Skip to main content

Viðburðir

Fyrirlestur Tungutækniseturs. Hrafn Loftsson: ,,Orðflokksmörkun íslensks texta. Tilraunir með sameiningu og samsetningu á mörkurum"

6. febrúar
2007
kl. 12–13

Fyrirlestur Tungutækniseturs
Háskólinn í Reykjavík við Ofanleiti, stofu 201
6. febrúar 2007, kl. 12:00

Tungutæknisetur gengst fyrir fyrirlestri í stofu 201 í Háskólanum í Reykjavík við Ofanleiti kl. 12:00 á morgun, þriðjudaginn 6. febrúar. Fyrirlesari er Hrafn Loftsson lektor og nefnist fyrirlestur hans "Orðflokksmörkun íslensks texta. Tilraunir með sameiningu og samsetningu á mörkurum".

Rannsóknir hafa sýnt að nákvæmni við orðflokksmörkun íslensks texta er lág í samanburði við skyld tungumál. Í þessum fyrirlestri verður sýnt hvernig hægt er að nota sameiningu (e. integration) og samsetningu (e. combination) á mörkurum til að hækka nákvæmnina. Hæsta nákvæmni sameinaðs markara er 91,80% en sá markari samanstendur af málfræðilegum reglumarkara og tölfræðilegum markara. Með því að setja saman fimm mismunandi markara tekst aftur á móti að hækka nákvæmnina í 93,34%. Þegar tveimur málfræðilegum reglum er
jafnframt bætt við hinn samsetta markara þá mælist nákvæmnin 93,48%. Á þennan máta tekst að fækka villum um 20,5% miðað við besta sameinaða markarann.

Hrafn Loftsson útskrifaðist með BS gráðu í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands árið 1989. Hann lauk meistaraprófi í tölvunarfræði og aðgerðagreiningu frá Pennsylvania State University árið 1992. Hrafn er lektor við tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík og stundar jafnframt doktorsnám í máltækni við University of Sheffield. Doktorsverkefni Hrafns fjallar um orðflokksmörkun og setningagreiningu íslensks texta. Hrafn situr í stjórn Tungutækniseturs. Þess má geta að hann hefur nýlega fengið styrk úr Rannsóknasjóði til verkefnisins "Aukin mörkunarnákvæmni íslensks texta".

2007-02-06T12:00:00 - 2007-02-06T13:00:00