. að orðið kar geti haft merkinguna ‘járnbrautarvagn’. Sérstaka athygli vekja dæmi um málfar götudrengja. Til dæmis má sjá þessar upplýsingar við sögnina mana: „jeg m. þig eins og morkinn skít, myglaðan (el. maðkaðan) upp úr holu (alm. Udtr. blandt gadedrenge).“
Tökuorð úr dönsku
Tökuorð eru sérstaklega merkt eða þau tökuorð sem einkum finnast í talmáli. Flest þessara orða eru ættuð úr dönsku sem var það erlenda tungumál sem þá hafði mest áhrif á íslensku. Hér má nefna nokkur orð sem enn eru hluti af daglegu máli eins og dúkka, blússa og dama en einnig orð sem eru horfin eins og t.d. nafnorðið fella í merkingunni ‘gildra’ og börs sem þýðir ‘kauphöll’. Þótt flest þessara orða séu úr dönsku koma einnig fyrir orð úr öðrum málum eins og físt úr ensku (feast) og sjampaní úr frönsku (champagne, þ.e. kampavín).
Geymd og gleymd nýyrði
Annar algengur flokkur sérmerktra orða eru nýyrði. Þar kennir ýmissa grasa. Sum þessara orða hafa náð fótfestu í málinu og eru notuð enn í dag eins og t.d. harmleikur, sýkill og tilraunadýr. Önnur nýyrði eru nánast óþekkt nú einni öld síðar. Hér má nefna orð eins og heyrnarauki yfir það fyrirbæri sem oftast er kallað ‘hlustunarpípa’, hjálmrós sem orð yfir ‘túlípana’ og orðið hamraharpa fyrir hljóðfærið sem flestir kalla ‘píanó’.
Óformlegt mál
Ein fróðlegasta sérmerkingin nær yfir það sem kalla mætti óformlegt mál. Hér getur verið um að ræða einstök orð eins og lýsingarorðið domm (þ.e. að vera domm) en einnig beygingarmyndir og framburð sem ekki tilheyrir því sem kallast „rétt“ mál, t.d. eignarfallið læknirs af orðinu læknir eða hæðstur fyrir efsta stig lýsingarorðsins hár eins og enn heyrist oft.
Að auki eru ýmis orðasambönd eða orðatiltæki merkt á þennan hátt. Oft er þetta málnotkun sem tekur til ýmissa líkamsathafna, áfengisdrykkju og annars ófíns atferlis. Fjölmörg dæmi mætti hér nefna, t.d. lýsingarorð yfir ýmis stig ölvunar eins og moldfullur, sósaður og blindöskufullur. Einnig mun fólk á þessum tíma hafa talað um að flytja lögmanninn þegar það brá sér á salernið og jafnframt sést að orðasambandið Katrín frá Langalæk hafa verið notað yfir niðurgang.
Orðabók Blöndals er merkileg heimild um málnotkun sem ekki lengur er viðhöfð. Mörg dæmi má þar finna úr talmáli sem annars eru litlar heimildir um. Orðabókin skráir þannig ekki einungis orð heldur veitir einnig athyglisverða innsýn í samfélag og menningu liðins tíma.
Síðast breytt 7. október 2025



