Skip to main content

Pistlar

Baráttan um tungumálið: Gleðikonur, gleðimenn og annað fólk

*„Frú Þuríður Kúld var gáfuð og mikilhæf, stórmannleg og gustmikil, glys- og gleðikona í meira lagi ...“. Kvennabaráttan er háð á mörgum sviðum og tilkall til jafnrar stöðu kvenna og karla snýr að margvíslegum félagslegum þáttum ekkert síður en lagalegum réttindum, þar á meðal að tungumálinu. Konur hafa gert kröfu til þess að dregið sé úr meintri karllægni máls og málnotkunar og að þær verði sýnilegri í daglegu máli sem sjálfsagður hluti þess samfélags sem um er rætt. Þar hefur margt verið tínt til, allt frá málfræðilegu kyni til merkingar einstakra orða, og hefur sitt sýnst hverjum eins og gengur í umdeildum málum. Það er til dæmis ekki alltaf samkomulag um það hvort og að hve miklu leyti meint misrétti felist í málinu sjálfu, málfræðilegum og merkingarlegum eiginleikum þess, eða því hvernig málnotendur hafa beitt því í tímans rás. Er notkun karlkyns til þess að vísa til fólks almennt, t.d. með því að segja „Allir eru jafnir fyrir lögunum“, málfræðilegur eiginleiki íslensku (og margra annarra mála) eða málvenja sem hefur mótast af því að karlar hafi verið ráðandi í samfélaginu frá alda öðli? Stríðir setningin „Öll eru jöfn fyrir lögunum“ gegn málkerfinu eða er hún framandleg vegna þess að hún stríðir gegn rótgróinni málvenju? Hvað merkir orðið maður og eru konur líka menn? Það er ljóst að maður hefur tvenns konar merkingu, það er annaðhvort tegundarheiti og þá óháð kyni eins og í setningunni „Maðurinn er spendýr“ eða samheiti við orðið karl eins og í „Skeggjaði maðurinn er frændi minn“ og vísar þá auðvitað ekki til kvenna. En hvar liggja mörkin? Hvenær vísar orðið til mannvera almennt og hvenær einungis til karla?

Í fjölmörgum tilvikum er maður notað sem andstæða við kona og getur þá ekki þýtt annað en ‛karl‘. Sú merkingarandstæða kemur líka fram í samsettum orðum og í málinu eru fjölmörg orðpör með síðari liðunum –maður og –kona, þar á meðal orð sem lýsa störfum fólks, áhugamálum eða eiginleikum. Í ritmálssafni OH eru á sjöunda hundrað slík pör og lausleg athugun bendir til þess að merking orðanna sé alla jafna hliðstæð og munurinn felist eingöngu í kynferði þess sem vísað er til: afgreiðslumaður og afgreiðslukonagarðyrkjumaður og garðyrkjukonabókakona og bókamaður. Eigi að síður eru ýmsar undantekningar frá þessum reglulegu merkingarvenslum. Þannig eru orðin leikkona og söngkona oftast notuð sem starfsheiti, hliðstæð leikari og söngvari. Orðið söngmaður hefur aftur á móti almennari merkingu, eiginlega `sá sem syngur', og leikmaður er ýmist haft um þá sem leika íþróttir, einkum einstaka keppendur í hópíþróttum, eða um leika menn, andstætt klerkum eða sérfræðingum. Taflmaður og taflkona geta haft hliðstæða merkingu (`sá/sú sem teflir') en fyrra orðið er jafnframt notað um hlutina sem teflt er með. Eftirfarandi tilvitnun sýnir enn eitt dæmi um merkingarmisræmi í slíkum orðapörum:

               Í myrkrinu stóðu strákar sem vildu vera gleðimenn í stappi við stelpur
               sem vildu ekki vera gleðikonur. Eru kynin dæmd til að farast ævinlega á mis?
               (Pétur Gunnarsson (1978:68)
    
Gleðimenn eru þeir kallaðir sem eru glaðværir, félagslyndir og gefnir fyrir skemmtanir. Búast mætti við að það sama ætti við um gleðikonur. Almennt merkir orðið gleðikona hins vegar `lauslætisdrós, vændiskona' og það er eina merkingin sem gefin er í íslenskum orðabókum. Saga orðanna gefur vísbendingar um hvernig þetta misræmi hefur skapast milli orðanna gleðimaður og gleðikona.

Orðið gleðimaður er gamalt og samkvæmt orðabókum um fornmálið var merkingin sú sama og nú, `fjörugur, glaðsinna maður', og hún kemur vel fram í lýsingu Þórólfs Kveldúlfssonar í upp­hafi Egils sögu (sjá útg. 1985:368):

Hann var líkur móðurfrændum sínum, gleðimaður mikill, ör og ákafamaður mikill í öllu og hinn mesti kappsmaður. Var hann vinsæll af öllum mönnum.

