1. september verða 10 ár liðin frá sameiningu fimm lykilstofnana á sviði íslenskra fræða sem saman mynda Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Hinn 2. júní 2006 samþykkti Alþingi Íslendinga lög um Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Samkvæmt þeim voru Íslensk málstöð, Orðabók Háskólans, Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi, Stofnun Sigurðar Nordals og Örnefnastofnun sameinaðar frá og með 1. september 2006. Hin nýja stofnun tók við skyldum stofnananna fimm og þeim verkefnum sem þær sinntu. Fyrsti forstöðumaður stofnunarinnar var dr. Vésteinn Ólason.