Skip to main content

Viðburðir

Arfur og endurnýjun: hvað býr í íslenskum orðaforða?

1. desember
2007
kl. 14–16

Málþing Orðs og tungu í minningu Jakobs Benediktssonar 

Laugardaginn 1. desember næstkomandi stendur Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum ásamt Snorrastofu að málþingi í Reykholti undir yfirskriftinni Arfur og endurnýjun: hvað býr í íslenskum orðaforða? Þetta er fjórða málþingið sem efnt er til í tengslum við útgáfu tímaritsins Orð og tunga og að þessu sinni er það  haldið í minningu dr. Jakobs Benediktssonar, en í ár eru liðin hundrað ár frá fæðingu hans. Af þeim sökum þótti við hæfi að halda þetta málþing í Reykholti þar sem bókasafn Jakobs var gefið til Snorrastofu að honum látnum. Dagskrá þingsins er líka viðameiri og fjölbreyttari en endranær.

Á þinginu verða haldin sjö framsöguerindi um efni sem tengjast íslenskum orðaforða. Þar verður m.a. fjallað um orðaforðann í sögulegu ljósi, hvernig honum er lýst í orðabókum, um þátt nýyrða í mótun orðaforðans og um tökuorð og aðlögun þeirra fyrr og nú. Fyrirlesarar verða Guðrún Kvaran, Jón Hilmar Jónsson, Jón G. Friðjónsson, Ari Páll Kristinsson, Vésteinn Ólason, Ásta Svavarsdóttir, Veturliði Óskarsson og Kristján Árnason; að lokum fara fram almennar umræður um efnið undir stjórn Gísla Sigurðssonar. Fyrirlestrarnir verða haldnir í fundasal í Reykholtsskóla og málþinginu lýkur með stuttum tónleikum í Reykholtskirkju.
 

2007-12-01T14:00:00 - 2007-12-01T16:00:00