Skip to main content

Gripla XXVII

Útgáfuár
2016
ISBN númer
978 9979 654 38 4
Ritstjórar: Emily Lethbridge og Úlfar Bragason.

Að þessu sinni er að finna í ritinu sjö fræðigreinar auk annars efnis. Shaun F.D. Hughes fjallar um handritið Icel. 32, sem varðveitt er í bókasafni Harvardháskóla í Bandaríkjunum og hefur að geyma fornaldarsögur með hendi Halldórs Jakobssonar (d. 1810) og formála Halldórs fyrir sögunum þar sem hann reynir að flokka þær eftir sannleiksgildi þeirra. Emily Lethbridge skrifar um viðtökur Íslendingasagna eins og greina má þær í ólíkum handritum frá mismunandi tímum og stöðum í greininni „The Icelandic Sagas and Saga Landscapes“. Elisabeth I. Ward greinir Þórðar sögu hreðu sem héraðssögu. Gunnar Harðarson fjallar um tengsl handritsins Hauksbókar frá 14. öld við alfræðirit á miðöldum. Guðbjörg Kristjánsdóttir kannar lýsingar í íslenskum handritum á 15. öld og hverjir höfundar þeirra voru. Astrid Marner gerir grein fyrir latínuprédikun um heilagan Þorlák, sem er í íslensku handriti frá 14. öld og varðveitt er í Uppsölum, og gefur prédikunina út með enskri þýðingu. Loks er birt útgáfa, sem Stephen Pelle hefur gert á þremur áður óútgefnum hómilíum, sem varðveittar eru í AM 624 4to frá því um 1500. Annað efni er grein eftir Beeke Stegmann, Gottskálk Jensson, Natasha Fazlic og Alex Speed Kjeldsen um brot úr norskum skjölum frá því snemma á 13. öld, sem fundust í Árnasafni í Kaupmannahöfn 2015 í gömlu bandi á lagahandritinu AM 22 4to, og ræða sem Carol J. Clover, prófessor emeritus við Kaliforníuháskólann í Berkeley, flutti þegar hún var gerð heiðursdoktor við Háskóla Íslands 2. október 2015.

Bókin er gefin út í ritröðinni Rit Árnastofnunar (Rit 95).
Kaupa bókina