Skip to main content

Viðtal við Eirík Sturlu

Viðtal við Eirík Sturlu Ólafsson, íslenskukennara í Beijing, um kennslu í íslensku á tímum faraldurs

Íslenskukennsla við erlenda háskóla er mikilvægur þáttur í kynningu á íslenskri menningu og eflingu íslenskrar tungu almennt. Í flestum erlendum háskólum eru laun kennara að einhverjum hluta eða að öllu leyti greidd af skólunum sjálfum en íslensk stjórnvöld veita ýmiss konar styrki til kennslunnar við fimmtán háskóla. Fjárhagslegur stuðningur stjórnvalda er í samræmi við aukna áherslu á alþjóðasamstarf, hagsmunagæslu Íslands erlendis og vilja til að styrkja hvers konar menningarsamskipti. Árið 2008 hófst stuðningur við íslenskukennslu við Beijing Waiguoyu Daxue-háskólann (e. BFSU-Beijing Foreign Studies University) í Kína. Eiríkur Sturla Ólafsson, einn af þremur kennurum sem hefur gegnt starfi íslenskukennara þar í sex ár, fjallar um kennslureynslu sína á tímum faraldurs.

Hvenær hófst kennsluferillinn þinn?

Ég byrjaði að kenna í Sviss árið 2006 og var þar í eitt misseri við afleysingar fyrir kennara sem hafði kennt þar í fjöldamörg ár. Á þeim tíma sótti ég um starf íslenskukennara í Berlín, fékk starfið og var þar í sex ár sem reyndust mér mjög lærdómsrík. Eftir að hafa kennt í Sviss og Þýskalandi og svo nú í Beijingu, eða hvernig sem á að beygja það, þá er maður kominn með ágætisreynslu og getur held ég kennt hvar sem er. Nú er ég kominn með tólf og hálfs árs reynslu við kennslu íslensku erlendis sem átti bara að vara í eitt til tvö misseri þegar ég fór fyrst til Sviss. Ég get ekki sagt neitt annað en þetta hafi verið frábær tími.

Hvernig er íslenskukennsla við BFSU-háskólann í Beijing?

Starfið er geggjað og þetta er sennilega besta starf sem ég hef nokkurn tíma sinnt auk þess sem nemendurnir eru frábærir. Ég er með ellefu nemendur og fæ mikið að leika lausum hala í kennslunni sem er frábært. Ef ég til dæmis ber saman kennslu í tveimur löndum sem ég hef kennt í þá þurfti ég mikið að rökræða við nemendur í Þýskalandi − þeir vilja fá rök fyrir því af hverju hlutirnir eru svona en ekki hinseginn. En í Kína þá bara leggur þú hlutina upp og framvinda kennslunnar er þar allt önnur. Áætlun liggur fyrir, sem nemendur læra helst utan að, og verða fyrirspurnir að vera tengdar þessu ákveðna plani. Í Kína fær maður svolítið meira frelsi til að kenna og setja saman kennsluefni. Svo er mikill bónus að vera þarna því að veðrið er gott, þó að loftmengun geti verið mikil, og stutt er að ferðast til spennandi landa eins og Taívans og Japans.

Hvernig fer kennsla á tímum faraldurs fram?

