Skip to main content

Fréttir

Vinna við gerð íslensk-franskrar orðabókar hafin

Í lok september var fyrsti vinnufundur aðstandenda íslensk-franskrar orðabókar haldinn í Reykjavík. Verkefnið byggir á ISLEX-orðabókinni og er samstarfsverkefni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum.

Í tengslum við fundinn var haldið námskeið á orðfræðisviði Árnastofnunar fyrir þýðendur á frönsku þar sem verkefninu var formlega hleypt af stokkunum.

Kynning á norskri útgáfu Flateyjarbókar

Ný og  ríkulega myndskreytt útgáfa af Flateyjarbók er nú að koma út hjá norska forlaginu SagaBok og verður efnt til kynningar á verkinu í Fróða, sal í húsi Íslenskrar erfðagreiningar, Sturlugötu 8, Reykjavík föstudaginn 30. október næstkomandi klukkan 16.30.  Að kynningunni standa auk SagaBok norska sendiráðið í Reykjavík og Lærdómssetrið á Leirubakka.

Á fundinum munu flytja ávörp og ræður Guðrún Nordal forstöðumaður Árnastofnunar, Torgrim Titlestad prófessor í Stafangri, Anders Kvåle Rue myndlistarmaður og Cecilie Landsverk, sendiherra  Noregs á Íslandi.

Stafræn yfirfærsla gamalla hljóðrita og rafræn varðveisla sýninga

Fyrirlestur á vegum Félags íslenskra safna-og safnmanna (FÍSOS)
Miðvikudagur 14. október kl. 12:05-13:00
Fyrirlestrasalur Þjóðminjasafns Íslands
Allir velkomnir

 

Bjarki Sveinbjörnsson og Jón Hrólfur Sigurjónsson frá Tónlistarsafni Íslands flytja erindið: 

Stafræn yfirfærsla gamalla hljóðrita og rafræn varðveisla sýninga.

Nýr starfsmaður

Kristín Una Friðjónsdóttir hefur verið ráðin deildarstjóri í hálfsdagsstarf á alþjóðasviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Kristín Una lauk BA-prófi í spænsku og bókmenntafræði frá Háskóla Íslands árið 2006 og MA-prófi í alþjóðasamskiptum frá sama skóla árið 2014. Undanfarin ár hefur Kristín Una starfað sem verkefnisstjóri á skrifstofu Félagsráðgjafardeildar Háskóla Íslands.