Skip to main content

Sagan upp á hvern mann. Átta íslenskir sagnamenn og ævintýrin þeirra

Útgáfuár
2011
ISBN númer
978-9979-654-19
Hljóðdæmi og nánar um ritið.

Út er komin hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum bókin Sagan upp á hvern mann. Átta íslenskir sagnamenn og ævintýrin þeirra eftir Rósu Þorsteinsdóttur. Bókin er brautryðjendaverk í íslenskri þjóðsagnafræði en í bókinni er fjallað um heimssýn í ævintýrum og sagnasjóðum Elísabetar Friðriksdóttur, Friðfinns Runólfssonar, Guðríðar Finnbogadóttur, Herdísar Jónasdóttur, Katrínar Valdimarsdóttur, Kristínar Níelsdóttur, Stefáns Guðmundssonar og Steinunnar Þorsteinsdóttur. Fólkið er valið úr hópi þeirra fjölmörgu sem sagt hafa ævintýri sín og sögur inn á segulbönd sem varðveitt eru í þjóðfræðisafni stofnunarinnnar, en stærsta hluta þess var safnað af Hallfreði Erni Eiríkssyni, Jóni Samsonarsyni og Helgu Jóhannsdóttur á árunum 1963-75.

Meðal annars er leitað svara við spurningum um hlutverk og umhverfi ævintýranna og hvort náttúrlegt eða félagslegt umhverfi endurspeglist í ævintýrunum sem sagnafólkið velur að segja. Æviskeið fólksins er því kannað og sagnasjóður hvers og eins gaumgæfður. Niðurstaðan er sú að ævintýrin geti endurspeglað lífsviðhorf, gildismat og lífsreynslu fólksins sem segir þau og til þess að komast nær merkingu ævintýranna skiptir verulegu máli að þekkja ævi sagnafólksins sem segir þau og umhverfið sem það bjó í.

Úrval sagnanna er prentað í bókinni en einnig er hægt að hlusta á sögurnar á heimasíðu stofnunarinnar:

www.arnastofnun.is/saganuppahvernmann
Rósa Þorsteinsdóttir er fædd og uppalin í Hofsósi en býr nú í Reykjavík þar sem hún hefur komið upp þremur börnum ásamt eiginmanni sínum. Hún lauk BA-prófi í bókasafnsfræði og þjóðfræði frá Háskóla Íslands árið 1995 og meistaraprófi í þjóðfræði frá sama skóla árið 2005. Hún hefur starfað við Árnastofnun síðan 1995, sem rannsóknarlektor frá 2009. Rósa hefur haft umsjón með tölvuskráningu þjóðfræðasafns stofnunarinnar og sent frá sér margs konar útgáfur á efni þess, þ. á m. Hlýði menn fræði mínu (2002) og Einu sinni átti ég gott (2006). Þá hefur hún sinnt kennslu við þjóðfræðideild Háskóla Íslands auk margvíslegra starfa við söfnun, miðlun og rannsóknir þjóðfræðaefnis, til dæmis við þjóðfræðideildir háskólanna í Dyflinni og Edinborg og við þjóðlagaakademíuna á Siglufirði
Kaupa bókina