Skip to main content

Ættartölusafnrit séra Þórðar Jónssonar í Hítardal I-II

Útgáfuár
2008
ISBN númer
978-9979-654-03-2
Fyrra bindi er fyrsta heildarútgáfa á Ættartölusafnriti sem séra Þórður Jónsson í Hítardal á Mýrum tók saman 1645–1660 eftir frásögnum og eldri ritheimildum. Textinn er prentaður með nútímastafsetningu eftir handritum sem fara næst glötuðum frumgerðum. Séra Þórður fæddist um 1609, lærði í Kaupmannahöfn, var prestur í Hítardal frá 1630 til æviloka 1670. Kona hans var Helga, dóttir Árna Oddssonar lögmanns á Leirá. Þau hjón voru vensluð íslenskum fyrirmönnum á sinni tíð sem ættir eru raktar að og frá í safnritinu: biskupum, hirðstjórum, lögmönnum, sýslumönnum, próföstum, prestum, skólameisturum, lögréttumönnum og efnabændum. Meginefnið eru síendurtekin nöfn íslenskra embættismanna, áa þeirra, maka, niðja og jarða, og inn í milli er skotið merkilegum smásögum af mannraunum, ástafari, arfadeilum o. s. frv. Ættartölusafnritið er samtíðarheimild um ættir, afkomendur og búsetu fjölda Íslendinga á fyrri hluta 17. aldar. Af því spruttu yngri gerðir auknar efni um nýjar kynslóðir og frá þessum ritum er runnin ómæld þekking í prentuð ættfræðirit á nútíma. Í seinna bindi er nafnaregistur textaútgáfunnar og ritgerð sem er frumrannsókn á uppruna, efni og tengslum helstu ættartöluhandrita síðari alda og bókiðju séra Þórðar í Hítardal, hann er kunnastur fyrir Landnámugerð sína, Þórðarbók Landnámu. Hér er um að ræða stórmerka frumheimild fyrir íslenskar ættfræðirannsóknir.

Nánar um útgáfu Ættartölusafnrits séra Þórðar Jónssonar í Hítardal I-II
Eftir Guðrúnu Ásu Grímsdóttur

Fyrra bindi þessa verks er fyrsta heildarútgáfa á Ættartölusafnriti séra Þórðar Jónssonar í Hítardal sem var tekið saman á tímabilinu 1645–1660 eftir eldri ritheimildum og frásögnum samtíðarmanna séra Þórðar. Í safnritinu eru ættir raktar að og frá íslenskum fyrirmönnum í embættismannastétt sem uppi voru á 16. og 17. öld: biskupum, lögmönnum, sýslumönnum, próföstum, prestum, skólameisturum, lögréttumönnum og efnabændum.

Í fyrri hluta annars bindis er registur yfir manna- staða- og ritverkanöfn sem fyrir koma í útgefnum texta Ættartölusafnritsins.

Í seinni hluta annars bindis er ritgerð sem fjallar um bókiðju séra Þórðar í Hítardal, Ættartölusafnrit hans og uppruna, efni og tengsl íslenskra ættartöluhandrita frá 17. öld og fyrri hluta 18. aldar. Ritgerðin er frumrannsókn á þessu efni.

Séra Þórður Jónsson í Hítardal var fæddur um 1609, lærði fyrst í heimaskóla hjá föður sínum, séra Jóni Guðmundssyni í Hítardal. Hann lauk síðar guðfræðiprófi frá Kaupmannahafnarháskóla og þjónaði Hítardalsprestakalli frá 1630 til æviloka 1670. Séra Þórður var kvæntur Helgu, dóttur Árna Oddssonar lögmanns á Leirá í Leirársveit. Þau hjón voru náskyld og á ýmsan hátt vensluð helstu embættismönnum landsins á sinni tíð, en um ættir þessara sömu embættismanna er fjallað í Ættartölusafnritinu, og því má þetta rit með sanni kallast einkaættartölurit þeirra Hítardalshjóna.

