Skip to main content

Ambátt

Orðið ambátt er tökuorð úr keltnesku og lengra aftur latínu ambactus ('þjónn') og merkir 'ófrjáls kona, þræll'. Það hefur komist snemma inn í germönsk mál og hefur verið í íslensku frá fyrstu tíð. Allnokkur örnefni eru með þessum orðlið:

Ambáttará fellur eftir Ambáttardal á Vatnsnesi í V-Hún. (Landnámabók), en hann er einnig nefndur í Heiðarvíga sögu. Annar Ambáttardalur er í Hvammshlíð í Vindhælishr. í A-Hún. Ambáttarsker er undan Fossá á Hjarðarnesi í V-Barð. og kemur við sögu Gísla Súrssonar. Fleiri Ambáttar-örnefni eru þekkt, t.d. Ambáttarhóll á Varmalæk í Andakíl í Borg., Ambáttarleiði á Hrærekslæk í Hróarstungu og Ambáttarþúfa á Hreiðarsstöðum í Svarfaðardal. Sagnir eru tengdar bæði Ambáttarskeri og Ambáttarþúfu.

Birt þann 20.06.2018