Skip to main content

Duggals leiðsla

Útgáfuár
1983
ISBN númer
9979-819-42-1
Duggals leiðsla er norræn þýðing frá 13. öld á latnesku riti, Visio Tnugdali, einu kunnasta og útbreiddasta verki leiðslubókmennta frá miðöldum, en svo kallast þær bókmenntir sem lýsa því er ber fyrir menn í leiðslu eða draumsýn, einkum í öðrum heimi (píslum fordæmdra og sæluvist hólpinna). Ef treysta má formála verksins, hefur írskur munkur, Marcus að nafni, sett það saman um miðja 12. öld í Regensburg í Þýskalandi. Það var síðan þýtt á margar þjóðtungur.

Löngu áður en Dante hóf bókmenntagrein þessa á æðra svið með Divina commedia, voru leiðslurit talin til hinna mikilvægustu trúarbókmennta. Visio Tnugdali er vel samin leiðsla; þar segir annars vegar frá þeim kvölum sem bíða sálarinnar í víti og hreinsunareldinum og hins vegar hvernig hún leiðréttist og hlýtur háleita umbun meðal hólpinna. Visio Tnugdali hefur orðið fyrir áhrifum frá eldri leiðsluritum, en Dante hefur aftur á móti stuðst við hana.

Lýsingar annars heims hafa einkum verið tengdar við keltneska frásagnarhefð og í Visio Tnugdali má sjá glögg merki um írskan uppruna verksins, enda er það talið góð heimild um írska kirkjusögu og guðfræðilegar umræður samtímans. Verkið hefur einnig haft áhrif á myndlist miðalda eins og sjá má í myndskreytingu hinnar frægu bænabókar frá 15. öld, Très Riches Heures, sem kennd er við de Berry hertoga. Sagnaritarinn og trúbadorinn Helinandus sem uppi var í byrjun 13. aldar stytti Visio Tnugdali nokkuð og felldi síðan inn í Veraldarsögu sína, en við hana studdist Vincentius frá Beauvais í riti sínu, Skuggsjá sögunnar (Speculum historiale).

Á annað hundrað handrita af Visio Tnugdali hafa varðveist og að auki eru til þýðingar á miðensku, flæmsku, katalónsku og írsku, svo að fáeinar þýðingar séu nefndar. Duggals leiðsla hefur það sér einkum til ágætis að vera elsta þýðing verksins á þjóðtungu. Henni hefur sennilega verið snúið á ríkisstjórnarárum Hákonar gamla Hákonarsonar (1217-1263) og líklega að forsögn hans.

Öll handrit Duggals leiðslu eru íslensk, en óvíst er hvort hún hefur upphaflega verið þýdd af Íslendingi eða Norðmanni. Leiðslan hefur geymst nær heil í tveimur skinnhandritum og tvö brot hennar eru einnig til á skinni. Bergur Sokkason ábóti felldi upphafskafla leiðslunnar nær orðrétta inn í Mikjáls sögu erkiengils og eitt handrit þeirrar sögu er jafnframt elsta handrit Duggals leiðslu. Þetta handrit hefur verið skrifað um miðbik 14. aldar. Hin handritin eru frá lokum 14. aldar og 15. öld. Duggals leiðsla var fyrst gefin út af C. R. Unger í Heilagra manna sögum (1877) með samræmdum texta úr öllum handritunum.

Útgáfa Duggals leiðslu sem nú birtist er búin til prentunar af Dr. Peter Cahill. Í þessari útgáfu er texti allra handritanna prentaður stafrétt og að auki til samanburðar latneskur texti úr útgáfu A. Wagners (Erlangen 1882). Í viðbót er leiðslan þýdd á ensku eins nákvæmlega og unnt er og tekinn með og þýddur sá orðamunur sem máli skiptir.

Útgáfunni fylgir rækilegur inngangur á ensku þar sem gerð er grein fyrir stafsetningu og málfari, aldri og heimkynnum hvers handrits og skyldleika þess við önnur handrit. Þar er einnig fjallað um aldur og heimkynni þýðingarinnar og tengsl hennar við önnur norræn rit. Vinnubrögð þýðandans hafa verið könnuð ítarlega og í lok inngangsins er sérstakur kafli um ritningarstaði, biblíulegt orðfæri og vísun til ritningarinnar. Að bókarlokum eru þrennskonar skrár og sex ljósprentanir úr þeim handritum sem notuð voru við útgáfuna.