Séra Þórður var fræðimaður, hafði skrifara í þjónustu sinni og lét skrifa upp íslenskar fornsögur: Noregskonungasögur, Sturlunga sögu, Eyrbyggju og fleiri Íslendingasögur. Sjálfur setti séra Þórður saman eina gerð Landnámu svokallaða Þórðarbók Landnámu. Efniskjarni í Ættartölusafnritinu er hinn sami og í Landnámu: Ættir jarðauðugra fyrirmanna eru raktar aftur og fram, búseta þeirra tilgreind og niðjar þeirra taldir með tilheyrandi venslafólki fram til samtíðar safnandans, séra Þórðar. Ættartölusafnritið úr Hítardal heldur við íslenskri rithefð frá fornu fari, tekur upp þráðinn frá Landnámu, þótt ættrakningar slitni í sundur á 14. og 15. öld. Fornmenntastarf séra Þórðar í Hítardal var í anda húmanismans, þeirrar lærdómsstefnu sem hæst bar í Norðurálfu á 17. öld, en eitt einkenni hennar var leit fræðimanna að vitneskju í ritheimildum um upphaf þjóða sinna á óminnistíð.

Markmið þessarar útgáfu er að birta sem upprunalegastan, fyllstan og réttastan texta Ættartölusafnrits séra Þórðar í Hítardal eftir handritum sem standa næst frumgerðum þess. Útgáfan er ætluð þeim til gagns og gamans sem vilja leita sér fróðleiks um ættstofna Íslendinga og því var einboðið að setja textann með nútímastafsetningu, enda eru frumrit frá hendi séra Þórðar glötuð.

Rannsókn á varðveittum handritum Ættartölusafnritsins leiddi í ljós að gerðir þess eru tvær. Önnur má heita frumgerð sem varð til í Hítardal um 1645 og aukin á næstu árum.

Frumgerð Ættartölusafnritsins fékk Árni Magnússon lánaða í Skálholt um 1710 og fól skrifara sínum, Styr Þorvaldssyni, að gera eftir henni þá uppskrift sem er AM 257–58 fol. Forrritið, sem nú er glatað, var í eigu séra Þórðar Jónssonar á Staðarstað, dóttursonar séra Þórðar Jónssonar í Hítardal, og hefir það handrit að öllum líkum verið eiginhandarrit afa hans, séra Þórðar í Hítardal. Af tímasetningum atburða sem frá er sagt má sjá að megintexti forritsins var settur saman um 1645–1649, en í eftirritinu, AM 257–58 fol., eru ákveðnar greinar ýmist undir- eða yfirstrikaðar sem túlka má svo að þær séu yngri viðaukar.

Ættartölusafnritið var hreinritað um 1660 og hreinritaða gerðin léð Brynjólfi Sveinssyni biskupi í Skálholti. Hreinritaða gerðin mun að mestu glötuð en líklegt er að leifar hennar sé ættartölubrotið sem er í ÍB 321 4to, en það brot er skrifað 1660. Árið 1666 lét Brynjólfur biskup skrifara sinn, séra Jón Erlendsson, gera eftirrit hreinrituðu gerðarinnar og er uppskrift séra Jóns Lbs. 42 fol. Á árunum 1685–1704 var Lbs. 42 fol. í eigu séra Hannesar Björnssonar í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd og jók hann mörgum greinum við í eyður í handritinu og einnig bróðir hans, Sigurður Björnsson lögmaður í Saurbæ á Kjalarnesi.

Sterkar líkur eru á að AM 255 fol. sé upphaflega gert að miklu leyti eftir sama forriti og Lbs. 42 fol. en ýmsu aukið við og annað fellt úr. Þekktur skrifari, Páll Sveinsson í Flóa, skrifaði fyrri hluta textans í AM 255 fol., hugsanlega um 1675, nokkur hluti textans er skrifaður samtímis af óþekktum manni, en síðasta hlutann, líklega eftir 1695 en fyrir 1707, skrifaði séra Jón yngri Eyjólfsson í Hvammi í Norðurárdal.
Efni Ættartölusafnritsins er mestmegnis nafnarunur, en ættir íslenskra fyrirmanna sem ritið fjallar um tengdust mjög innbyrðis með giftingum og því koma sömu nöfn fyrir aftur og aftur og aftur. Inn í milli er skotið smásögum af mannraunum, ástafari, brúðkaupum, framhjátökum, afturgöngum, höfðingjadeilum o. s. frvs.

Í fyrsta hluta eru þættir um ættir, niðja og athafnir þeirra sjö íslensku biskupa sem sátu biskupsstólana í Skálholti og á Hólum frá því um 1520 og til um 1630. Biskupaþættirnir voru prentaðir í Biskupa sögum II sem gefnar voru út í Kaupmannahöfn af Hinu íslenzka bókmenntafélagi árið 1878.