Eftir vetrarmisserið í Beijing fór ég í vetrarfrí til Evrópu. Í byrjun árs var ég fastur í nokkurs konar sóttkví á Íslandi. Ég ætlaði að vera farinn til Kína fyrir löngu til að sinna kennslu minni í Beijing en ég átti bókað flug út 15. febrúar. Ég hafði því verið einn og hálfan mánuð í landinu og sinnti fjarkennslu á netinu. Ég notaði netsvæði við háskólann úti þar sem ég þurfti að hlaða niður öllu af netinu á stafrænt form í hverri viku. Ég átti allt kennsluefnið að mestu leyti til en hef þurft að setja inn lesefni og annað og færa yfir á stafrænt form. Ég hlóð þessu niður á netsvæði í Kína og þar með gat skólinn fylgst með því að ég væri að stunda vinnuna mína. Ég sendi síðan nemendum mínum í gegnum önnur forrit bæði efnið sem og námsáætlun sem ég hafði gengið frá áður en ég byrjaði að kenna í netkennslu á vormisserinu. Þannig að í rauninni gerði ég bara vikuáætlun sem var byggð á námsáætlun fyrir önnina þó með smátilfæringum hér og þar. Þetta þýðir að ég sendi nemendum mínum alltaf námsefni á föstudögum fyrir komandi viku og á þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum hittumst við alltaf tvo tíma á dag og fórum í gegnum námsefnið. Einn tími var aðallega tengdur málfræðinni og byggður þannig upp að nemendur báru upp spurningar í stað þess að ég væri með einhverja töflukennslu sem er náttúrulega erfitt í gegnum svona forrit. Við notuðum spjallforrit líka samhliða og þetta var eins og segir maður á ensku learning by doing process. Ég fór alltaf á fætur milli klukkan átta og níu á morgnana og „kaffaði“ mig í gang. Svo kenndi ég á milli kl. 11 til 13 eða kl. 12 til 14, stundum aðeins lengur, stundum aðeins skemur, það fór eftir því hvað var í gangi. Þar sem Ísland er á öðru tímabelti þá var netkennslan hjá þeim úti um kvöldmatarleytið, milli kl. 19 og 21 eða á milli kl. 20 og 22. Þessi tímamismunur getur stundum sett strik í reikninginn en að finna heppilegar stundir fyrir fjarkennslu er auðvitað bara spurning um skipulag. Nemendurnir, sem stunda nám í stjórnmálafræði, voru svo náttúrlega í fjarkennslu í öðrum kúrsum í Kína og fór sú kennsla fram á daginn. Þegar kom að íslenskukennslunni áttu þau yfirleitt lausar stundir á kvöldin og því hentaði þessi tími mér mjög vel.

Hversu oft er íslenska notuð í kennslunni?

Það fer eftir því hvað við erum að gera. Þegar við ræðum um lestexta þá er kennsluefnið íslenska. En þegar málfræðin er útskýrð þá skipti ég svolítið á milli íslensku og ensku. Og svo er ég líka með þýðingarkennslu. Það er svo gott að nota þýðingar bara í setningafræði og öðru slíku, þau læra svo mikið af því, þá útskýri ég mest á ensku. En þegar ég útskýri þýðingarnar þá eru náttúrulega margar útgáfur af hverri setningu sem þýdd er og þetta eru svolítið erfiðar þýðingar, en þar sem nemendurnir eru aðeins í fjórðu önn þá reyni ég að leggja áherslu á að íslenska sé notuð sem mest. Í venjulegri kennslu, í eðlilegu árferði en ekki í þessu veirudæmi, þá er kennslumálið íslenska, hundrað prósent.

Hvernig er skipulagning íslenskunáms við BFSU?

Íslenskunámið tekur í rauninni fjögur ár og þar af er eitt ár skiptinám. Nemendur mínir klára grunnnámið sem er tvö ár hjá mér og í því er lokið við málfræðiþátt námsins. Þetta er síðasta önnin í málfræðinni og fara nemendurnir síðan í skiptinám til Íslands skólaárið 2020−2021. Eftir það fer síðasta árið hjá þeim mestmegnis fram í valkúrsum og svo skrifa þeir BA-ritgerð. Hver hópur fylgir íslenskukennaranum í fjögur ár og engir nýnemar eru teknir inn á þeim tíma. Svo kemur eitt ár er nokkurs konar rannsóknarleyfi á meðan nemendurnir eru í skiptinámi á Íslandi. Sum ár hefur háskólinn boðið upp á íslensku sem valfag. Ég kenndi íslensku sem valfag í eitt ár og sóttu um fimmtíu nemendur námskeiðið.                    

Hvernig sérðu framhaldið fyrir þér?

Það er góð spurning vegna þess að öll mín tilvera er náttúrlega eins og hjá mörgum í svolítilli upplausn þessi misserin. Allt dótið mitt er enn þá í Kína og ég er eins og í bakpokaferðalagi. Ég er fastur á milli staða og vona að ástandið batni sem allra fyrst þó að mér sýnist það nú ekki að vera á döfinni á næstunni svona miðað við fréttaflutning.

 

Branislav Bédi tók viðtalið. Frekari upplýsingar um íslenskukennslu í háskólum erlendis má finna hér.