Skip to main content

Viðburðir

Orðabækur og tímans tönn

16. mars
2007
kl. 13–16

Orðabækur og tímans tönn
Málþing á vegum tímaritsins Orð og tunga 
Safnaðarheimili Neskirkju 
16. mars, kl. 13.00

Tímaritið Orð og tunga hefur verið gefið út á Orðabók Háskólans um árabil en með sameiningu stofnana á síðasta ári færðist útgáfan í hendur Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Undanfarin ár hefur verið efnt til málþings um tiltekið efni á sviði orðfræði eða orðabókafræði á vegum tímaritsins Orð og tunga með það í huga að fyrirlesarar myndu síðan gera umræðuefni sínu ítarlegri skil í fræðilegri grein í tímaritinu. Þannig myndast samstæður þemahluti í hverju hefti. 

Næsta málþing verður haldið föstudaginn 16. mars nk. og hefur fengið yfirskriftina Orðabækur og tímans tönn. Hér er m.a. hugsað til þess hvað það er helst í orðabókum sem illa stenst tímans tönn, hversu hratt orðabækur úreldast og hvernig best verður staðið að endurskoðun þeirra eða endurnýjun. Viðfangsefnið tengist bæði innihaldi orðabóka og gerð þeirra. Breytingar á máli og málnotkun geta kallað á nýja orðalýsingu en jafnframt geta ný sjónarmið og nýjar forsendur í orðabókafræðum og orðabókagerð stuðlað að því að eldri verk úreldist eða verði gamaldags. Fyrirlesarar á málþinginu koma að efninu úr ólíkum áttum. Þar gefst gott tilefni til umræðna og skoðanaskipta og eru gestir á málþinginu hvattir til að taka virkan þátt í þeim.

Að þessu sinni eru fyrirlesarar á málþinginu fjórir og munu þeir koma að efninu úr ólíkum áttum. Hér gefst gott tilefni til umræðna og skoðanaskipta og eru gestir á málþinginu hvattir til að taka virkan þátt í þeim. 

Dagskrá

Fundarstjórn: Ásta Svavarsdóttir og Guðrún Kvaran

13:00 – 13:40    Jón Hilmar Jónsson: Samfelld orðabók: áfangar og endurnýjun
13:40 – 14:20    Laufey Leifsdóttir og Mörður Árnason: Orðabók í hálfa öld
14:20 – 14:50    Kaffihlé
14:50 – 15:30    Gottskálk Þór Jensson: Klassísk orða- og textasöfn í rafrænum spuna
15:30 – 16:10    Gauti Kristmannsson: Þegar manni verður orða vant! Um málvöndun og umvöndun!
16:10 –              Almennar umræður

2007-03-16T13:00:00 - 2007-03-16T16:00:00