Á eftir biskupaþáttunum fara uppskriftir margra skjala sem varða mál þeirra ríkismanna sem safnritið fjallar um. Skjölin eru ekki prentuð í þessari útgáfu, því að þau eru öll gefin út í Íslenzku fornbréfasafni, flest eftir réttari uppskriftum en eru í Ættartölusafnritinu.

Í síðasta hluta Ættartölusafnritsins eru fyrirferðarmiklar frásagnir af ættum og niðjum og helstu athöfnum íslenskra höfðingja sem gegndu embættum hirðstjóra, lögmanna og sýslumanna á Vesturlandi og Vestfjörðum á 15., 16. og 17. öld. Frumgerð Ættartölusafnritisins hefur að auki haft sex þætti sem ekki eru í hreinrituðu gerðinni og fjalla þeir um ættir og niðja veraldlegra valdamanna á Íslandi, hinn síðasti þeirra er þátturinn Borgarætt þar sem er rakin er ætt frá föður Skallagríms, landnámsmanns á Borg á Mýrum, til samtíðarmanna séra Þórðar í Hítardal en þráðurinn slitnar þó á 15. öld.

Gerðir Ættartölusafnritsins, eldri frumgerð og yngra hreinrit, fylla hvor aðra upp, því að ákveðnir efnisþættir frumgerðar eru ekki í fulltrúum hreinrituðu gerðarinnar og í fulltrúum þeirrar síðarnefndu eru ákveðnir efnisþættir sem ekki eru í fulltrúum hinnar fyrrnefndu. Þar sem textarnir í báðum gerðum fylgjast að er efnismeiri textinn valinn sem aðaltexti útgáfunnar en hinn notaður til leiðréttinga og efnisíauka. Megintexti er því prentaður eftir brotinu í ÍB 321 4to eins langt og það nær, en að öðru eftir Lbs. 42 fol. Yngri viðaukar í Lbs. 42 fol. eru prentaðir með smærra letri og merktir fangamörkum bræðranna sem gerðu flesta þeirra, Hannesar og Sigurðar Björnssona. Fulltrúi frumgerðarinnar, AM 257–58 fol., er ávallt til samanburðar, leiðréttinga og efnisfyllinga eftir þörfum. Ennfremur er höfð hliðsjón af AM 255 fol. til leiðréttinga á textanum í Lbs. 42 fol. Sex síðustu þættirnir, sem ekki eru í fulltrúum hreinrituðu gerðarinnar, eru prentaðir eftir AM 258 fol. og Lbs. 199 4to haft til leiðréttinga og efnisfyllinga, en í því handriti eru fjórir þessara ættarþátta skrifaðir af Vigfúsi Jónssyni í Hítardal laust fyrir 1736 eftir sama eða náskyldu forriti og AM 257–58 fol. Greinar sem eru undirstrikaðar í AM 258 fol. eru settar með smærra letri í útgáfunni og ennfremur þær sem eru yfirstrikaðar en þær eru hér að auki skáletraðar.

Eftir ættartölubókinni Lbs. 42 fol., og fleiri heimildum gerði séra Jón Ólafsson á Lambavatni ættartölubókina Lbs. 286 fol. árið 1679, líklega fyrir Björn Gíslason sýslumann í Bæ á Rauðasandi. Aðra ættartölubók, Lbs. 456 fol., skrifaði séra Jón Ólafsson á Lambavatni árið 1681 eftir fyrri uppskrift sinni og öðrum heimildum fyrir föður Björns, Gísla Magnússon sýslumann á Hlíðarenda sem var hámenntaður framfaramaður. Séra Jón á Lambavatni breytti efnisröð og jók miklu efni við í báðum uppskriftunum. Guðríður, dóttir Gísla, sem var biskupsfrú í Skálholti, eignaðist síðar ættartölubók föður síns. Gísli hafði um 1647 samið ritgerð þar sem hann lýsti áformum um framkvæmdir sem áttu að verða til hagsbóta stjórnarfari og efnahag Íslendinga og fólust meðal annars í því að stuðla að viðreisn og eflingu fornra íslenskra höfðingjætta. Gísli á Hlíðarenda og séra Þórður í Hítardal voru náfrændur og líklegt er að Gísli hafi fylgst með tilurð Ættartölusafnrits séra Þórðar og jafnvel hvatt hann til þess að taka saman ættartölur helstu fyrirmanna landsins.

