Skip to main content

Tristán en el Norte

Útgáfuár
1978
ISBN númer
9979-819-33-2
Doktorsritgerð Álfrúnar Gunnlaugsdóttur (f. 1938), prófessors í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Í ritinu er "Saga af Tristram ok Ísönd", sem venjulega er nefnd "Tristrams saga" og þýdd var á norrænu úr fornfrönsku á öndverðri 13. öld af bróður Róbert, birt í nákvæmri spænskri þýðingu. Hinn norræni texti er rækilega borinn saman við það sem varðveist hefur af heimildinni, "Le Roman de Tristan" eftir Thomas, en einnig er þessi gerð sögunnar borin saman við þýska kvæðið "Tristan" eftir Gottfried frá Strassburg og enska kvæðið "Sir Tristrem", þar sem stuðst er við kvæði Tómasar í þeim báðum. Niðurstaðan er að Tristrams saga sé eina áreiðanlega heimildin um hinn glataða hluta franska ljóðsins, eina heimildin sem er raunveruleg þýðing, þótt hún sé það ekki í nútímamerkingu orðsins. Róbert fylgir frumtextanum næstum línu fyrir línu og breytir ekki innihaldi hans, þótt hann felli stundum úr. Í ritgerðinni er hin fræga endurgerð Bédiers á kvæði Tómasar rannsökuð og gagnrýnd. Þetta er ómissandi rit fyrir alla áhugamenn um evrópskar miðaldabókmenntir.