Skip to main content

Barokkmeistarinn. List og lærdómur í verkum Hallgríms Péturssonar

Útgáfuár
2005
ISBN númer
9979-54663-8
Doktorsritgerð Margrétar Eggertsdóttur, dr. phil. og rannsóknarprófessors við Árnastofnun.

Í ritgerðinni er leitast við að svara spurningum á borð við: Hvernig skáld var Hallgrímur Pétursson? Úr hvaða jarðvegi spratt kveðskapur hans? Voru hugmyndir hans heimafengnar eða átti hann eitthvað sameiginlegt með skáldum í öðrum löndum? Var Ísland einangraður útkjálki á dögum Hallgríms eða hugsuðu menn hér svipað og í nálægum Evrópulöndum? Hvað er barokk? Er það stíll, tímabil eða texti? Á hugtakið erindi í íslenska bókmenntasögu?

Barokk og barokktexti eru lykilhugtök í þessari rannsókn á kveðskap Hallgríms Péturssonar (1614-1674). Reynt er að veita lesendum nokkra innsýn í barokkrannsóknir í Þýskalandi og á Norðurlöndum og loks á Íslandi og leitast við að skilgreina hvað einkenni hinn svokallaða barokktexta. Aðrir inngangskaflar lýsa íslensku samfélagi á sautjándu öld og menntun í orðsins list á sama tíma. Fjallað er um kveðskap Magnúsar Ólafssonar í Laufási, endurreisnarmanns í íslenskri bókmenntasögu, og um kveðskap Stefáns Ólafssonar samtímamanns Hallgríms, sem var í senn hliðstæða hans og andstæða.

Meginhluti bókarinnar snýst um Hallgrím Pétursson og verk hans: Raktar eru heimildir um hann og helstu æviatriði og reynt að varpa ljósi á stöðu hans í íslensku samfélagi; gefið er yfirlit yfir ritverk skáldsins en að því búnu fjallað um þessar kveðskapargreinar: hverfulleikakvæði, ádeilukvæði, tækifæriskvæði, andlegan kveðskap, passíusálma, iðrunar- og huggunarljóð. Í þriðja og síðasta hluta er gerð grein fyrir ritum Hallgríms í lausu máli, en þau eru kristileg íhugun og bera þekkingu höfundar á mælskufræðum glöggt vitni. Loks er fjallað um lofkvæði sem ort voru um Hallgrím Pétursson og þá mynd sem þau draga upp af honum. Aftast er samantekt á ensku, heimildaskrá, handritaskrá, nafna- og myndaskrá. Háskólaútgáfan sér um dreifingu bókarinnar.
Kaupa bókina