Skip to main content

Viðburðir

Árna Magnússonar fyrirlestur

13. nóvember
2021
kl. 17–18

Norræna húsið
Reykjavík
Ísland

Árna Magnússonar fyrirlestur verður haldinn á afmælisdegi hans 13. nóvember.

Fyrirlesari er Már Jónsson sagnfræðingur og nefnir hann erindi sitt: Árni Magnússon. Þriggja alda minning og framtíðarsýn.

Hér má sjá ágrip af fyrirlestri Más:

Stutt er í stórafmæli sem tengjast Árna Magnússyni (1663–1730), prófessor og handritasafnara. 300 ár verða liðin frá brunanum í Kaupmannahöfn 20. október 2028 og þriggja alda ártíð safnarans sjálfs verður að morgni 7. janúar 2030. Þess var minnst með margvíslegum hætti árið 2013 að 350 ár voru liðin frá fæðingu hans en þess ekki freistað að gera úttekt á manninum eða verkum hans. Nú er annað tækifæri og ekki ráð nema í tíma sé tekið. Í erindinu verður litið á Árna og eignir hans við andlátið í samhengi við íslenska menningarsögu eins og hún leggur sig. Að því gefnu að handrit og önnur gögn sem liggja eftir hann séu mjög mikils virði verður spurt hvort ekki megi bæta um betur við að gera efniviðinn aðgengilegan til fræðilegra rannsókna og miðlunar. Að hvaða marki dugir stafræn vinnsla og birting? Þarf ekki líka bækur? Lagt verður mat á það sem þegar liggur fyrir og spáð í nauðsynleg skref á allra næstu árum í þágu þess að gera mætum manni verðug skil.

Viðburðinum er streymt hér.

2021-11-13T17:00:00 - 2021-11-13T18:00:00