Séra Þórður Þórðarson í Hvammi í Hvammssveit í Dalasýslu gerði sér ættartölubók um 1733, Lbs. 2639 4to. Hann fór eftir einhverri uppskrift Ættartölusafnritsins úr Hítardal og fleiri heimildum og jók miklu efni við.

Ættartölubókin Lbs. 2677 4to er af þessum sama stofni, hún var gerð í Skagafirði um 1705 eftir ættartölubók Ragnheiðar Jónsdóttur í Gröf á Höfðaströnd sem í tvígang var biskupsfrú á Hólum í Hjaltadal. Ættartölubók Ragnheiðar var gerð 1688 en hún er nú glötuð.

Benedikt Þorsteinsson lögmaður að Rauðaskriðu í Reykjadal í Þingeyjarsýslu setti saman ættartölubókina ÍB 46–47 4to um 1720–1730. Skyld henni er ættartölubókin Lbs. 4648 4to sem mun gerð í Þingeyjarsýslu.

Um líkt leyti og Benedikt gerði Jón Magnússon í Sólheimum í Skagafirði ættartölubókina AM 433 4to og sendi hana bróður sínum, Árna Magnússyni prófessor, til Kaupmannahafnar.

Fyrir Jón Þorláksson sýslumann í Berufirði í Múlaþingi og konu hans, Sesselju Hallgrímsdóttur, var gerð ættartölubók úr efniviði Ættartölusafnritsins úr Hítardal. Bók þeirra Berufjarðarhjóna er Lbs. 457 fol.

Handritasafnarinn Árni Magnússon prófessor gegndi embættisstörfum á Íslandi á vegum konungs 1702–1712 og eignaðist þá og fyrr fjölda íslenskra handrita. Hann fékk fimm ættartöluhandrit lánuð í Skálholt og lét skrifara sína gera eftirrit lánshandritanna eftir nákvæmum fyrirmælum sem hann setti sjálfur.

Árni fékk lánaða ættartölubókina AM 255 fol. frá Brynjólfi Þórðarsyni á Hlíðarenda og þá bók fékk Árni til eignar um 1707.

Frá Sigurði Sigurðssyni alþingisskrifara fékk Árni lánaða ættartölubókina Lbs. 42 fol. og lét skrifara sína samræma texta AM 255 fol. við Lbs. 42 fol. þannig að allt sem stendur í Lbs. 42 fol. stendur nú einnig í AM 255 fol. og allt efni sem þar er umfram Lbs. 42 fol. er merkt sérstaklega.

Lbs. 456 fol. fékk Árni að láni árið 1708 frá Guðríði Gísladóttur á Hlíðarenda og eftir því handriti lét hann skrifa AM 254 fol.

Árni fékk Lbs. 457 fol. léð frá Jóni Þorlákssyni sýslumanni í Berufirði um 1709 og eftir því handriti lét hann skrifa AM 256 fol.

Árni lét gera AM 257–58 fol. eftir forriti sem hann fékk léð í Skálholt um 1710 frá séra Þórði Jónssyni á Staðarstað en forritið er glatað sem fyrr segir.

Ættartöluhandritin sem Árni fékk léð í Skálholt, nema AM 255 fol., voru ekki föl, enda voru þau öllu í eigu efnaðara íslenskra embættismanna sem var gagn og heiður að vita ætt sína og jafningja sinna.

Ættartöluhandritin sem hér eru nefnd voru flest gerð fyrir skólaða og auðuga íslenska embættismenn eða eiginkonur embættismanna og gengu í arf til niðja þeirra eða skyldmenna. Helsta einkenni flestra ættartöluhandrita er að upphaflega voru skildar eftir eyður til þess að auka mætti við nýjum ættliðum og meiri fróðleik í hverja bók. Efnið er sífrjótt og þótt stofninn sé hinn sami er engin gerð ættartölubókar eins og forrit hennar né eins og hún var í upphaflegri gerð, nema þær uppskriftir sem Árni Magnússon lét gera. Hvert ættartölurit er því sjálfstæð gerð með sérstökum íaukum, úrfellingum og leiðréttingum og sérstakri framsetningu efnis. Hvert og eitt ættartölurit er mikilvæg samtíðarheimild um ættir og tengdir fólks á hverjum tíma. Sá fróðleikur sem þessi rit varðveita er undirstaða allrar ættfræðiþekkingar sem fram hefur komið á síðari tímum í prentuðum ættfræðiritum um Íslendinga.

Bókin er gefin út í ritröðinni Rit Árnastofnunar (Rit 70).
Kaupa bókina