Skip to main content

Fréttir

Ársskýrsla Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum 2019

Ársskýrsla Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum fyrir árið 2019 var kynnt með óvenjulegum hætti að þessu sinni. Sökum COVID-19 faraldursins var ársfundi stofnunarinnar aflýst í ár þar sem ekki var hægt að tryggja nægilega fjarlægð á milli gesta. Forstöðumaður Árnastofnunar fór því í heimsókn í mennta- og menningarmálaráðuneytið ásamt nokkrum starfsmönnum og afhenti ráðherra eintak af skýrslunni.

Heimsókn í Hús íslenskunnar

Starfsmenn Árnastofnunar og Íslenskudeildar Háskóla Íslands heimsóttu nýlega byggingarsvæði Húss íslenskunnar en húsið mun verða framtíðarstarfstöð þeirra. Arkitektar og starfsmenn Ístaks og Framkvæmdasýslu ríkisins tóku á móti starfsfólki og gengu um svæðið.

Í húsinu verður miðstöð rannsókna og kennslu í íslenskum fræðum: tungu, bókmenntum og sögu. Þar verða einnig handritin hýst og rannsóknarbókasafn stofnunarinnar auk sýningarrýmis fyrir almenning.

Júdít og Makkabear: Fornar biblíuþýðingar gefnar út

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hefur gefið út fyrstu tvö heftin í nýrri ritröð sem nefnist Fornar biblíuþýðingar. Henni er ætlað að koma á framfæri gömlum íslenskum biblíutextum sem hafa ekki birst í heildarútgáfum Biblíunnar á íslensku. 

Árnastofnun hefur samþykkt stefnu um opinn aðgang

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hefur mótað og samþykkt stefnu um opinn aðgang og opin gögn. Með opnum aðgangi er átt við að hver sem er geti kynnt sér efni eða lesið bækur og greinar í gegnum opinn vefaðgang.

Alþjóðlegur sumarskóli í íslenskri tungu og menningu

Alþjóðasvið Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum skipulagði tvo sumarskóla í íslenskri tungu og menningu á þessu sumri. Alls tóku tæplega sextíu nemar þátt í þessum námskeiðum. Nýlega lauk fjögurra vikna norrænu fjarnámskeiði í íslensku sem haldið var á vegum hugvísindasviðs Háskóla Íslands og stofnunarinnar.  Í byrjun júlí hófst svo fjögurra vikna alþjóðlegur sumarskóli í íslenskri tungu og menningu. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum stóð fyrir námskeiðinu í samvinnu við hugvísindasvið Háskóla Íslands og annaðist skipulagningu þess.

Nordkurs í fjarnámi

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum heldur árlega sumarnámskeið í íslensku fyrir erlenda nemendur. Vegna COVID-19 -faraldursins var brugðið á það ráð að halda íslenskunámskeið á netinu. Námskeið fyrir Nordkurs-nemendur hófst 8. júní. Að þessu sinni eru 27 nemendur skráðir frá Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Nokkrir þeirra nemenda sem skráðir eru hafa tekið þátt í Nordkurs áður og eru mjög hrifnir af þessu nýja fyrirkomulagi en hyggjast koma til landsins þegar tök eru á því.

Sumarstarfsfólk Árnastofnunar

Um 50 sumarstarfsmenn og verkefnaráðnir starfsmenn verða á starfsstöðvum Árnastofnunar í sumar. Þeir eru annars vegar á vegum Vinnumálastofnunar og hins vegar Nýsköpunarsjóðs.

nemendur úr Melaskóla
Handritin eru á leið til barnanna með nýju umfangsmiklu verkefni Árnastofnunar

Markmiðið með verkefninu Handritin til barnanna er að auka vitund og áhuga barna á menningararfinum sem býr í íslenskum miðaldahandritum. Árið 2021 verður liðin hálf öld frá því að fyrstu handritunum var skilað frá Danmörku en þau komu með herskipinu Vædderen sem lagðist að bryggju við gömlu höfnina í Reykjavík síðasta vetrardag, 21. apríl 1971. Af því tilefni safnaðist mikill mannfjöldi saman í miðbænum og fagnaði áfanganum. Handritin hafa síðan verið varðveitt á Árnastofnun í Árnagarði við Suðurgötu.

Greinakall − Orð og tunga 23

Frestur til að skila greinahandritum í 23. hefti Orðs og tungu (2021) er til 1. september 2020. Með því að senda inn handrit lýsir væntanlegur höfundur sig samþykkan því fyrirkomulagi að greinin verði birt samtímis á prenti og í rafrænni gerð. 

Vefsíða í kjölfar ráðstefnu um lagahandrit

Í nóvember á síðasta ári var haldin ráðstefna sem bar heitið Íslensk lög í samhengi og var á vegum Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Lagastofnunar Háskóla Íslands. Á ráðstefnunni komu saman sérfræðingar í handritafræðum og miðaldafræðum til þess að skoða Jónsbók og Kristinrétt Árna biskups Þorlákssonar, lagabækur sem skrifaðar voru í lok þrettándu aldar. Báðir þessir textar voru oft afritaðir, oft í sama handriti, alveg frá lagasetningunni til loka miðalda.