Skip to main content

Pistlar

Flagðið Selkolla

Áramótin eru sá tími þegar alls kyns kynjaverur þjóðtrúarinnar eru á kreiki og því er við hæfi að rifja upp sagnir af flagðinu Selkollu sem Guðmundur góði Hólabiskup kvað í kútinn á ferð sinni um Vestfirði veturinn 1210. Selkolla kemur fyrst fyrir í Íslendinga sögu Sturlu Þórðarsonar en hún er aðalheimild um biskupstíð Guðmundar Arasonar (1207–1237) í fjórum sjálfstæðum biskupasögum sem um hann voru ritaðar á fyrri hluta 14. aldar. Þær eru nú auðkenndar með bókstöfunum A, B, C og D eftir skyldleika þeirra við samtímaheimildir. Í Íslendinga sögu og GA er þess getið að biskup hafi glímt við flagðið Selkollu á ferð sinni um Vestfirði en ekki er sagt frá því nánar. Sagan er aftur á móti í jarteinabók Guðmundar í GB[1] og hefur einnig verið í GC, sem ekki hefur verið gefin út, en þar er einungis niðurlag hennar varðveitt. Ítarlegust er sagan hjá Arngrími ábóta í GD þar sem henni fylgja einnig Selkolluvísur Einars Gilssonar lögmanns (d. 1369).[2]

Upphaf Selkollu er á þann veg að hjú nokkur, karl og kona, eru send með nýfætt barn til skírnar vestur í Steingrímsfirði. Á leið sinni koma þau að Miklasteini og leggja barnið þar niður en sjálf „víkja þau annan veg til saurlífis“. Er þau snúa aftur sýnist þeim barnið „blátt, dautt, ok ferligt“. Þau skilja það eftir en snúa við er þau heyra grát. Sýnist þeim barnið lifa en það er svo hræðilegt ásýndum að þau þora hvorki að koma nær né snerta það heldur snúa til baka og segja frá því sem fyrir hafði borið. Síðan er farið at leita barnsins en það er á brott. Litlu síðar verður vart konu einnar í byggðinni sem var „stundum með vænu áliti, en stundum með selshöfði“ og sást jafnt daga sem nætur.

Flagðið Selkolla hefur tekið sér bólfestu í nýfæddu og óskírðu barni, sem var utan kristins samfélags þar til skírn hafði farið fram, og aflvaki hennar er dauðsynd saurlífis. Af því fer Dálkur bóndi á Hafnarhólmi ekki varhluta. Sem hann stendur dag einn í nausti við skipasmíði birtist þar skyndilega kona sem honum sýnist vera húsfreyja sín. Bóndi tekur henni fagnandi og „nákvæmir hana með kjötlegu verki“ en kemst skjótt að því hann hefur verið brögðum beittur. Dálkur vill nú komast heim en Selkolla ver honum veginn. Mæddur og máttfarinn nær hann þó bænum um síðir og þekkir þar sína heimamenn en leggst í kör fyrir þá sótt „er sviklegur fjandans prettur hafði unnið hans náttúru“. Sækir nú þessi óhreini andi að Dálki af ákafa nótt sem nýtan dag og þora engir menn að koma nálægt nema dyggðugur frændi hans að nafni Þórir en Selkolla ræðst að honum um nótt „ok sprengir ór honum bæði augu“. Liggja þeir nú báðir sem hálfdauðir og treystist enginn sinn veg að fara í sveitinni því að Selkolla spratt upp úr jörðinni þegar síst varði. Þótt þessi óvinur sveimaði víða þóttist hún eiga heimili hjá bónda „er svikist hafði með hans háðulegt samband“.

