Í ár er þess minnst að 150 ár eru liðin síðan fyrsti stóri hópur vesturfara fór vestur um haf frá Íslandi til Kanada. 21. október 2023 verður gagnagrunnur verkefnisins Í fótspor Árna Magnússonar í Vesturheimi formlega opnaður og þúsundir mynda af íslenskum handritum í Kanada og Bandaríkjunum koma fyrir sjónir í fyrsta sinn. Vefurinn verður aðgengilegur á íslensku og ensku. Katelin Marit Parsons verkefnisstjóri mun segja frá þeim mýmörgu forvitnilegu sögum sem leynast í þessum dýrmætu gögnum um íslenska innflytjendur í Norður-Ameríku. Nokkrir nemendur sem hafa tekið þátt í verkefninu segja frá sinni vinnu en þetta eru þau Ryan Johnson, Guðrún Brjánsdóttir og Brynjarr Þór Eyjólfsson. Örn Arnar ræðismaður Íslands í Minnesota verður einnig viðstaddur og segir frá sinni reynslu af menningarverðmætum vesturfara. Síðast en ekki síst fræðir Gísli Sigurðsson okkur um glötun og hætturnar sem steðja að menningararfinum sé ekki hlúð að honum í tæka tíð.
Í fótspor Árna Magnússonar í Vesturheimi er spennandi verkefni á vegum Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum sem hóf göngu sína 2015. Markmiðið er að safna stafrænum myndum af handritum, bréfum og öðrum skrifum á íslensku sem eru enn í Kanada og Bandaríkjunum. Verkefnið nær til handrita og skjala í einkaeigu og í söfnum víðs vegar í Norður-Ameríku sem tilheyra sögu íslenskra vesturfara.