Upprunalegasti texti Snorra-Eddu?
Um þessar mundir er Trektarbók Snorra-Eddu á Íslandi í fyrsta sinn í fjórar aldir. Bókin er pappírshandrit frá lokum 16. aldar, ritað af Páli Jónssyni, bónda í Þernuvík við Mjóafjörð í Ísafjarðardjúpi. Trektarbók er eitt af mikilvægustu handritum sem varðveita Snorra-Eddu og er jafnan talin með fjórum meginhandritum verksins. Frá textafræðilegu sjónarmiði er handritið verðmætt því að það er óháð heimild um texta Eddu en ekki skrifað eftir neinu varðveittu eldra handriti.
Bókin er jafnframt sérstaklega dýrmæt fyrir þær sakir að skrifarinn hefur gert sér far um að afrita forritið nákvæmlega. Flestir skrifarar notuðu stafsetningu samtíma síns en Páll hefur að verulegu leyti fylgt hinni forneskjulegu stafsetningu forritsins. Handritið sem skrifað var eftir hefur greinilega verið gamalt, trúlega frá miðri 13. öld. Trektarbók er því mikilsverður gluggi inn í tímann þegar Edda var nýlega samin.
Athugasemdir um daglegt líf
Bókin er þó ekki aðeins heimild um miðaldir heldur varpar hún einnig dálitlu ljósi á samtíð sína við lok 16. aldar. Fremst í bókinni eru saurblöð þar sem finna má ýmislegt efni. Lengsti textinn þar er bréf til Páls Jónssonar frá Bjarna bróður hans. Bjarni ávarpar bróður sinn ástsamlega og með mörgum guðrækilegum orðum en kemur sér aldrei að því að bera upp neitt erindi. Eitthvað hefur greinilega komið fyrir Bjarna en hann gerir ráð fyrir að Páll hafi þegar frétt af því.
Á saurblöðunum má einnig sjá krot um eitt og annað hversdagslegt, þar á meðal þessa klausu um skepnurnar á bænum:
„Á Svartakolla bera þriðjudaginn í fimmtu viku vetrar en Gráhryggja laugardaginn þar eftir.“
Á sama blaði má finna svolitla nafnaromsu og ef til vill er það fólkið í Þernuvík sem um er að ræða. Þar á meðal eru „þrír Jónar“, „Imbur tvær“ og „Tobba, Steinka og Sigga“. Sést þar að sams konar gælunöfn hafa tíðkast á Íslandi um 1600 og við þekkjum í seinni tíð.
Ferðalag handritsins til Utrecht
Einn maður sem hefur skrifað nafn sitt í Trektarbók er Jón Arason í Vatnsfirði og þar fylgir ártalið 1626. Það ár hefur Jón eignast bókina og svo væntanlega haft hana með sér til Kaupmannahafnar þar sem hann stundaði nám. Þar hefur danski fræðimaðurinn Ole Worm einhvern tíma komist í bókina því að með hans hendi eru spássíuathugasemdir í henni þar sem handritið er borið saman við skinnbókina Codex Wormianus – annað af höfuðhandritum Snorra-Eddu. Á þessum tíma eru fræðimenn í Evrópu að kynnast því að ýmislegt hnýsilegt efni um fortíðina sé varðveitt í bókum frá Íslandi.
Það næsta sem við vitum með vissu um feril Trektarbókar er að þýski málfræðingurinn Christian Ravius hefur eignast hana, ef til vill í ferðum sínum til Danmerkur. Ravius fór víða um háskóla í Evrópu, tók að sér stundakennslu og svipaðist um eftir embætti.
Loks brosti gæfan við honum árið 1650 en þá skipaði Kristín Svíadrottning hann prófessor í austurlenskum málum við háskólann í Uppsölum en Svíar voru á þessum árum stórhuga í uppbyggingu á menntun og menningu.
Árið 1642 var Ravius hins vegar í Utrecht (Trekt) í Hollandi og þar gaf hann háskólabókasafninu þrjú handrit úr eigin safni, þar á meðal handritið af Snorra-Eddu sem hér er fjallað um. Þar hefur bókin átt sitt heimili síðan og látið gott af sér leiða því að hún hefur hvatt Hollendinga til rannsókna á Snorra-Eddu.
Skoðaðu Trektarbókar á stafrænu formi á vef háskólabókasafnsins í Utrecht.
Heimildir og frekara lesefni
Árni Björnsson (útg.). 1975. Snorra-Edda. Reykjavík: Iðunn. – Útgáfa Snorra-Eddu þar sem Trektarbók er lögð til grundvallar.
van Eeden, Willem (útg.). 1913. De Codex Trajectinus van de Snorra Edda. Leiden: Eduard IJdo. – Stafrétt útgáfa af Trektarbók ásamt greiningu á tengslum handritsins við önnur handrit Snorra-Eddu.
Faulkes, Anthony. 1985. Codex Trajectinus. The Utrecht manuscript of the Prose Edda. Kaupmannahöfn: Rosenkilde & Bagger. – Ljósprentuð útgáfa af Trektarbók með vönduðum inngangi.
Haukur Þorgeirsson. 2020. „Pappírsblöð Sveins Jónssonar í Wormsbók. Forrit og textagildi.“ Opuscula 18: 87–105. – Voru hlutar Trektarbókar afritaðir í Wormsbók á 17. öld eða var annað handrit notað?
Jaski, Bart. 2025. The Codex Trajectinus of the Prose Edda. An unexpected journey. – Pistill um sögu handritsins.
Síðast breytt 1. september 2025