Skip to main content

Fréttir

Nýr ljósmyndari Árnastofnunar

Sigurður Stefán Jónsson hefur verið ráðinn ljósmyndari á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Sigurður lauk BFA-prófi í ljósmyndun frá School of Visual Arts í New York-borg í Bandaríkjunum 1986. Að loknu ljósmyndanámi í New York starfaði hann í tæp 3 ár sem lausráðinn aðstoðarmaður ýmissa ljósmyndara þar í borg. Fljótlega eftir heimkomu til Íslands 1989 öðlaðist hann meistararéttindi í ljósmyndun og hefur verið með eigin rekstur síðan þá.

Styrkjum úthlutað úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands 2019

Styrkjum úthlutað úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands 2019

Nokkrir fræðimenn sem starfa við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum fengu fjárstyrki til rannsókna. Til upplýsingar birtist hér listi yfir styrkþegana og rannsóknirnar:

 

Haukur Þorgeirsson: Stílmælingarrannsóknir á fornum íslenskum prósatextum

Ættarmót á dánardegi Árna Magnússonar

Á dánardegi Árna Magnússonar 7. janúar efndi starfsfólk á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum til ættarmóts Njáluhandrita og nýtti sér það tækifæri að hafa Reykjabók, sem lánuð var frá Kaupmannahöfn á sýninguna Lífsblómið, með á handritamótinu.

Gripla XXIX komin út

Í Griplu 2018 eru níu ritrýndar greinar og útgáfur, fjórar á íslensku, fjórar á ensku og ein á frönsku. Heimir Pálsson fjallar um tvær gerðir Skáldskaparmála Snorra-Eddu, Anders Winroth um íslenskan kirkjurétt hvað varðar skemmri skírn og hjónaband og Brynja Þorgeirsdóttir um ritgerðina „Af náttúru mannsins og blóði“ í Hauksbók. Þórhallur Eyþórsson veltir fyrir sér merkingu orðsins „aldrnari“, Árni Heimir Ingólfsson dregur fram tvö íslensk söngbókarbrot frá 16.

Vefur um lifandi hefðir opnaður

Þann 19. desember síðastliðinn var nýr vefur um lifandi hefðir opnaður formlega af mennta- og menningarmálaráðherra. Vefurinn var unninn af Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið. Umsjón með verkefninu hafði Vilhelmína Jónsdóttir lögfræðingur og þjóðfræðingur. Webmo design sá um vefsmíði. Vefurinn er hluti af ráðstöfunum íslenska ríkisins við innleiðingu á samningi UNESCO frá árinu 2003 um varðveislu menningarerfða, sem öðlaðist gildi hér á landi árið 2006.

Lagt inn í nýyrðabankann daglega

Nýyrðabanki Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (nyyrdi.arnastofnun.is) er vettvangur þar sem hægt að senda inn nýyrði. Bankinn hefur staðið almenningi opinn í rúman mánuð og gefur öllum kærkomið tækifæri til að leggja mat sitt á innsend nýyrði með því að gefa þeim „þumal upp“ eða „þumal niður“. Einnig má skrifa athugasemdir við nýyrði, s.s. að nefna dæmi um notkun nýyrðis eða að ræða mismunandi skýringar.

Styrkir Snorra Sturlusonar 2019

Í tilefni af 750. ártíð Snorra Sturlusonar, 23. september 1991, ákvað ríkisstjórn Íslands að efna til styrkja sem kenndir yrðu við nafn hans. Samkvæmt reglum um styrkina, sem gefnar voru út 1992, skulu þeir árlega boðnir erlendum rithöfundum, þýðendum og fræðimönnum til að dveljast á Íslandi í því skyni að kynnast sem best íslenskri tungu, menningu og mannlífi. Styrkirnir skulu veittir í þrjá mánuði hið minnsta og miðast við greiðslu á ferðakostnaði styrkþega og dvalarkostnaði innanlands.

Guðmundar sögur biskups II

Út er komið í ritröð Árnanefndar í Kaupmannahöfn, Editiones Arnamagnæanæ (Series B, vol. 7), annað bindi sagna um Guðmund góða Arason; sú gerð sem kölluð hefur verið B-gerð (GB). Guðmundur fæddist 1161 og var Hólabiskup frá 1203 til dauðadags 1237.

Sigurtunga – Vesturíslenskt mál og menning

Út er komin bókin Sigurtunga – Vesturíslenskt mál og menning í ritstjórn Birnu Arnbjörnsdóttur, Höskuldar Þráinssonar og Úlfars Bragasonar. Bókin inniheldur safn greina eftir 20 höfunda. Þær tengjast nýrri rannsókn á máli og menningarlegri sjálfsmynd fólks af íslenskum uppruna í Vesturheimi og fjalla um sögu vesturfaranna, bókmenntir og málþróun vestra. Forseti Íslands skrifar formála.