Skip to main content

Endurmenntunarstefna

Endurmenntunarstefna Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Endurmenntunarstefna og framkvæmd hennar er liður í því að allt starfsfólk eigi ávallt kost á fræðslu og endurmenntun sem eykur hæfni þess í starfi og á sínu fræðasviði og auðveldar því að takast á við ný og krefjandi verkefni í starfi og einkalífi.

Endurmenntun og fræðsla felst m.a. í því að sækja námskeið, ráðstefnur og fundi sem nýtast í starfi og í einkalífi.

Starfsfólk er hvatt til að
• kynna sér og nýta eftir föngum þá endurmenntunarmöguleika sem í boði eru á vegum stéttarfélaganna
• kynna sér og nýta þau námskeið, m.a. tölvunámskeið, á vegum Háskóla Íslands sem kynnu að standa starfsmönnum stofnunarinnar til boða vegna hins nána samstarfs við háskólann

Stofnunin hefur ákveðið svigrúm til að
• gefa starfsmönnum sem þess óska kost á að nýta hluta vinnutímans til að sækja styttri námskeið og jafnvel stunda nám sem leiðir til prófgráðu í sérgrein sem tengist starfinu
• styrkja starfsfólk sem þess óskar með greiðslu endurmenntunarkostnaðar

Forstöðumaður er ábyrgur fyrir framkvæmd endurmenntunarstefnunnar en skipar þriggja manna endurmenntunarteymi sér til aðstoðar. Hlutverk þess er að fylgja endurmenntunarstefnunni eftir í framkvæmd og gera tillögur um endurskoðun hennar, skipuleggja árlegan fræðsludag, taka við óskum frá starfsmönnum um kostnaðarþátttöku og leyfi til að sækja endurmenntun í vinnutíma, og gera tillögur til forstöðumanns um afgreiðslu þeirra óska.

Endurmenntunarstefnan er samþykkt í október 2020 og verður endurskoðuð í samráði við starfsmenn að þremur árum liðnum eða fyrr ef þurfa þykir.