Skip to main content

Fréttir

Fræðslufundur um nafnfræði

Nafnfræðifélagið heldur fræðslufund laugardaginn 20. október, kl. 13.15 í stofu 202 í Odda, húsi Háskóla Íslands.

Oddgeir Eysteinsson framhaldsskólakennari talar um

Hliðstæður í örnefnum á Íslandi og Suðureyjum.

 

Einar Freyr Sigurðsson hefur störf á orðfræðisviði

Einar Freyr Sigurðsson hefur verið ráðinn rannsóknarlektor á orðfræðisviði stofnunarinnar. 

Einar lauk doktorsprófi árið 2017 frá University of Pennsylvania í Bandaríkjunum og hefur síðan starfað sem nýdoktor í rannsóknarverkefninu Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis, sem stýrt er af Sigríði Sigurjónsdóttur og Eiríki Rögnvaldssyni.

Árnastofnun á Vísindavöku

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum var einn af tæplega fimmtíu þátttakendum á Vísindavöku Rannís 2018.

Fjölmenni sótti Vísindavöku sem í þetta sinn var haldin í Laugardalshöllinni. Þar gafst áhugasömum kostur á að kynna sér rannsóknir og starfsemi fjölmargra mismunandi stofnana, skóla, félaga og fyrirtækja sem vinna að vísindum á Íslandi og víðar.

Bás Árnastofnunar bauð fólki að kynnast fjölbreyttum gagnagrunnum og möguleikum í gegnum tölvutækni, auk þess að bjóða börnum á öllum aldri að prófa að skrifa á kálfskinn með fjöðurstaf og heimalöguðu jurtableki.

„og volsa mikið í veröldinni, en vita hvorki á né b“

Nafnfræðifélagið heldur fræðslufund laugardaginn 22. september 2018, kl. 13.15 í stofu 202 í Odda, húsi Háskóla Íslands. Aðalsteinn Hákonarson, verkefnisstjóri á nafnfræðisviði Árnastofnunar, flytur fyrirlestur sem hann nefnir:

„og volsa mikið í veröldinni, en vita hvorki á né b“. Úr sögu íslensku bókstafanafnanna

Nordkurs námskeið í Reykjavík

Alþjóðasvið Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Hugvísindasvið Háskóla Íslands annast skipulagningu á árlegu fjögurra vikna námskeiði í íslensku fyrir um 32 norræna stúdenta sem fram fer í Reykjavík dagana 4.–28. júní. Námskeiðið er allt að 10 ECTS og samanstendur af rúmlega 70 kennslustundum. Auk íslenskunámsins hlýða þeir á fyrirlestra um íslenskt samfélag og menningu og heimsækja sögustaði á Suður- og Vesturlandi.

Vefsíða um lifandi hefðir á Íslandi

Hjá Stofnun Árna Magnússsonar í íslenskum fræðum er nú unnið að verkefni um óáþreifanlegan menningararf á Íslandi. Verkefnið er unnið í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneyti og tengist samningi UNESCO um varðveislu menningarerfða frá árinu 2003 sem öðlaðist gildi hér á landi árið 2006.

Bókmenntasaga Jóns Ólafssonar kemur út í fyrsta sinn á prenti

Bókmenntasaga Jóns Ólafssonar úr Grunnavík er í hópi fyrstu íslensku bókmenntasagnanna og kynnir hún lesendum hugmyndir 18. aldar manna um bókmenntir. 

Þórunn Sigurðardóttir rannsóknarprófessor og Guðrún Ingólfsdóttir fræðimaður hafa frá árinu 2002 unnið að útgáfu á bókmenntasögu Jóns Ólafssonar úr Grunnavík. Verkið er komið út og fær nánari kynningu ásamt öðrum bókmenntasögum 18. aldar laugardaginn 8. september kl. 13.30 í Þjóðarbókhlöðunni.