Skip to main content

Viðburðir

Fundur íslenskulektora sem starfa við erlenda háskóla

1.–2. júní
2007
kl. 09–17

Fundur íslenskulektora sem starfa við erlenda háskóla
Lyon, Frakklandi
1. - 2. júní

Íslenska ríkið hefur á undanförnum árum stutt kennslu í nútímaíslensku við fimmtán háskóla í Evrópulöndum, við Manitobaháskóla og Wasedaháskóla í Tókýó. Árlegur fundur íslenskulektora, sem starfa við háskóla erlendis, verður haldinn í háskólanum í Lyon á Frakklandi dagana 1. og 2. júní nk. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hefur umsjón með kennslu í íslensku við erlenda háskóla af hálfu íslenskra stjórnvalda og skipuleggur fundinn í samráði við íslenskulektorana.

Á fundinum verður rætt um kennslu í íslensku fyrir erlenda námsmenn, orðabókagerð, bókmenntasöguskrif og íslenska menningarkynningu erlendis.

Áhugi á að læra íslensku sem annað mál og erlent mál fer stöðugt vaxandi. Nú nema á annað þúsund stúdentar íslensku við erlenda háskóla ár hvert, bæði þar sem íslensk stjórnvöld styðja kennsluna og annars staðar þar sem boðið er upp á kennslu í nútímaíslensku, svo sem í Bonn, Köln, Tübingen og Freiburg í Þýskalandi, Poznan og Varsjá í Póllandi, Vilníus í Litháen, Moskvu í Rússlandi, Sofíu í Búlgaríu, Madison í Wisconsin, Minneapolis í Minnesota og Provo í Utah í Bandaríkjum Norður-Ameríku og Tokai í Japan. Jafnframt sækja stöðugt fleiri erlendir stúdentar íslenskukennslu hingað til lands, bæði vetrarnám á vegum hugvísindadeildar Háskóla Íslands og sumarnámskeið á vegum Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Kennsla í íslensku og íslenskum fræðum við erlenda háskóla er mikilvægur þáttur í kynningu á íslenskri menningu og til eflingar íslenskri tungu. Þess vegna er eðlilegt að styðja þessa kennslu og auka hana, bæta starfsskilyrði og starfskjör kennaranna, efla kennsluefnisgerð og fjölga möguleikum til náms og námsstyrkjum.

2007-06-01T09:00:00 - 2007-06-02T17:00:00