Skip to main content

Viðburðir

Sigurðar Nordals fyrirlestur

14. september
2024
kl. 17–18

Edda
Arngrímsgötu 5
107 Reykjavík
Ísland

Sigurðar Nordals fyrirlestur er haldinn 14. september ár hvert. Fyrirlesari að þessu sinni er Veturliði Óskarsson, prófessor í norrænum fræðum við Uppsalaháskóla í Svíþjóð.

Tökuorð og erlend áhrif fyrr og nú

Oft er því haldið á lofti hversu „hrein“ íslensk tunga sé, lítt mörkuð af öðrum tungumálum og erlend orð fá miðað við það sem gerist í helstu nágrannamálum. Í þessum fyrirlestri verður skyggnst um í sögu tungumálsins fyrr og síðar og hugað að ástæðum fyrir þessum „hreinleika“ og hvað málstefna undanfarinna 150 ára hefur lagt þar á vogarskálarnar. Í framhaldinu verður litið á stöðu íslensks máls í dag, með sögu þess í baksýnisspeglinum, og framtíðarhorfur ræddar.

Veturliði Óskarsson

Veturliði lauk BA-prófi í málvísindum frá Háskóla Íslands 1985 og stundaði cand.mag.-nám við sama skóla 1985–1986. Hann lauk mag.art.-prófi í norrænum fræðum frá Kaupmannahafnarháskóla 1991 og doktorsprófi í norrænum málum frá Uppsalaháskóla 2001. Í doktorsritgerð sinni fjallaði Veturliði um lágþýsk tökuorð í íslensku frá 1200 til 1500, einkum í opinberum bréfum og skjölum. Ritgerðin var gefin út í ritröð Árnastofnunar í Kaupmannahöfn árið 2003. Rannsóknir hans hafa einkum snúið að tökuorðum og erlendum áhrifum á íslenskt mál, aðallega fyrr á tímum, og hefur hann birt margar greinar um það efni. Einnig hefur Veturliði sinnt rannsóknum innan norrænnar textafræði og gefið út eldri texta, og um þessar mundir snýst rannsóknarstarf hans einkum um eitt af elstu handritum Grettis sögu. Eftir nám í Kaupmannahöfn starfaði hann um árabil fyrir Íslenska málnefnd og sem málfarsráðgjafi á fjölmiðlum. Veturliði starfaði sem lektor í íslensku við Uppsalaháskóla 1997–2003, dósent í íslensku árið 2003 við Kennaraháskóla Íslands, síðar Menntavísindasvið Háskóla Íslands, og var prófessor þar 2006–2010. Frá 2010 hefur hann starfað við Uppsalaháskóla sem prófessor í norrænum málum með séráherslu á íslensku, einkum íslenskt nútímamál og íslenskt mál að fornu, sem og textafræði og norræna málsögu. Veturliði hefur lengi verið ritstjóri tveggja tímarita, Ársrits Sögufélags Ísfirðinga (1993–2019) og Scripta Islandica frá 2010. 

Fyrirlesturinn verður haldinn í fyrirlestrasal Eddu laugardaginn 14. september. 

2024-09-14T17:00:00 - 2024-09-14T18:00:00