Skip to main content

Pistlar

Metingur námsmeyja

Mynd úr handritinu AM 249 k fol. frá 1475–1525. Hægt er að stækka myndina.Sumarið 1998 sátum við Laufey Guðnadóttir, samstarfskona mín við gerð fræðsluvefsins Handritin heima, löngum stundum í handritageymslu Árnastofnunar og flettum handritum í leit að myndefni við umfjöllun okkar um bókagerð, myndskreytingar og sögu miðaldahandrita. Við höfðum sérstakan áhuga á ummerkjum um not bókanna, þar á meðal á spássíuskrifum, en það eru margvísleg skrif, krot eða krabb, sem skrifarar, eigendur eða notendur hafa bætt við á síðurnar, gjarnan á spássíur eða annars staðar utan við skriftarflötinn. Slík skrif geta varpað ljósi á ýmislegt forvitnilegt um tilurð, feril eða notkun bókanna.

Að þessu sinni vorum við þó að skoða ártíðaskrár undir safnmarkinu AM 249 a-q fol., en í þremur þeirra eru varðveittar heilsíðuskreytingar sem okkur lék forvitni á að sjá. Í handritaskrá Kristian Kålund kemur fram að sjö þeirra 23 handritabrota sem sett voru saman undir þessu safnmarki stóðu áður framan við Davíðssaltara og tvö framan við Grallara, en hvorttveggja innihéldu stundum nótur og voru jafnframt söngbækur sem nýttust við bænahald og messusöng. Í einu brotanna, nánar tiltekið AM 249 k fol., sem er samtíningur 12 blaða eða blaðleifa úr átta handritum, rákum við augun í spássíuskrif sem kættu okkar kvenlegu hjörtu, því þar stóð eftirfarandi klausa:

„en betur skrifar þo helga helldur en gudrun“

Skriftin er með nokkrum nýjabrag en þegar við bárum hana undir Stefán Karlsson handritafræðing, læriföður okkar og þáverandi forstöðumann Árnastofnunar, kvað hann upp úr um tímasetningu hennar til seinni hluta 16. aldar eða upphafs 17. aldar. Hann mundi ekki til þess, frekar en við, að hafa rekist á önnur skrif af sama tagi sem bæru jafn augljóst vitni um skriftarþjálfun stúlkna eða kvenna á þeim tíma.

Nú vill svo óheppilega til að í handritaskrá Kristian Kålund standa engar upplýsingar um feril eða sögu brotsins undir safnmarkinu AM 249 k fol. en jafnvel þótt svo væri voru nöfnin Helga og Guðrún svo algeng á 16. öld að óvíst er hvort tækist að finna þeim stöllum vísan stað í tíma og rúmi á spjöldum Íslandssögunnar. Í það minnsta verður ekki gerð tilraun til þess hér. Hins vegar fellur tímasetning skriftarinnar vel að þeirri hugmynd að í fyrsta lagi seint á 16. öld, eftir að lúterskur siður hafði fest sig nokkuð í sessi og rit kaþólskra kirkna og klaustra gegndu ekki lengur trúarlegu hlutverki við messuhald og tíðagjörð, hafi þótt hæfa að láta skrá yfir messudaga kaþólskra dýrlinga undir skriftaræfingar á borð við þær sem sjást á AM 249 fol. k – og reyndar fleiri varðveittum miðaldahandritum.

Enda þótt klausan með nöfnum þeirra Helgu og Guðrúnar leiði okkur ekki að ákveðinni niðurstöðu um hverjar námsmeyjarnar voru og nákvæmlega hvenær þær voru uppi, má engu að síður draga nokkra ályktun af þessu litla spássíuskrifi, því sá metingur sem þar kemur fram gefur til kynna að töluverður metnaður búi að baki honum. Augljóslega er bóklegur metnaður íslenskra kvenna langt í frá nýr af nálinni heldur á sér djúpar og sögulegar rætur, þó reyndar sé óvíst hversu margar þeirra höfðu möguleika á að framfylgja þeim metnaði á fyrri öldum.

 

[English translation]

Birt þann 22. júní 2018
Síðast breytt 22. júní 2018