Sérhver synd var álitin stafa af völdum djöfla[3] og hin formlega kenning kaþólsku kirkjunnar viðurkenndi tilveru þeirra. Djöflar voru misjafnlega aflmiklir en létu jafnan undan krossmarki. Á hina höndina stunduðu þeir látlausar sálnaveiðar með ýmsum brögðum svo sem hamskiptum og sjónhverfingum.[4] Menn í selshömum eru þekktir í þjóðtrú en hér er selurinn ekki annað en höfuðið. Í Fróðárundrum Eyrbyggja sögu sést selshöfuð skjótast upp úr eldgróf en engin tengsl eru þó rekjanleg milli þessara frásagna.[5] Hamskiptum og útliti djöfla voru lítil takmörk sett. Þeir sáust oft og einatt í líki fagurra kvenna en að baki lá ótti klerka sem sáu samhengi milli syndar, líkama og kvenkyns því að í fegurð kvenna fólst freisting sem leiddi menn til tortímingar ef djöfullinn komst í spilið.[6] Hugmyndin um mök púka í mannsmynd og manna er kunn úr djöflafræði kirkjunnar[7] og starfalaun Dálks fyrir að láta óvininn blekkja sig til saurlífissyndar eru lömun og dauði.

Örlög Þóris eru sömu ættar því úr honum sprengir Selkolla augun sem jafngildir atlögu að karlmennsku hans. Guðmundur biskup, sem var rómaður fyrir skírlífi og trúarstyrk, er að lokum beðinn um að beita „list“ sinni til að frelsa byggðina undan óvættinni og hún reynist fólgin í særingum sem voru opinberar og táknrænar kirkjuathafnir. Biskup manar nú Selkollu niður í jörðina með orðunum „Far niðr, fjandi, ok gakk eigi framar!“. Hann lætur síðan gera sex trékrossa og einn til viðbótar á stærð við hafnarkross og hefur þá með sér til þess altarishúss er nálægast var. Skyndilega birtist Selkolla álengdar en biskup víkur að henni með krossmarki, sýnilegs tákns þess að særingaþulurnar eru bornar fram í nafni hins krossfesta Krists, og Selkolla sekkur í jörðu eins og djöfla var siður.[8] Biskup þjónar nú fyrir altari en snýr síðan til baka og kemur krossunum fyrir umhverfis bæinn og uppi á stofuþekjunni til að varna því að hún komist upp úr jörðinni á ný.

Af Dálki er það að segja að hann var borinn til kirkju að ráði Guðmundar og andaðist þar skömmu síðar en Selkolla greip enn til hamskiptanna og tók sér bátsfar yfir Húnaflóann í líki beinknútu þar sem hún sást veltast á land. Einhver ráð hefur hún þó haft með að komast aftur til síns heima því að ég hef sannfrétt eftir konu sem lengi bjó á Hafnarhólmi að Selkolla sé enn á sveimi. Hún er þó öllu skaplegri viðureignar enda allur máttur úr djöflatrú landsmanna.

Birt þann 22. júní 2018
Síðast breytt 22. júní 2018
Heimildir

[1] Biskupa sögur I. Útg. Guðbrandur Vigfússon og Jón Sigurðsson. Kaupmannahöfn 1858, k. 34 – 35.

[2] Biskupa sögur I - II. Útg. Guðbrandur Vigfússon og Jón Sigurðsson. Kaupmannahöfn 1858 – 1878. k. 39 – 40 og 42 – 43. Beinar tilvitnanir eru til GD en stafsetning hefur verið færð til nútímamáls.

[3] E. Cobham Brewer, A Dictionary of MiraclesImitative, Realistic and Dogmatic. London 1901, xii – xiii.

[4] Kjartan G. Ottósson, Fróðárundur í Eyrbyggju, Studia Islandica 42, Reykjavík 1983, 34 – 37.

[5] Kjartan G. Ottósson, Fróðárundur í Eyrbyggju, 89.

[6] Marina Warner, Alone of All her Sex. The Myth and the Cult of the Virgin Mary. London 1976, 224 – 235.

[7] Kjartan G. Ottósson, Fróðárundur í Eyrbyggju, 88 – 89.

[8] Charles G. Loomis, White Magic. An Introduction to the Folklore of Christian Legend. Cambrigde Mass. 1948, 44.