Skip to main content

Pistlar

Helgikvæðahandrit frá 16. öld

AM 713 4to er skinnhandrit, 73 blöð (146 síður). Handritið hefur verið bundið inn á fyrri hluta 7. áratugar 20. aldar og eru bundnir framan við það seðlar með hendi Árna Magnússonar þar sem fram kemur að hann hafi fengið handritið í tvennu lagi. Annan hlutann fékk hann að gjöf frá biskupi Jóni Þorkelssyni Vídalín en hinn (sem var stærri miklu) var kominn til hans frá séra Árna Þorvarðssyni á Þingvöllum. Báðir voru hlutarnir komnir frá séra Ólafi Gíslasyni (1646–1714) á Hofi í Vopnafirði. Síðan segir Árni: „Hefur so sr. Ólafur í fyrstu átt heila bókina, og skilið hana að. Eg lagði so þetta saman, so sem það og saman heyrði.“ Bæði vantar nú framan og aftan á handritið og einnig á stöku stað innan úr því. Nokkur blaðanna hafa verið skert þegar á þau var skrifað, til dæmis bl. 60 (sem aðeins er mjór renningur) og 67. Þá eru sum blöð illlæsileg, einkum fremst í handritinu og upp við kjölinn. Handritið var afhent Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi 22. apríl 1988.  Samkvæmt rannsóknum Karls Ó. Ólafssonar bendir flest til þess að sami maður, Tómas Arason frá Stað í Súgandafirði, hafi skrifað handritið allt.

Í handritinu eru 53 kvæði, ýmist heil eða óheil, flestöll kristileg og er það tvímælalaust einna merkast þeirra handrita sem varðveita kaþólsk helgikvæði og á það skráð margt af því besta í trúarlegum skáldskap íslenskum fyrir daga Hallgríms Péturssonar.
Handritið byrjar í 6. línu 86. erindis Rósu og endar á lokaorðum 5. vísu Ólafsvísna II, „mest fyrir kenning kæra“. Einna þekktust kvæða í þessu handriti eru: Rósa, Lilja, Milska, Dæglur, Niðurstigningarvísur, Ljómur, Heimsósómar þrír (þar á meðal Heimsósómi Skáld-Sveins), Hugraun, Kvæði um Ögmund biskup, Máríuvísur nokkrar (þar á meðal Heilags anda höllin glæst), Tólf postula kvæði (og fleiri postulakvæði), Krossvísur (Jóns Arasonar) og Katrínardrápa (Kálfs Hallssonar).

Jón Helgason styðst einkum við AM 713 4to í útgáfu sinni að Íslenzkum miðaldakvæðum I–II enda texti þessa handrits jafnan elstur og traustastur og aðrar uppskriftir gjarnan runnar frá því og sum kvæðin eru einungis varðveitt þar og í afskriftum þess. Handritið getur ekki verið eldra en 1539 þar sem í Kvæðinu um Ögmund biskup er sagt frá því að Ögmundur lætur af biskupsdómi það ár og við tekur Gissur Einarsson (Sjá kvæðið á Braga – óðfræðivef. Aftur á móti er ekki líklegt að það sé miklu yngra þar sem öll kvæðin í því eru rammkaþólsk. Á blaðsíðu þeirri sem hér er sýnd (bls. 89 / bl. 45r) eru lok Máríuvísna (Salutatio Mariæ) er hefjast á „Ave, ágæt Máría“ og upphaf Máríukvæðis er hefst á orðunum „Heilags anda höllin glæst“.

 Helstu heimildir fyrir utan handritið sjálft:

Jón Helgason: Handritaspjall. Reykjavík 1958, bls. 65.
Íslenzk miðaldakvæði. Islandske digte fra senmiddelalderen I.2–II. Útg. Jón Helgason. København 1936–1938..
Karl Ó. Ólafsson: „Þrír feðgar hafa skrifað bók þessa ...“ Um þrjár rithendur í AM 510 4to og fleiri handritum. Ritgerð til MA-prófs í íslenskum fræðum. Hugvísindadeild. Háskóli Íslands, júní 2006, bls. 18–19 og 123–124.
Skráningarfærsla handrits AM 713 4to á handrit.is

Birt þann 19. júní 2018
Síðast breytt 25. júní 2018