Mörg dæmi þessu lík eru í söfnum Orðabókar Háskólans. Engar heimildir eru hins vegar um orðið gleðikona í fornu máli og þess sér ekki stað í íslenskum samtímamáls­orðabókum fyrr en á 20. öld. Fyrst birtist það í Orðabók Sigfúsar Blöndals (1920–1924) og þýðing orðsins þar, 'glædespige', gefur vísbendingu um uppruna merkingarinnar:

Orðið gleðikona, orðabók

Þegar að er gáð kemur í ljós að í mörgum nágrannamálum eru hliðstæð orð, sömu merkingar, svo að í íslensku er greinilega um tökuþýðingu að ræða. Í dönsku eru dæmi um glæde(s)pige frá lokum 18. aldar og samsvarandi orð í sænsku er glädjeflicka. Danska orðið er talið vera sniðið eftir þýsku, Freudenmädchen, eða frönsku, fille de joie sem hefur verið notað sem skrauthvörf um vændis­konur allt frá 15. öld (sjá Grand Larousse 1973, Gamillscheg 1969).

Í ritmálssafni Orðabókar Háskólans eru allnokkur dæmi um orðið gleðikona, það elsta frá 18. öld, og mörg þeirra geyma fyrrnefnda merkingu. Sum dæmin ríma þó betur við merkingu orðsins gleðimaður. Þau eiga rætur í kvenlýsingum og eftirmælum og í þeim merkir gleðikona greinilega `glaðvær eða fjörug kona, kona sem er gefin fyrir gleðskap':

Þegar svo bar undir og hann var í æskilegu skapi, brá hann sér þangað með sveinum sínum til að líta eftir búinu og til að drekka þar og skemmta sér með þeim og fleiri vinum. Þórunn kona hans var líka oft með honum á þessum ferðum, því að hún var gleðikona hin mesta. (Torfhildur Hólm 1950:II,138)                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                

Frú Þuríður Kúld var gáfuð og mikilhæf, stórmannleg og gustmikil, glys- og gleðikona í meira lagi, kenjótt og keipótt og örskiptakona um skapsmuni [...] Þegar Þuríður var í gleðiskapi, snerist glaðværðin oft upp í galsa, er keyrði úr hófi fram um ærsl og ólæti. (Stein­grímur J. Þorsteinsson  1943:II,529)                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                     

Þú varst gleðikona að upplagi. [...] Gleði og alvara héldust í hendur og skópu þér farsæld, búsæld og hjúsæld. (Sigurður Guðmundsson  1946:283)                                                                                                                                

Þessi dæmi sýna að þrátt fyrir vitnisburð orðabóka hefur gleðikona ekki aðeins verið notað í tökumerkingunni ‛vændiskona’ heldur einnig til að tengja konur við gleði og gleðskap. Mætti halda þeirri merkingu meira á lofti þar sem gleði konunnar sjálfrar er í brennidepli og endurheimta þannig samræmið í merkingu orðanna gleðikona og gleðimaður.

Birt þann 22. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Ásta Svavarsdóttir. 1993. Gleðikonur og gleðimenn. Í: OrðAForði heyjaður Guðrúnu Kvaran 21. júlí 1993, bls. 14–17. Reykjavík.
Egils saga. Í: Íslendinga sögur. 1985. Fyrra bindi, bls. 368–518. Ritstj.: Jón Torfason, Sverrir Tómasson og Örnólfur Thorsson. Svart á hvítu, Reykjavík.
Gamillscheg, Ernst. 1969. Etymologisches Wörterbuch der französischen Sprache. [2. útg.] Heidelberg.
Grand Larousse de la langue française en six volumes. 1973. París.
Hellquist, Elof. 1948. Svensk etymologisk ordbok. [3. útg.] Gleerup, Lundi.
Kluge, Friedrich. 1989. Etymologisches Wörterbuch der deutschen Sprache. [22. útg.] Walter de Gruyter, Berlín.
Ordbog over det danske sprog. I–XXVII. 1919–54. Kaupmannahöfn.
Pétur Gunnarsson. 1979. Ég um mig frá mér til mín. [2. útg.] Iðunn, Reykjavík.
Sigfús Blöndal. 1920–24. Íslensk-dönsk orðabók. Reykjavík.
Sigurður Guðmundsson. 1946. Heiðnar hugvekjur og mannaminni. Tónlistarfélag Akureyrar, Akureyri.
Steingrímur J. Þorsteinsson. 1943. Jón Thoroddsen og skáldsögur hans. I–II. Helgafell, Reykjavík.
Torfhildur Þ. Hólm. 1950. Jón biskup Arason. I–II. Ritsafn II–III. [2. útg.] Bókaútgáfan Norðri, Akureyri.

*[Þuríður, f. 2.  nóv. 1823 d. 26. des. 1899, var dóttir Sveinbjarnar Egilssonar rektors. Innsk. SMG]