Skip to main content

Pistlar

Heilagur Plácitus — Elsta uppskrift dróttkvæðrar drápu

Drápa er sérlega veglegt dróttkvæði með einu eða fleiri stefjum (eins konar viðlagi sem skotið er inn með ákveðnu millibili). Í eldri dróttkvæðum (um 800 til um 1100), sem geymdust í munnmælum og aðeins eru nú til brot af, var drápa oftast lofkvæði um vígaferli einhvers höfðingja. Síðar fóru menn að yrkja drápur um heilaga karla og konur – eins og þennan Plácitus (St. Eustachius). Þessi kvæði hafa oft varðveist í heilu lagi og voru líklega til skráð alveg frá upphafi. Handritið AM 673 b 4to er tímasett um 1200; það er greinilega ekki fyrsta uppskrift kvæðisins heldur afrit og aldur sjálfrar drápunnar er umdeildur. Hún er þó tæpast mörgum áratugum eldri en handritið.

Efni Plácitus drápu er latnesk helgisaga um kristinn rómverskan höfðingja sem varð píslarvottur vegna trúar sinnar. Kvæðið er aðeins að finna í þessu eina handriti og er því miður illa varðveitt. Handritið er aðeins fimm blöð á bókfelli og kvæðið hefur hvorki upphaf né endi og á þeim 59 erindum sem varðveist hafa eru bæði göt og rakablettir. En með hliðsjón af latnesku heimildinni og hinu stranga bragformi hafa textafræðingar, einkum Sveinbjörn Egilsson og Jón Helgason, í mörgum tilfellum getað giskað á sennilegar eyðufyllingar þar sem vantar í textann. Það er dæmigert fyrir aðstæðurnar við textaútgáfu áður en ljósmyndatæknin tók að þróast, að fyrsta útgáfa kvæðisins, útgáfa Sveinbjarnar Egilssonar sem var prentuð í Reykjavík 1833, er ekki byggð á sjálfu handritinu heldur uppskriftum sem íslenskir námsmenn í Kaupmannahöfn önnuðust. Hinir mörgu leshættir sem Sveinbjörn lagði til þar sem vantaði í textann, oft margir í sama erindi, standa í aðalatriðum óhaggaðir í nýrri útgáfum og verða að teljast meiriháttar afrek í sinni grein.

Það var ekki fyrr en undir lok tuttugustu aldar, þegar unnið var að útgáfu á Íslensku teiknibókinni, AM 673 b III 4to (sjá pistil janúarmánaðar), að sú merka uppgötvun var gerð að AM 673 b 4to hlyti að vera leifar af sama handriti og AM 673 a II 4to. Bæði handritsbrotin eru með sömu rithendi og í sama broti en það sem úrslitum ræður er að í báðum handritunum eru seinni viðbætur með sömu norsku hendi frá síðari hluta fjórtándu aldar. AM 673 a II 4to hefur að geyma leifar þriggja verka: í fyrsta lagi sjö blöð af hinum íslenska Physiologus með mörgum myndum, í öðru lagi tvær ólíkar stólræður (hómilíur) og fjallar önnur um tákngildi skipsins en hin um regnbogann. Fremur óljósar upplýsingar benda til þess að bæði AM 673 a II 4to og handrit Plácitusdrápu – og sömuleiðis Teiknibókin – hafi verið á Vestfjörðum á vissu tímabili en til Árna Magnússonar rötuðu þau gegnum millilið. Nánari rannsókn á textum brotanna tveggja kynni að leiða fleira í ljós um tilurð handritsins.

Það að Plácitus drápa tilheyrði sama handriti og Physiologus uppgötvaðist ekki fyrr en eftir að handritasafni Árna Magnússonar var skipt milli Reykjavíkur og Kaupmannahafnar og þess vegna eru handritabrotin tvö geymd hvort á sínum stað.

Birt þann 19. júní 2018
Síðast breytt 25. júní 2018